Björgunarþyrla

9. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 11:12:00 (254)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Herra forseti. Í maímánuði sl. skipaði ég nefnd sem fékk það hlutverk að undirbúa framkvæmd á ályktun Alþingis og gera þar um tillögur. Hún átti jafnframt að gera heildarúttekt á flugrekstri Landhelgisgæslunnar, bæði að því er varðar björgunar- og eftirlitsflug, gera tillögur um val hentugra þyrlna og flugvéla til þessara verkefna og samstarf við aðra björgunaraðila og þar á meðal varnarliðið á Keflavíkurflugvelli. Björn Bjarnason alþm. var skipaður formaður nefndarinnar.
    Nefndin hefur unnið hratt og vel og 11. okt. sl. skilaði hún áliti. Mér barst það í hendur í gær. Í áliti nefndarinnar segir m.a. þetta, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin er þeirrar skoðunar að við val á nýrri þyrlu fyrir Landhelgisgæsluna eigi að huga að öflugri vél en TF-SIF er nú. Í raun er þá ekki nema um þrjár tegundir á heimsmarkaðnum að ræða. Um frekari skýringar á þessu er vísað til sérstakrar greinargerðar Þorsteins Þorsteinssonar.``
    Þá segir í áliti nefndarinnar: ,,Í greinargerð Alberts Jónssonar kemur fram að bráðabirgðakönnun hans hefur ekki leitt neitt í ljós sem fyrir fram ætti að hindra aukinn hlut Íslendinga í starfi björgunarsveitar varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli sem nú er alfarið á vegum liðsins. Hann bendir á tvo kosti. Annars vegar að Íslendingar annist björgunarþjónustuna fyrir varnarliðið og hins vegar að stofnað verði til samstarfs um rekstur björgunarþyrlna. Yrði annar hvor þessara kosta valinn hefði það í för með sér að ákvörðun um kaup á þyrlu eða þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna hlyti að miðast við sams konar vélar og varnarliðið notar þótt búnaður væri annar hjá Landhelgisgæslunni en varnarliðinu.
    Nefndin bendir á að ekki hefur verið rætt á stjórnmálalegum forsendum við fulltrúa Bandaríkjastjórnar um samstarf við varnarliðið. Telur hún nauðsynlegt að það sé gert ef það er vilji íslenskra stjórnvalda að kanna frekar þá kosti sem fram koma í greinargerð Alberts Jónssonar. Á meðan ekki liggur fyrir afstaða stjórnvalda til þess hvort vilji er til framangreinds samstarfs við varnarliðið telur nefndin sér ekki fært að taka ákvarðanir um einstakar tegundir á þyrlum. Er þetta sagt um leið og ítrekað er að brýnt sé að Landhelgisgæslan fái öflugri þyrlu til afnota fyrir björgunarsveit sína.``
    Þá segir enn fremur í álitinu: ,,Í landinu eru nú tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar, TF-GRÓ, sem ekki getur talist björgunarþyrla, og TF-SIF, auk þriggja þyrlna varnarliðsins sem fær væntanlega fjórar nýjar þyrlur til starfa í björgunarsveit sinni nú í vetur. Það er því með engu móti unnt að segja að hættuástand ríki um þessar mundir hér vegna skorts á björgunarþyrlum.
    Alþingi hefur ályktað um þyrlukaup meðal sjómanna og þeirra sem sinna slysavörnum og björgunarstörfum. Eru miklar væntingar vegna kaupa á nýrri þyrlu. Starfslið Landhelgisgæslunnar og þyrlu sveitarinnar er til þess búið að takast á við erfiðari verkefni en áður í samræmi við aukna reynslu. Þetta er þó háð því að öflugri og betri búin þyrla fáist, auk þess sem viðkomandi rekstur sé tryggður.
    Nefndin telur að stjórnvöld eigi að vinna hratt að ákvörðunum um kaup á öflugri þyrlu fyrir Landhelgisgæsluna. Fram kom í nefndinni að hugsanlegar viðræður við Bandaríkjamenn kynnu að taka langan tíma og þess vegna væri nauðsynlegt að kanna svo fljótt sem verða má markað á notuðum þyrlum til kaups eða leigu fyrir Landhelgisgæsluna. Vegna þess hve mikið er í húfi, bæði fjárhagslega og að öðru leyti, verða stjórnvöld að gefa sér tóm til að skoða alla kosti gaumgæfilega. Þar vegur þyngst endurmat á hlutverki Landhelgisgæslunnar og ákvörðunin um það hvort unnt sé að taka upp skipulagsbundið samstarf við varnarliðið með einum eða öðrum hætti.
    Leggur nefndin til að veitt verði heimild til formlegra viðræðna við bandarísk stjórnvöld um framtíðarskipan björgunarstarfsemi fyrir varnarliðið um leið og kannað sé til þrautar hvort hinar nýju þyrlur varnarliðsins hæfi íslenskum björgunaraðilum.``
    Þetta er niðurstaða nefndarinnar sem skipuð var til að undirbúa fyrsta skref í þessu máli. Dómsmrn. mun nú taka þessa skýrslu til skoðunar og undirbúa á grundvelli þeirra tillagna og þeirra athugana sem hér hafa farið fram næsta skref í þessu mjög svo mikilvæga hagsmunamáli sem Alþingi hefur réttilega ályktað um.