Björgunarþyrla

9. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 11:31:00 (260)

     Björn Bjarnason :
     Virðulegi forseti. Ég vil aðeins í tilefni af þeim orðum sem hafa fallið um störf þeirrar nefndar sem ég veitti formennsku geta þess að álitið er mjög ítarlegt og mér finnst eðlilegt fyrir þingmenn að þeir kynni sér það áður en þeir fella dóm um störf nefndarinnar. Það sem hæstv. dómsmrh. las upp voru kaflar úr áliti nefndarinnar og það er alrangt að draga þá ályktun af því sem hann las eða af störfum nefndarinnar að það sé markmið okkar að björgunarsveit varnarliðsins taki að sér björgunarstörf hér á landi. Þvert á móti ganga hugmyndirnar sem fram koma í áliti nefndarinnar út á það að Íslendingar fari alfarið með björgunarstörf hér á landi og taki við þessum störfum af björgunarsveitinni hjá varnarliðinu, með samstarfi við varnarliðið ef þannig verkast vill eða með því að taka þessa starfsemi algerlega að sér. Ég hvet þingmenn til þess að lesa þessa ítarlegu skýrslu og greinargerð áður en þeir fara að fella dóma um hana.