Sjávarútvegsmál

10. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 15:24:00 (299)

     Jóhann Ársælsson :
     Virðulegi forseti. Ég byrja á að þakka þessa umræðu sem við hófum hér. Það hefur sýnt sig á þeim umræðum sem hafa farið fram að þær voru tímabærar og þarfar. Það er mjög alvarlegt ástand í sjávarútveginum og í byggðum landsins. Við höfum lagt fram bæði spurningar, ábendingar og beinar tillögur. Sumu af þessu hefur verið svarað í þessum umræðum, öðru ekki. Svörin eru nú flest óljós að minni hyggju. Ég var það barn þegar ég var að velta fyrir mér þessum umræðum að ég hélt að hæstv. sjútvrh. hefði talað sig dauðan, eins og kallað er, snemma í umræðunni. Ég sé að þetta nýja skrapdagakerfi sem menn hafa tekið upp í umræðum á þinginu reynist bara vel og ég sé þess vegna eftir að hafa ekki flutt mína ræðu mun fyrr og getað tekið þátt í umræðunum áfram eftir sem áður. Menn þurfa þá ekki annað en að beina orðum sínum hressilega að einhverjum til að hann geti fengið nóg tækifæri til að halda áfram umræðunum.
    Mig langar fyrst til að rifja upp nokkrar af þeim spurningum sem við lögðum fram og þær hugmyndir sem ég setti fram í umræðunni. Það var þá fyrst að við töldum að taka ætti mjög ákveðið á gæðakröfum í sjávarútveginum til að auka þar með framboðið innan lands og auka verðmæti alls aflafangsins að þessu leyti líka.
    Það var líka annað. Við töluðum um að gefa mönnum tækifæri til að koma með allan afla sem kæmi um borð í fiskiskip að landi og bentum á hugmynd til að framkvæma það. Umræður hafa verið mjög þrálátar í sumar um það hvað hafi verið hent í sjóinn af fiski. Menn hafa talað hér, og verið heilagir á svipinn, um það að sjómenn hentu ekki fiski í sjóinn, en nú hafa sjómenn þorað að segja það upphátt að þeir geri það, vegna kerfisins. Hæstv. sjútvrh. sagði að fiski væri ekki hent í sjóinn fyrir eitt eða neitt kerfi, fiski hefði alltaf verið hent í sjóinn. Fyrrv. sjútvrh. hafði það aftur á móti fyrir vana að segjast ekki trúa því að fiski væri hent í sjóinn. Hann nefndi það nú ekkert núna hvort hann er farinn að trúa því, en það er enginn vafi á því að upplýsingarnar um það að fiski sé hent í sjóinn eru réttar. Sjómenn hafa sagt frá þessu sjálfir. Það er öruggt að allir þingmenn hafa heyrt dæmi um það hvernig menn henda fiski í sjóinn vegna kerfisins sem þeir búa við, þeir eiga engra góðra kosta völ og þess vegna gerist þetta. Síðasta dæmið sem mér var sagt frá var af bát í Ólafsvík sem fékk 8 tonna hal af karfa. Hann átti engan karfakvóta og hann lét þetta bara fara í sjóinn. Hvað erum við að eltast við að nota þorskkvótann okkar í karfa? Þetta er einfaldlega svona og menn verða að horfast í augu við það.
    Við bentum á að athuga mætti hvort það ætti að setja jöfnunargjald á útflutning til að reyna að hamla á móti honum og til þess að aðvara þær þjóðir sem við eigum í viðskiptum við með það að við teljum það ekkert sjálfsagt mál að þær beiti tollum til þess að koma í veg fyrir að við getum nýtt okkur markaðina og til þess að ná til sín fiskinum óunnum í sín fiskiðjuver. Þetta finnst okkur að megi skoða.
