Stofnun hlutafélags um Skipaútgerð ríkisins

10. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 13:51:00 (283)

     Matthías Bjarnason :
     Virðulegi forseti. Skipaútgerð ríkisins hefur starfað allt frá árinu 1929 og hennar hlutverk var í upphafi og lengi vel mjög veigamikið. Hún sinnti svo að segja flutningum bæði á vörum og fólki vítt og breitt um landið. Á síðustu árum og áratugum hefur hlutverk Skipaútgerðarinnar breyst verulega þannig að viðkomustöðum hefur fækkað vegna þess að nýjar samgönguleiðir hafa orðið til. Eftir því sem vegagerð fleygir fram hafa samgöngur færst yfir á vegi landsins í staðinn fyrir á sjó. Farþegaflutningar Skipaútgerðarinar hafa svo að segja að öllu leyti lagst niður frá því að vera mestu farþegaflutningar hér á stríðsárunum og fyrstu árum eftir stríð. Þeir hafa farið fyrst og fremst yfir á flugvélarnar og með tilkomu nýrra og betri flugvalla og öruggari flugsamgangna hefur þessi þáttur Skipaútgerðarinnar að mestu leyti lagst niður.

    Samhliða þessu hafa vöruflutningar annarra skipafélaga orðið mun meiri og það er skýring á því sem hæstv. samgrh. gat um að engir flutningar hafa verið frá þessum smáhöfnum vegna þess að það eru aðrir flutningar sem eiga sér stað í útflutningi en í innflutningi. Eigi að síður verður ekki frá því vikist að Skipaútgerðin hefur enn þá nokkru hlutverki að gegna og enn eru staðir sem komast ekki í öruggt samband við samgöngukerfið á næstu árum þó að hinir staðirnir séu fleiri sem verða ekki vandamál innan nokkurra ára. Þetta vandamál verður samfélagið að leysa. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að ríkja miklu meiri samkeppni í flutningum til og frá landinu. Hvað vöruflutninga snertir eru þeir að verulegu leyti að færast mjög á eina hendi, eina til tvær eða þrjár. En þarna þurfa auðvitað að vera fleiri aðilar til þess að halda uppi samkeppni og á bak við það eru t.d. samþykktir Félags ísl. stórkaupmanna sem eru stærstu innflytjendur á vörum til landsins.
    Út af fyrir sig er það ánægjulegt að heill þingflokkur, og það ekki ómerkari flokkur en allur Framsfl. hér á þingi, skuli flytja frv. um stofnun hlutafélags um Skipaútgerð ríkisins. Einhvern tíma hefði það nú talist til stórtíðinda að Framsfl. tæki upp þessa afstöðu. Það er mjög ánægjulegt til að vita fyrir þá sem hafa verið hlynntir því sem hefur verið að gerast í Bretlandi á undanförnum árum að þangað sækir nú bara allur Framsfl. fyrirmynd sína, til frú Thatcher. Þeir vitna í að við sölu opinberra fyrirtækja í Bretlandi tíðkast að bjóða starfsmönnum hlutabréf á sérstökum kjörum. Sumir hafa talað frekar illa um gömlu konuna, en nú hafa opnast augu heils þingflokks fyrir því hvað hún hafi nú verið mild og góð og selt starfsfólki fyrirtækja bréf á sanngjörnu verði. Þetta út af fyrir sig er mjög ánægjulegt.
    Ég er þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt að stofna hlutafélag um strandsiglingar og vöruflutninga til og frá landinu. En ég saknaði þess í máli frsm. og 1. flm. þessa frv. að fá eiginlega engar skýringar með 1. gr., en þar segir:
    ,,Ríkisstjórnin skal beita sér fyrir stofnun hlutafélags er heiti Skipaútgerðin hf. Í því skyni er ríkisstjórninni heimilt:
    Að leggja allar eignir Skipaútgerðar ríkisins, þ.e. skip, fasteignir og allt fylgifé, til hins nýja félags.`` Passa þessar eignir? Eru þessi skip heppileg til frambúðar, bæði til að annast þjónustuna innan lands og sömuleiðis í millilandasiglingum? Það hefði verið mjög æskilegt að það hefði legið fyrir eitthvert álit um það.
    Í öðru lagi á að ákveða fjárhæð einstakra hluta með það í huga að einstaklingar og lögaðilar geti keypt hlut í félaginu. Það hefði líka verið fróðlegt að fá nokkurt yfirlit yfir það hvað hv. flm. hugsar sér í þessum efnum. Hvers virði telur hann að þessi skip, fasteignir og annað fylgifé séu og hverjar eru skuldir Skipaútgerðar ríkisins? Það eru ekki nema um 8--9 ár síðan að endurnýjaður var floti Skipaútgerðarinnar og farið var í mjög mikla fjárfestingu og sömuleiðis í byggingu hérna við Reykjavíkurhöfn. Þar með voru tekin ákaflega há lán sem þessi stofnun hefur ekki staðið undir og ég þekkti mjög vel til, a.m.k. um fjögurra ára skeið.
    Í þriðja lagi er í þessu frv. lagt til að selja 40% hlutafjár í félaginu með þeirri takmörkun að enginn einn aðili geti eignast meira en 10% hlutafjár. Ég spyr: Af hverju leggja flm. til að takmarka sölu á þennan hátt þegar verið er að leggja niður óheftan ríkisrekstur og fara yfir í hlutafélag? Af hverju leggja þeir til að ríkið eigi áfram 60% hlutafjár en aðeins að bjóða út 40%? Ég tel að þeir hafi gengið allt of skammt hvað þetta snertir. Því ekki að stefna að því að selja allt hlutaféð eins og það leggur sig? Það er ekkert óeðlilegt við það að ríkið eigi e.t.v. einhvern hlut á meðan verið er að selja.
    Hæstv. samgrh. minntist á þær breytingar sem verða nú á næstunni í samgöngumálum t.d. á Vestfjörðum með jarðgöngum í gegnum Breiðadals- og Botnsheiði sem færir auðvitað norðurbyggðir Vestfjarða saman þannig að ekki verður vandamál í þessum flutningamálum þar. Þegar kominn er fullkominn vegur yfir Hálfdán milli Bíldudals og Tálknafjarðar eru líka komnar mjög góðar samgöngur innan Vestur-Barðastrandarsýslu þannig að þörfin fyrir strandferðirnar fer minnkandi og aðrir aðilar gætu sinnt þeim. Hins vegar eru svo aftur sérstæður eins og Árneshreppur sem ekki breytist svo lengi sem við sjáum og það bil verður að brúa. Hv. flm. þessa frv. benda réttilega á þetta. En þeir setja inn í 6. gr. frv. að samgrh. skuli gera þjónustusamning við hið nýja hlutafélag þar sem kveðið skuli á um

