Sjávarútvegsmál

10. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 14:44:00 (291)

     María E. Ingvadóttir (andsvar) :
     Heiðraði forseti. Ég vona að ég hafi misskilið hv. 5. þm. Vestf. þegar hann mælir gegn því að afli sé unninn um borð í frystitogurum. Það getur varla verið að þingmaðurinn sé á móti tækninýjungum sem gera það mögulegt að ná bestu mögulegum gæðum á okkar dýrmæta hráefni. Ég vil benda hv. 5. þm. Vestf. á það að um það snúast einmitt viðræður um hið Evrópska efnahagssvæði að ná fram tollalækkunum á unnum fiskafurðum þannig að við getum unnið hér heima úr þessum gæðafiski okkar sem frystitogararnir koma með. Við viljum færa verðmætasköpunina hingað heim úr erlendum frystihúsum og af erlendum fiskmörkuðum sem bjóða því miður upp á misgóðan íslenskan fisk til dreifingar.