Málefni héraðsskólanna

9. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 11:49:00 (270)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir ræðumenn hér þakka fyrir þessa fsp. Hún hefur vakið upp forvitnilegar umræður. En það sem ég hnaut sérstaklega um var það í svari hæstv. dómsmrh. sem vék að Héraðsskólanum í Reykjanesi. Mér heyrðist hann taka þannig til orða að ákvörðun hefði verið tekin um að leggja þann skóla niður.
    Eftir því sem menntmrh. gaf út gagnvart okkur þingmönnum, þá var yfirlýsingin á þá lund að hún gilti einungis um yfirstandandi skólaár og ekki lengur. Ég vil því spyrja hæstv. dómsmrh. hvort þarna hafi orðið breyting á, hvort menn hafi tekið ákvörðun til lengri tíma, áður en búið var að gefa þessa yfirlýsingu út. Ég vil einnig minna á að það er að mínu viti ákaflega erfitt að taka alla héraðsskóla landsins undir eina nefnd og reyna að leysa þau mál á heildargrundvelli. Það verður líka að gæta að því að hver skóli er í sínu umhverfi og hefur haft sitt hlutverk og það verður að leysa málefni hvers þeirra á sínum forsendum.
    Ég vil svo að lokum minna forseta á að það hefur verið beðið um utandagskrárumræðu um málefni Héraðsskólans í Reykjanesi.