Stofnun hlutafélags um Skipaútgerð ríkisins

10. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 14:12:00 (285)

     María E. Ingvadóttir :
     Virðulegi forseti. Ég er hérna með örstuttar athugasemdir. Í 5. gr. frv. segir að samgrh. sé heimilt að semja um að hlutafélagið, sem stofnað verður, skuli gefa fastráðnu starfsfólki Skipaútgerðar ríkisins kost á sambærilegum störfum og þeir hafa gegnt hingað til. Í athugasemdum við 5. gr. segir hins vegar að ekki þyki rétt að binda hendur nýrra stjórnenda við endurráðningu. Stangast þetta ekki eitthvað á?
    Það hlýtur að vera eðlilegt að forráðamenn nýs fyrirtækis geri þær breytingar á starfsmannahaldi sem þeir telja æskilegt og þeim þykir þörf á til að ná fram meiri hagræðingu.
    Enn fremur segir í athugasemdum við 5. gr. að þeir starfsmenn sem nú eru í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins skuli halda réttindum sínum. Er það þá svo að starfsmenn þeirra ríkisfyrirtækja sem seld verða í framtíðinni haldi áfram þessum sérréttindum þó svo að launakjör þeirra verði í samræmi við hinn almenna launamarkað?
    Ég vil einnig taka undir orð hv. 1. þm. Vestf., Matthíasar Bjarnasonar, varðandi 7. gr. Ég tel að þar megi taka skýrar til orða, en þar segir: ,,Verði hlutabréf ríkissjóðs boðin til sölu, öll eða að hluta,`` o.s.frv. Í athugasemdunum kemur hins vegar fram að ríkissjóður skuli eiga a.m.k. 60% hlutafjár. Væri ekki eðlilegra að ríkissjóður ætti ekki nema t.d. 49% fyrstu fimm árin og síðan yrðu þau öll seld og að það kæmi þá skýrt fram að þarna væri verið að selja ríkisfyrirtæki en ekki aðeins að breyta um eignarhaldsform? Enn fremur hlýtur áhugi almennings á að eignast hlut í fyrirtækinu að vera minni ef ríkissjóður ætlar að eiga meiri hluta í því og ég tel að með því verði kostir einkavæðingar að engu gerðir.