Sjávarútvegsmál

10. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 14:59:00 (294)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
     Frú forseti. Ég heyri það á máli hv. ræðumanns að hann hefur ekki fylgst svo gjörla með umræðum um efnahagsmál að undanförnu. Þess vegna er nauðsynlegt að upplýsa hv. þm. um það sem hefur gerst í þeim efnum þó ég hyggi að öðrum þingmönnum sé um það kunnugt. Ríkisstjórnin hefur nýverið markað nýja stefnu í gengismálum sem er fráhvarf frá þeirri stefnu sem fyrrv. ríkisstjórn fylgdi. Hv. þm. kvartaði undan því hvernig gengið hefði stundum verið ákveðið með handafli. Sannarlega er það svo að gengisskráningin hefur verið við það miðuð að hún væri ákveðin af Seðlabanka með samþykki ríkisstjórnar. Núv. ríkisstjórn hefur markað hér nýja stefnu þar sem ráð er fyrir því gert að taka þetta einhliða vald frá Seðlabankanum og færa það meira út á markaðinn þannig að hann ráði meiru um þróun á gengi krónunnar. En um leið er ráð fyrir því gert að Seðlabankinn fái styrkari völd til að hafa áhrif á stjórn peningamála, þannig að samhliða slíkri breytingu verði unnt að fylgja fram nauðsynlegri og óhjákvæmilegri stöðugleikastefnu í efnahagsmálum til að treysta undirstöður atvinnulífs og efnahagslífs í landinu. En kjarni málsins er sá að tekin hefur verið ákvörðun um að breyta um gengisstefnu og hverfa frá stefnu fyrrv. ríkisstjórnar sem hv. þm. lýsti alveg réttilega í ræðu sinni og taka upp nýja skipan í meira samræmi við það sem gerist meðal annarra þjóða þar sem framboð og eftirspurn hefur meiri áhrif en verið hefur á verðmyndun gjaldeyrisins. Styrk peningastjórn Seðlabankans á um leið að tryggja nauðsynlegan stöðugleika og jafnvægi í efnahagsmálum.