Málefni héraðsskólanna

9. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 11:34:00 (262)

     Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Sigurðardóttir) :
     Virðulegi forseti. Á þskj. 27 leyfi ég mér að spyrja hæstv. menntmrh. um málefni héraðsskólanna. Í fyrsta lagi spyr ég um það hvort menntmrn. hafi mótað almenna stefnu varðandi framtíð og hlutverk þessara skóla. Hafi það verið gert, þá vil ég gjarnan vita í hverju hún felst.
    Tilefni þessarar spurningar er óljós og ótrygg lagaleg staða þessara skóla og nægir í því sambandi að benda á niðurlagningu Héraðsskólans í Reykjanesi aðeins örfáum dögum áður en skólastarf átti að hefjast. Mega kannski fleiri skólar eiga von á slíkum tilskipunum frá menntmrn. innan skamms?
    Þá má einnig benda á að héraðsskólarnir hafa oft og iðulega tekið við nemendum af höfuðborgarsvæðinu og annars staðar að sem af ýmsum ástæðum hafa orðið að hverfa frá grunnskólanámi. Ekki er ég að leggja faglegt mat á þetta fyrirkomulag né mæla því bót.

Þetta er hins vegar staðreyndin og hlýtur að kalla á sérstakar hliðarráðstafanir af hálfu menntmrn. ef stefnan er sú að leggja niður skólana eins og allt útlit er fyrir.
    Í öðru lagi spyr ég hæstv. menntmrh. hvaða starfsemi eigi að taka við því skólastarfi sem verið hefur í Reykholti. Eins og fram kemur í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að skólastarf í Reykholti leggist af vorið 1992. Þar kemur hins vegar hvergi fram hvaða starfsemi eigi að taka við eða yfirleitt hvort einhver starfsemi eigi að vera þar. Mér er kunnugt um að á sl. vetri stóðu yfir viðræður við Menningar- og fræðslusamband alþýðu um að starfrækja þar félagsmálaskóla. Hvað líður þeim viðræðum?
    Í þriðja lagi spyr ég um stefnu menntmrn. í málefnum skólanna á Laugarvatni. Laugarvatn hefur fram til þessa skipað ákveðinn sess í skólamálum þjóðarinnar og m.a. með tilkomu fjölbrautaskóla og óöruggri stöðu héraðsskólanna hefur skólastarf á þessum stað verið í nokkurri hættu. Undanfarið hafa staðið þar yfir viðræður við heimafólk um samræmda löggjöf fyrir alla skólana á Laugarvatni frá grunnskóla til háskóla. Héraðsskólinn hefur þegar verið sameinaður menntaskólanum. Því vil ég spyrja um framhaldið.