Björgunarþyrla

9. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 11:26:00 (259)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Herra forseti. Mér þykir að bæði hv. fyrirspyrjandi og hv. 8. þm. Reykn. hafi snúið býsna mikið út úr því sem ég greindi hér frá um undirbúning þessa máls. Það var tekið á þessu máli um leið og núv. ríkisstjórn var mynduð í þeim tilgangi að undirbúa þá ákvörðun sem vandlegast sem hér liggur fyrir. Ég hygg að það sé ekki um það ágreiningur á Alþingi hversu mikilvægt það er að styrkja Landhelgisgæsluna með nýrri, öflugri þyrlu.
    Í þeim niðurstöðum nefndarinnar sem ég las hér, en hún hefur unnið hratt og vel, kemur mjög skýrt fram sú skoðun að styrkja þurfi Landhelgisgæsluna til þyrlukaupa, en nefndin hefur líka tekið fyrir það verkefni sem henni var ætlað að athuga með víðtækara samstarf þeirra aðila sem að björgunarmálum vinna á þessu svæði. Það er skynsamlegt, bæði út frá öryggishagsmunum þeirra sem í hlut eiga, að allir þeir aðilar hafi sem nánasta samvinnu því að það er öryggismál, það er til þess að styrkja og bæta öryggi, ekki síst sjófarenda, að sem víðtækust samvinna sé þar um. Það er líka spurning um kostnað því að um leið og við ætlum að tryggja sem fullkomnasta öryggisþjónustu, að þá viljum við öll að það sé gert á sem hagkvæmastan hátt og fyrir því hefur verið unnið með þessum hætti, með vönduðum hætti á úttekt á flugrekstri Landhelgisgæslunnar og mögulegri samvinnu þeirra aðila sem með björgunarmál fara.
    Hv. 8. þm. Reykn. minnti hér á að heimilt hefði verið á lánsfjárlögum að taka 100 millj. kr. lán. Það var ekki ákveðin fjárveiting til þessa verkefnis, það var heimilt að taka 100 millj. kr. lán. Það þarf að ákveða með hvaða hætti á að borga lán þegar ákvarðanir af þessu tagi eru teknar. En þyrlan kostar allmiklu meira en 100 millj. kr. Hún getur kostað frá um 500 millj. upp í 800 millj. kr. og rekstur slíkrar þyrlu getur kostað frá 40 og upp í 80 millj. kr. á hverju ári. Það er þess vegna alveg augljóst að það þarf að vanda allan undirbúning á þann veg að við getum staðið að þessum ákvörðunum og framkvæmt þær með sómasamlegum hætti. Það er þess vegna sem lagt var í þá undirbúningsvinnu sem unnin hefur verið með skjótum hætti og á vandaðan veg og þar eru mjög skýrar niðurstöður um nauðsyn þess að efla þyrlukost Landhelgisgæslunnar. Það eru líka tillögur um nánara samstarf við björgunarsveit varnarliðsins. Ég lít svo á að þetta hvort tveggja sé mikilvægt til aukins öryggis fyrir sjófarendur og aðra þá sem þurfa á björgunarsveitum af þessu tagi að halda.
    Ég minni líka á að það er alþjóðleg samvinna á þessu sviði og það er vaxandi alþjóðleg samvinna á sviði björgunarmála og hún verður óhjákvæmileg og mikilvægari eftir því sem árin líða. Þessi viðkvæmni við þátttöku í samstarfi við erlenda aðila er því alveg óskiljanleg vegna þess að hún er beinlínis til hagsbóta fyrir þá sem hér þurfa á aðstoð að halda.
    Ríkisstjórnin mun svo, eftir að dómsmrn. hefur farið yfir efni þessarar skýrslu og metið tillögurnar, fjalla um næsta áfanga málsins og ég get tekið það fram hér að það verður unnið hratt og markvisst í þessu máli með hagsmuni þeirra í huga sem hér eiga mikið í húfi og á þann veg að fjárhagslegar forsendur þessara ákvarðana séu tryggðar. Þar verður ekki unnið með neinum losarahætti, þar verður ekki látið duga að afla 100 millj. kr. lánsheimildar án þess að tryggja hvernig það eigi að borga og það verður ekki látið duga að skrifa auða ávísun á það hvernig eigi að standa undir auknum rekstrarútgjöldum. Þess vegna þarf þennan vandaða undirbúning og þess vegna verður málinu haldið áfram og vinnu áfram við þetta mál með þeim hætti.