    Við spurðum hæstv. sjútvrh. hvað ríkisstjórnin ætlaði að gera til að mæta ört versnandi afkomu fiskvinnslufyrirtækja. Auka svigrúmið var svarið, að því er mér fannst. En ég kem að því síðar. Við spurðum hvort það yrðu gerðar sérstakar ráðstafanir til að meta versnandi afkomu og minni veltu sjávarútvegsfyrirtækja vegna þess aflasamdráttar sem hefur verið. Svarið var að tími sértækra aðgerða væri liðinn. Við spurðum hvort sjávarútvegsfyrirtækjum yrði áfram skylt að greiða í Verðjöfnunarsjóðinn. Það mál á að skoða. Við spurðum hvort hæstv. ríkisstjórn ætlaði að gera ráðstafanir til að fá meira af aflanum til vinnslu innan lands. Ég tel ekki að við höfum fengið nein svör við því. Við spurðum hvað ríkisstjórnin hygðist gera í gæðamálum sjávarútvegsins. Það komu svör við því að það væri í bígerð að endurskoða reglugerðir um þessi mál en ekki er neitt sem bendir til þess að það eigi að framkvæma eitthvað nú þegar. Og við spurðum hvort ríkisstjórnin ætlaði í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur að flýta þeirri endurskoðun sem á að fara fram á fiskveiðistefnunni. Við því finnst mér að ég hafi fengið mjög skýr svör og það ekki bara í þessum umræðum, heldur annars staðar, t.d. í umræðum í sjútvn. og af því sem við höfum heyrt í sumar. Það á sem sagt ekki að gera það.
    Það er í gangi núna alls konar þróun í sjávarútveginum, alls kyns breytingar sem hafa tekið mið af þessu kerfi sem við búum við og er meingallað á margan hátt. Það var nefnt hér áðan að sjófrysting er að aukast mjög hratt. Hún hefur aukist úr 5% og upp í líklega 16% á síðustu fimm árum. Hún hefur þrefaldast á síðustu fimm árum svo að ég hafi þetta nú rétt, hún hefur þrefaldast, úr 5% í 16%. Ég ætla ekkert að mótmæla því að fiskur af frystitogurum sé fersk og góð vara. En vinnsluaðferðir um borð í frystitogurum eru ekki góðar enn sem komið er. Þessi vara er ekki unnin sambærilega við það sem hún er unnin í okkar fiskiðjuverum í landi og ef okkur tækist að fá aflann að landi með sömu gæðum og hann er unninn í þessum frystitogurum gætum við gert miklu meira við hann en þar er hægt og þess vegna þurfa menn auðvitað að horfa á það. Mér er kunnugt um það að frægir togarar eru núna að verða að frystiskipum. Ögri og Vigri eiga að verða að frystiskipum núna bráðlega. Skagstrendingar eru að fá geysistórt skip og þurfa auðvitað að kaupa meiri kvóta þegar það kemur. En þeir hafa m.a. haldið uppi háu kvótaverði í landinu.
    Við heyrum þessa dagana að menn eru jafnvel farnir að tala um að setja landhelgi í kringum Vestmannaeyjar, setja landhelgi hingað og þangað, friða hrygningarstöðvar. Menn eru að tala um þetta vegna þess að kerfið sem við búum við fullnægir ekki þeim væntingum og því sem við þurfum að gera til að verja fiskstofnana. Menn verða líka að beita sóknartakmörkunum til þess að þetta kerfi geti gengið upp. Það er mín skoðun að því meira sem við notum af sóknartakmörkunum, því betra verði það kerfi sem við notum við fiskveiðarnar og það henti okkur á margan hátt miklu betur.
    Hæstv. fyrrv. sjútvrh., sem er nú farinn, taldi að það væri aðalatriði fyrir sjávarútveginn að fá frið fyrir núv. ríkisstjórn. Ég skil svo sem ósköp vel hvað hann er að fara með því. Honum þykir mjög vænt um þetta kerfi, þykir undarlega vænt um það. Hann var búinn að vera lengi sjútvrh. og hafði tekið þátt í því að móta þetta kerfi allt saman og hann hefur tekið slíku ástfóstri við það að honum finnst að það megi alls ekki spilla því og það eigi að vera áfram svona eins og það er. Ég held að það væri mikið slys ef þetta héldi áfram að vera svona lengi. En það eru einmitt þeir sem hafa þeirra hagsmuna að gæta eða telja sig hafa þeirra hagsmuna að gæta að kerfið verði óbreytt sem vilja helst að umræðan um kerfið trénist upp og staðni. Þeim finnst ágætt að það skuli vera búið að skipa þessa átta manna nefnd og að Sjálfstfl. og Alþfl. skuli vera búnir að setja sig í þá aðstöðu að það er ekki líklegt að þeir komist út úr því, það er ekki líklegt að þeir nái saman og þó svo að þeir næðu saman er ekki gert ráð fyrir því að hægt sé að hafa samráð við stjórnarandstöðuflokkana til að mynda breiða samstöðu um þetta mál. Þess vegna finnst mönnum sem vilja hafa þetta óbreytt þetta bara ágætt.
