Endurskoðun almannatryggingalaga

9. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 11:59:00 (275)

     Fyrirspyrjandi (Finnur Ingólfsson) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbr.- og trmrh. skýr svör. Af orðum hans má ráða og það er alveg skýrt að það á að fara fram heildarendurskoðun á almannatryggingalögunum. En hann svaraði ekki því sem mér finnst mestu máli skipta nú og því ítreka ég spurningu mína hér úr þessum ræðustóli til hæstv. heilbr.- og trmrh.: Þýða þessar 330 millj. kr. lækkun á lífeyristryggingunum fyrir næsta ár að það eigi að tekjutengja lífeyrinn? Ef svo er, þá verð ég einnig að spyrja: Hvað er það þá í því frv., sem fyrrv. heilbrrh. lagði fram á Alþingi, sem Alþfl. getur ekki stutt?