Endurskoðun almannatryggingalaga

9. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 11:53:00 (273)

     Fyrirspyrjandi (Finnur Ingólfsson) :
     Virðulegi forseti. Fyrirspurn sú, sem ég hef lagt fram til hæstv. heilbr.- og trmrh., um endurskoðun almannatryggingalaga, kemur fram á þskj. 20 og hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Hyggst ráðherra leggja fram á Alþingi frumvarp það um almannatryggingar sem fyrrv. heilbr.- og trmrh. lagði fram á síðasta þingi og ekki var afgreitt?
     Ef ekki, hyggst þá ráðherra láta fara fram heildarendurskoðun á lögum nr. 67/1971, með síðari breytingum, um almannatryggingar, og þá með hvað að markmiði?``
    Fyrrv. heilbrrh. skipaði nefnd til þess að endurskoða lög um almannatryggingar. Það var í árslok 1987. Hún starfaði frá upphafi árs 1988 og fram í september 1990 og skilaði af sér frv. til laga um heildarendurskoðun á almannatryggingalögunum.
    Flestir þingflokkar, sem þá áttu sæti á þingi, áttu aðild að þessari nefnd. Þó var Kvennalistinn ekki aðili að nefndinni og á síðustu stigum nefndarstarfsins komu aðilar vinnumarkaðarins þar að, fulltrúar frá ASÍ og Vinnuveitendasambandi Íslands. Hv. fyrrv. þm., Árni Gunnarsson, var fulltrúi Alþfl. í þessari nefnd. Hann skrifaði undir nefndarálitið og studdi það sem þar kom fram en án þess að binda Alþfl. sem þingflokk í þeim stuðningi. Í fyrrv. ríkisstjórn settu fulltrúar Alþfl. sig hins vegar upp á móti þessu frv. og treystu sér ekki til að leggja það fram eða standa að samþykkt þess á Alþingi, fyrst og fremst af þeirri ástæðu að þar var gert ráð fyrir tekjutengingu ellilífeyris.
    Núna, þegar maður lítur á frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 og lítur á bls. 330, þá ætla ég að vitna þar í tvær setningar, með leyfi forseta:
    ,,Tengslum almannatrygginga við lífeyristryggingar utan almannatryggingakerfisins verður komið á fastan grundvöll. Við það er gert ráð fyrir að lífeyristryggingar í heild lækki um 330 millj. kr.``
    Það er með öðrum orðum gert ráð fyrir því að á fjárlögum næsta árs verði lífeyristryggingar lækkaðar um 330 millj. kr. Af þessu verður ekki annað ráðið en að gert sé ráð fyrir því að tekjutengja lífeyri almannatrygginga, þ.e. grunnlífeyrinn. Ef svo er, þá eru það nokkuð nýjar fréttir að þeir stjórnmálaflokkar, sem núna mynda meiri hluta hér á Alþingi, Alþfl. og Sjálfstfl., ætli að taka þessa tekjutengingu upp. Það var ítrekað reynt allan þann tíma sem fyrri ríkisstjórn starfaði að fá Alþfl. til fylgis við þessa stefnu að tekjutengja lífeyri lífeyristrygginga. Það var aldrei hægt. Sjálfstæðismenn, sérstaklega þeir sem þátt tóku í prófkjöri Sjálfstfl. í Reykjavík, skrifuðu margar greinar í Morgunblaðið um að þetta væri heilagur réttur sem lífeyrisþegar hefðu unnið sér inn og hann mætti aldrei snerta. En nú kemur það sem sagt í ljós að þessar hugmyndir eru uppi.
    Að lokum, virðulegi forseti. Útgjöld til tryggingamála munu aukast um hundruð millj. kr. á næstu árum verði ekkert að gert í almannatryggingalögunum og verði þau lög ekki tekin til endurskoðunar. Sú endurskoðun, sem fram fór á vegum fyrri ríkisstjórnar, hafði það að markmiði að færa til innan rammans, eins og við kölluðum það, þ.e. að koma í veg fyrir útgjaldasprengju sem yfirvofandi var í tryggingamálum, að færa frá þeim sem búa við góðar aðstæður og fá bætur út úr almannatryggingunum til þeirra sem búa við afskaplega erfiðar aðstæður og lök kjör.