    Ég vil áður en ég held áfram koma nokkuð að gæðamálunum sem ég lagði mikla áherslu á í fyrri ræðu minni. Ég held að þar eigum við stórkostlega möguleika og að við verðum að standa uppréttari gagnvart þeim kröfum sem við gerum til sjálfra okkar og fiskveiðistefnunnar um það hvernig afla við ætlum að bjóða, hvernig fisk við ætlum að bjóða á erlendum mörkuðum og til vinnslu innan lands. Það hefur komið mjög vel fram undanfarna daga, ég hef verið að leita mér upplýsinga um þessi mál og ég hef fengið að vita það að langstærstur hluti af þeim afla t.d. sem fer á erlenda markaði er frá 5 og upp í 20 daga gamall. Og það hefur komið mjög skýrt fram að samkvæmt því áliti, sem Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins var með á sínum tíma, sögðu menn að fiskur sem væri búið að geyma lengur en 6 daga í ís væri ekki lengur 1. flokks. Við erum sem sagt að selja þennan fisk og við erum að vinna hann innan lands eftir að hann er ekki lengur 1. flokks vara. Og ég vil segja það við hæstv. sjútvrh. sem kom hér með prósentutölur um það að 60% af fiskinum sem seldur var í Hull í sumar hafi verið gæðafiskur, 25% af fiskinum sem seldur var hafi verið sæmilegur og 15% slakur. Ég fór að kanna það hvaða tölur þetta væru og ég vil nú bara biðja hann að vera ekki að koma með slíkar upplýsingar inn í hæstv. Alþingi eða koma því á flot hér í landinu að þetta sé ástandið vegna þess að þegar maður fer að gá að því eftir hvaða kerfi þetta var metið, þá er það kerfi ekki til, það er ekki til neitt kerfi sem þetta hefur verið metið eftir. Þetta eru einhverjar hugrenningar manna sem hefur verið talað við í síma þarna úti. Vitaskuld er allur aflinn metinn eftir stöðlum Efnahagsbandalagsins og þar kemur það í ljós að hann fer allur í 3. flokkinn, það eru sem sagt þrír flokkar, E, A og B og allur okkar afli fer í þennan B-flokk. Ég fékk það staðfest að í 38., 39. og 40. viku í sumar var allur afli sem var seldur í Grimsby í þessum 3. flokki og það þarf ekkert að segja okkur eitt eða neitt um það. Við hljótum að sjá að verðið skapast auðvitað af gæðunum. Og þess vegna hljótum við að vera að verðfella stóran

hluta af þeim afla sem við drögum úr sjó með því að geyma hann svona lengi áður en hann kemst í vinnslu. Ég er ekki með neinar patentlausnir á því hvernig eigi að stytta þennan tíma. En það er a.m.k. lágmarkið að við höfum þá skoðun og höfum þá stefnu að það eigi að stytta þennan tíma og stytta hann verulega, koma honum niður í það að við séum að vinna aflann okkar meðan hann er enn þá 1. flokks. Að því þurfum við að stefna með einhverjum ráðum. Og þá er ekki víst að þessi floti sem menn hafa svo miklar áhyggjur af sé svo mikið stór. Menn ættu a.m.k. að velta fyrir sér hvernig sóknarmynstrið mundi líta út ef enginn hefði leyfi til þess að geyma fisk lengur en sex daga áður en hann kæmist til vinnslu.
