Sjávarútvegsmál

10. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 14:40:00 (288)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
     Frú forseti. Hv. ræðumaður gerði hér að umtalsefni erfiðleika sjávarútvegsins á árunum 1987--1988 með heldur ómaklegum árásum á hv. 1. þm. Austurl. Hann hélt því fram að þáverandi stjórnvöld hefðu borið ábyrgð á þeim erfiðleikum, en eins og þingmenn vita gjörla, þá stöfuðu erfiðleikar sjávarútvegsins á þeim árum af því að á haustmánuðum 1987 byrjaði verð að falla á erlendum mörkuðum, gengi Bandaríkjadollars byrjaði síðan að falla og á árinu 1988 urðu kauphækkanir í sjávarútvegi mun meiri en ráð var fyrir gert. Mér finnst það vera ómakleg árás, ekki síst af hálfu þingmanns stjórnarandstöðunnar, að ráðast hér með þessum hætti á hv. 1. þm. Austurl. sem þá gegndi embætti sjútvrh. og halda að hann beri ábyrgð á því að verð hafi fallið á erlendum mörkuðum, að gengi Bandaríkjadollars hafi lækkað og kauphækkanir hafi orðið meiri en ráð var fyrir gert, það finnst mér vera ómakleg árás á hv. 1. þm. Austurl. og nauðsynlegt að grípa inn í umræðuna til að taka upp hanskann fyrir hann í þessu efni.
    Hitt er annað mál að á endanum varð ágreiningur um það hvernig átti að bregðast við þessum erfiðleikum. Það var góð samstaða um það að aðlaga gengi krónunnar í febrúar 1988 og aftur í maí að breyttum aðstæðum, en haustið 1988 sneri Framsfl. við blaðinu og neitaði frekari aðlögun á gengi krónunnar til að tryggja rekstur sjávarútvegsins og þess vegna slitnaði upp úr því samstarfi. En að halda því fram að hv. þm. hafi borið ábyrgð á þessum breytingum á ytri aðstæðum er mikil óskammfeilni.