þjónustuskyldu félagsins við afskekktar hafnir landsins og um endurgjald fyrir þá þjónustu. Hvers vegna á það heima í þessu frv. um Skipaútgerðina hf. að ríki sé skylt lögum samkvæmt að gera eingöngu samninga við þennan eina aðila? Ég vil standa að því að sú kvöð fylgi að meðan ákveðnir hlutar af landinu búa við erfiðar samgöngur, eins og þær hafnir sem hæstv. samgrh. gat um, eigi ríkissjóður og Alþingi auðvitað að sjá um að þessi byggðarlög séu ekki svipt eðlilegum samgöngum. En að binda það í lögum að það eigi að vera eitthvert ákveðið hlutafélag sem ríkinu sé skylt að gera samning við, það tel ég ekki rétt. Ég tel að þetta hafi ekki verið nóg hugsað af hálfu hv. flm. þessa frv.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri. Ég fagna því að menn séu almennt að hverfa frá þessum óhefta ríkisrekstri og algerum fjárskuldbindingum ríkisins og fara út á braut sem lagt er til með þessu frv. Ég tel rétt að þetta frv. fái eðlilega og þinglega meðferð en það þarf að svara ýmsum spurningum áður en Alþingi treystir sér að stíga slíkt skerf og sömuleiðis þarf Alþingi að kynna sér enn betur þau sjónarmið sem uppi eru hjá hæstv. samgrh. og ríkisstjórninni.