    Svo er annað. Það er ekkert víst að við komumst upp með það til lengdar að hafa gæðamálin eins og þau eru. Mér er kunnugt um að það er að koma sendinefnd frá Bretlandi hingað. Hún kemur í þeim sérstaka tilgangi að reyna að ræða við Íslendinga um gæðamál íslensks fisks sem sendur er á markaði þar. Það er nú tilgangurinn. Hún kemur hingað eftir nokkra daga. Það eru menn sem vilja fá betri afla til að selja úti og til að vinna.
    En það sem ég ætlaði að segja áðan um það að menn fá kannski ekki tækifæri til þess að halda þessu áfram er það að Efnahagsbandalagið er að herða sínar kröfur um hvernig eigi að standa að þessum málum. Í þessum nýju reglum, sem eiga að taka gildi um áramótin 1992--1993, er þriðja aðila, eins og okkur, gert að standa nákvæmlega eins að meðferð á fiski og þeir ætlast til að gert sé á þeirra mörkuðum. Og ég held að það væri nú eiginlega bara lágmarkið að við settum okkur það til að byrja með, bara strax, við getum tekið upp slagorð Alþfl., Ísland í A-flokk, en það verður að taka það sérstaklega fram að það er ekki besti flokkurinn. Besti flokkurinn er E-flokkur. En á meðan við erum með allt saman í B-flokki, þá er kannski gott að færa sig upp um eina tröppu. Ég tel að við eigum stórkostlega möguleika þarna og það séu þeir sem við eigum að einbeita okkur að núna þegar við stöndum frammi fyrir þessum vandamálum sem hafa skapast í sjávarútveginum.
    Tilskipun EB um heilbrigðiskröfur sem taka gildi 1992--1993 fylgir sem fskj. II með þskj. 33. Ég vil lesa upp úr því, með leyfi forseta:
    ,,Þann 16. júlí 1991 náði Ráð Evrópubandalagsins samkomulagi um tilskipun um heilbrigðiskröfur varðandi framleiðslu og markaðssetningu fiskafurða.
    Aðildarríki EB skulu hafa fellt ákvæði tilskipunar þessarar inn í löggjöf sína fyrir 1. jan. 1993, daginn sem lög um sameiginlegan markað Evrópu taka gildi.
    Tilskipunin nær til allra afurða sjávar- og ferskvatnsfiska sem ætlaðar eru til manneldis. Hún kveður á um að þessar afurðir skuli fullnægja tilteknum skilyrðum, svo heimilt sé að markaðssetja þær, þar á meðal varðandi fiskiskip, uppskipunarhafnir, fiskmarkaði, heildsölur, o.s.frv., verkunar- og vinnslustöðvar og flutninga.``
    Svo kemur hér á öðrum stað: ,,Fiskafurðir, sem teljast eiga hæfar til manneldis, verða að standast kröfur varðandi ferskleika, sníkjudýr og amínósambönd, svo og trimethylamín og histamín.
    Hvað varðar efna- og gerlamengun eru í tilskipuninni tilgreindar leiðir sem fara skal til að ákvarða hvaða greiningaraðferðir og sýnatökukerfi skuli nota í hverju tilfelli og hvaða hámarksfrávik séu ásættanleg. Framkvæmdastjórn EB skal leggja tillögur sínar þar að lútandi fyrir fastanefnd dýralækna (heilbrigðisnefndina).``
    Svo kemur hér um innfluttar fiskafurðir: ,,Hluti tilskipunarinnar fjallar einnig um innflutning fiskafurða frá þriðju ríkjum (ríkjum utan bandalagsins). Höfuðreglan er sú að sambærilegar reglur skuli gilda varðandi fiskafurðir framleiddar innan bandalagsins sem utan þess. Framkvæmdastjórnin mun leggja tillögur varðandi skilmála fyrir innflutningi frá hverju einstöku ríki fyrir fastanefnd dýralækna.``
    Ég held að við stöndum frammi fyrir því að við þurfum að bregðast við þessu fyrir þennan tíma.
