Sjávarútvegsmál

10. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 14:42:00 (289)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :

     Virðulegi forseti. Mér þykja svörin vera fátækleg hjá hæstv. sjútvrh. þegar hann skýtur sér á bak við hv. 1. þm. Austurl. Auðvitað er það viðfangsefni stjórnvalda að bregðast við með stjórnvaldsaðgerðum þegar aðstæður breytast erlendis sem menn fá ekki við ráðið og það var nákvæmlega það sem hæstv. sjútvrh. gerði ekki á sínum tíma þegar hann hélt dauðahaldi í sína fastgengisstefnu. Ég vil minna ráðherrann á það að eitt af þeim verkum sem hann hefur hvað mest lofað á sínum embættisferli var að gefa vextina frjálsa og eitthvað hafa þeir nú kostað.