    Hæstv. sjútvrh. sagði að sjávarútvegurinn hefði komið illa undan síðustu ríkisstjórn þrátt fyrir góð ytri skilyrði. En hann mundi svo eftir því að hann hafði verið í annarri ríkisstjórn og fór að kvarta undan því, vegna þess að auðvitað vaknar tilvísun hjá mönnum þegar þeir heyra svona hluti, kvarta undan því að Framsókn hefði ekki viljað fella gengið. Ég veit ekki hvað oft hann er búinn að koma hér upp í skrapdagakerfinu til þess að tala um þessi ósköp sem gengu yfir hann þegar Framsókn vildi ekki fella gengið. Og svo er hann að segja okkur frá því að þessi ríkisstjórn sem situr núna ætli sér að láta markaðinn ráða um það hvernig genginu eigi að skipa. Hvaða markaður er það sem á að ráða? Það er ekki markaðurinn á Íslandi. Nei, það á að taka upp viðmiðun við ECU sem menn kalla hér. Það er þá markaðurinn á því svæði sem ræður en ekki bara á Íslandi. Eftir að hafa hlustað á útleggingar hæstv. sjútvrh. á þessum hörmungum sínum þegar hann fékk ekki að fella gengið, þá finnst mér svolítið skrýtið að hann skuli ekki geta tekið þátt í því í ríkisstjórn að ákveða það að íslenska krónan eigi að tengjast einhverjum öðrum myntum með svona afdrifaríkum hætti. Ég sé satt að segja ekki hvernig hann hefði bjargað sér í þessum hörmungum sem hann lýsti svona vel ef íslenska krónan hefði verið bundin við ECU. Hefði verið hægt að leysa málið þá? Ég spyr.
    Hann talaði um ábyrgðarleysi Alþb. að koma hér, og eins og hann orðaði, að það hefði staðið upp úr þingmönnum einhvers konar runa af ábyrgðarlausu tali um það hvað ætti að gera fyrir alla. Það sem ég gerði hér í minni ræðu var að ég benti á það að í fjárlagafrv. koma fram áherslur sem segja okkur það að þessi ríkisstjórn dregur höndina alls staðar til baka þar sem snýr að stuðningi við landsbyggðina. Ég nefndi þessa neikvæðu afstöðu til byggðamálanna. Menn segja að tími sértækra aðgerða sé liðinn. Það dregur úr framkvæmdum vegna vegamála og raforkuverðs. Raforkuverð mun hækka verulega. Þjónusta Skipaútgerðarinnar verður minnkuð. Verðjöfnun á olíuvörum er sennilega á leiðinni út úr heiminum og samdráttur í landbúnaði skellur yfir þessar byggðir á sama tíma sem það gerist að það verður svona mikill samdráttur í sjávarútveginum. En inni í þessu fjárlagafrv. er, og ég endurtek það, gert ráð fyrir því að það verði byggt álver. Og ef menn halda virkilega að þetta muni gerast hljóta menn að sjá að það þarf að gera eitthvað fyrir landsbyggðina um leið og slíkar framkvæmdir færu í gang. En það virðist nú reyndar ekki vera ástæða til þess að halda að álversframkvæmdir fari í gang þannig að það mundi ekki sporðreisa landið eins og það mundi gera ef áætlanir ríkisstjórnarinnar stæðust.
    Ég nefndi það og það hefur komið fram hjá öðrum hér í umræðunni að Hagræðingarsjóðurinn er tekinn. Það var einn möguleikinn til að koma til móts við byggðarlögin. Ég held að það þurfi ekki að sanna það betur en með þessum fáu dæmum og það er hægt að finna fleiri dæmi um að það er miklu neikvæðari afstaða í þessari ríkisstjórn til landsbyggðarinnar. Það kemur bara fram í þessum áætlunum ríkisstjórnarinnar sem við skulum vona að verði ekki allt saman á ákvörðunum Alþingis. Allt á þetta svo að leysast með almennum aðgerðum. Það á að gefa sjávarútveginum svigrúm, minnka fjárþörf ríkisins og sveitarfélaganna. Það kom margoft fram í ræðu hæstv. sjútvrh. að sveitarfélögin ættu að taka þátt í þessu. Ég er svolítið forvitinn um það með hvaða hætti ríkisstjórnin hyggst láta sveitarfélögin taka þátt í glímunni við vanda sjávarútvegsins. Það langar mig að vita. Sveitarfélögin hafa verið á leiðinn út úr þeim vanda sem þau hafa átt við að glíma á undanförnum árum. Þau hafa verið að minnka sinn hlut í lánafyrirgreiðslu í landinu þannig að það verður ekki mjög sótt til þeirra í því að draga úr lántökum. Þó kann það að geta verið eitthvað. En gæti það verið að hæstv. sjútvrh. hefði ætlað að taka peninga þar sem þeir eru til, hjá sveitarfélögunum hérna á suðvesturhorninu. Væri það hugsanlegt þar sem menn velta sér í slíkum auðæfum að fegurðin ríkir ein þegar þeir eru að taka ákvarðanir um einhverjar glæsihallir eða monthús? Það væri gaman að vita það hvort svona hugrenningar hefðu eitthvað verið á ferðinni í höfði hæstv. sjútvrh. þegar hann var að tala sífellt um sveitarfélögin.
    Við höfum margoft heyrt menn tala um stjórnkerfi sjávarútvegsins og ekki bara hér í hv. Alþingi. Ég tel að þetta kerfi, sem er í gangi núna, sé því miður miðstýringarkerfi, mjög þunglamalegt, og ég tel að það sé reyndar furðulegt að sjálfstæðismenn sumir hverjir skuli vera tilbúnir til þess að vernda þetta kerfi og að sjútvrh. skuli ganga þar fremstur í flokki og fara sér eins hægt og hann mögulega getur því hann virðist vera mest hræddur um það að hann stigi niður öðrum hvorum fætinum eitthvað öðruvísi heldur en fyrirrennari hans.
    Sem dæmi langar mig til þess að lesa, hæstv. forseti, upp úr þessu nýja plaggi sem þingmenn fengu, Velferð á varanlegum grunni. Þar er kafli um sjávarútveginn. Ég ætla ekki

að þreyta þingmenn á að lesa hann allan því að ég geri ráð fyrir að menn hafi gert það. Hann byrjar á gamla versinu sem var í litla plagginu, og svo halda menn áfram: ,,Til að vinna að mótun heildstæðrar stefnu í þessum efnum hefur verið skipuð sérstök átta manna nefnd sem jafnframt hefur verið falið að fjalla um framtíðarmarkmið sjávarútvegsins og gera tillögur um hvernig megi ná þeim markmiðum sem sett verða, þannig að sem víðtækust sátt takist í þjóðfélaginu um sjávarútvegsmál.``
    Þeir menn sem eiga að leiða þessa víðtæku sátt eru Magnús Gunnarsson framkvæmdastjóri, Þröstur Ólafsson, aðstoðarmaður ráðherra, Árni Vilhjálmsson prófessor, Björn Dagbjartsson doktor, Pétur Bjarnason fiskeldisdoktor, Vilhjálmur Egilsson alþingismaður, Þorkell Helgason doktor og Örn Traustason skipstjóri. Allt eru þetta náttúrlega frægir aflamenn og eiga sjálfsagt eftir að koma með skemmtilegar og góðar tillögur um hvernig eigi að standa að þessum málum. En er líklegt að niðurstaða af þeirra hugrenningum og samtölum geti orðið einhvers konar þjóðarsamkomulag um það hvernig eigi að komast út úr þessu mikla vandamáli, þ.e. að finna leið sem þjóðin getur nokkurn veginn unað sameiginlega við um það hvernig eigi að stjórna íslenskum sjávarútvegi? Ég held ekki.
    Svo ætla ég að lesa til viðbótar upp úr þessu plaggi það sem bendir til og styður það sem ég var að segja áðan um hæstv. sjútvrh. og framsóknarmennskuna í öllum framgangi hans í sínu embætti. Það er klausa sem er svona:
    ,,Festa og stöðugleiki eru forsenda þess að fiskveiðistjórnunin leiði til þeirra hagræðingar sem stefnt er að. Á það skal því lögð áhersla að með þessu starfi er ekki stefnt að því að innleiða fyrirvaralítið grundvallarbreytingar á því sviði er raskað geti þróun í hagræðingarátt.``
    Er hægt að segja þetta öllu betur? Það er bara verið að segja okkur það að það eigi að fara sér hægt. Og það er verið að segja okkur að það eigi að leyfa þessu kerfi sem er í gangi núna að grafa betur um sig. Það er verið að styrkja kerfið og því hljóta alþýðuflokksmenn, sem hafa viljað reyna að breyta kerfinu að vísu í áttir sem ég er ekki beint hrifinn af, að hafa áhyggjur af, trúi ég.
    Þetta kerfi er þannig að ekki hefur tekist að ná markmiðunum sem voru sett með því. Það voru sífelld vandamál í gangi og óréttlætið er slíkt að það er með eindæmum. Svo að ég taki eitt dæmi til þess að rifja upp hvernig þessi veiðiréttur hefur verið færður mönnum á silfurfati, þá er þetta þannig að það eru þrjú ár af öldinni sem ráða því hverjir eiga fiskinn í sjónum. Ég get sagt ykkur dæmi af skrifstofumanni ofan af Akranesi. Hann hefur verið skrifstofumaður alla sína ævi. Svo datt honum í hug að fara til sjós. Hann keypti sér bát 1985 og fór að róa. 1987 seldi hann bátinn aftur og fór í sama skrifborðsstólinn og hann hafði verið við áður. Í sumar seldi hann þessi áunnu aflaréttindi sín fyrir 15--16 millj. kr.
    Það var annar maður að labba í land á Akranesi sem er búinn að vera 50 ár á sjó og skipstjóri mjög mörg síðustu árin. Hann hefur ekki leyfi til þess að fiska eina einustu bröndu. Hann selur engan aflarétt.
    Svona eru hlutirnir. Og ég segi fyrir mig að ég er mjög óánægður. Mér hafa orðið það vonbrigði að sjá nýjan sjútvrh. taka sín fyrstu skref með þeim hætti sem hæstv. núv. sjútvrh. gerir. Það höfðu margir vonað að maður sem kæmi nýr í þennan stól og væri ekki bundinn af fyrri ákvörðunum gæti sest yfir þessi mál og reynt að kippa einhverju í liðinn. En að hann skuli ganga fram með þeim hætti sem hann gerir, sem sagt hægt og án þess að fara nokkurs staðar út af sporinu, því hefði ég ekki trúað fyrir fram. Og ég hefði ekki heldur trúað því að þeir fylgismenn ríkisstjórnarinnar sem töluðu hæst í kosningunum um að á þessum málum þyrftu að verða verulegar breytingar skuli ætla að láta það viðgangast að þetta fari í þann farveg sem það er að fara í.
    Ég tel að það séu margvíslegar breytingar sem þyrfti að ráðast í strax. Ég ætla ekki að setja á langar ræður um hverjar þær eru til viðbótar við þær sem við höfum talað um að ætti að gera núna strax til að bregðast við þeim vandamálum sem hafa komið upp á þessu ári, en við teljum að það eigi að snúa sér að því að endurskoða fiskveiðistefnuna og það eigi að gera það strax. Menn eigi að setjast yfir þetta af alvöru strax vegna þess að við erum að missa af möguleikanum. Þetta kerfi er að grafa um sig. Og það verður því erfiðara að snúa til baka sem við höldum lengur áfram. Og ég segi alveg eins og er að ég

óska eftir því að hæstv. sjútvrh. noti skrapdagakerfið á eftir og segi okkur frá því, almennilega og skýrt, hvernig hann ætlar sér að uppfylla þetta ákvæði í stjórnarsáttmálanum um að aflaheimildirnar verði áfram eign landsmanna allra, að hann útskýri það hverng hann stefnir að því að ná því markmiði.
    Ég hef ekki hugsað mér að lengja þessa umræðu mikið. Hún er orðin nokkuð löng. Þingmenn eru orðnir þreyttir á henni og fáir í salnum. Alþfl. er nánast einmenntur hér. ( Gripið fram í: Þeir eru tveir.) Eru tveir? (Gripið fram í.) Já, framsóknarmönnum fækkar óðum.
    Ég ætla þó að segja það undir lokin að ég hef fundið fyrir því að þeir sem hafa fylgt þessu kerfi sem er í gangi núna eru bara tiltölulega ánægðir. Þeir hafa orðið góða von um að þetta fái að vera svona áfram og þeir setja allt sitt traust á núv. sjútvrh. um það.