Sjávarútvegsmál

10. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 15:55:00 (300)

     Guðjón A. Kristjánsson :
     Frú forseti. Framtíðarhorfur í íslenskum sjávarútvegi geta varla talist bjartar um þessar mundir þegar hafður er í huga sá farvegur sem honum hefur verið ætlaður. E.t.v. verður einhver annáll landsbyggðarinnar skráður í framtíðinni með eftirfarandi hætti:
    Árið 1999 var síðasta ísfisktogaranum á Íslandi breytt í frystiskip. Á því ári lagðist byggð af á Flateyri við Önundarfjörð og íbúum Vestfjarða hafði fækkað um 2000 frá árinu 1990. Grímsey var komin í eyði, Kópasker og Borgarfjörður eystri voru orðnir að notalegum sumardvalarstöðum fárra fjölskyldna. Þorlákshöfn var orðin lítil ferjustaður með tveimur sjoppum og bensínafgreiðslu.
    Hversu fjarlæg halda þingmenn að þessi martröð sé í raunveruleikanum? Sá landshluti sem ég er þingmaður fyrir hefur jafnan verið talinn liggja einkar vel við nýtingu sjávarfangs, raunar svo vel staðsettur til nýtingar á fiskislóð að á betra verður varla kosið. Ekki leikur vafi á því að Íslendingar lifa að stærstum hluta á fiskveiðum. Hvers vegna á þá landshluti eins og Vestfirðir í vök að verjast ef hann er jafn vel staðsettur og fullyrt er? Svarið liggur í takmörkunum á sjávarafla, miðstýrðu fiskveiðikerfi, höftum á athafnafrelsi einstaklingsins og framtaki. Orsakirnar má um deila, en þær eru m.a. vísindaleg ráðgjöf sem við sættum okkur við að byggja á of veikum grunni. Við sættum okkur einfaldlega við það að vita of lítið um fiskstofnana og um fiskislóðir. Þess vegna fagna ég því framtaki sem stefnt er að á vegum sjútvrn. að efla fjölstofna rannsóknir á fiskstofnunum við Ísland. Þar er mjög þarft mál á ferðinni og hefði betur verið komið af stað fyrir nokkrum áratugum síðan.
    Hér er iðulega deilt um nýtingu fiskstofna, um það hvort við erum að nýta þá rétt eða rangt og um það hvaða áhrif fiskstofnarnir hafa hver á annan. Mig langar aðeins að vitna í formála, með leyfi forseta, að bókinni ,,Fiskarnir`` eftir dr. Bjarna Sæmundsson. Þau orð voru rituð á lokadaginn 1926 og falla vel að þessari sjávarútvegsumræðu og því hvernig menn tala um sjávarútvegsmál í dag. Hann segir:
    ,,Um útreikninga manna á fiskigöngum er það því miður að segja að þeir hafa ekki ætíð því miður reynst réttir sem ekki er að furða þegar reiknað hefur verið með óþekktum stærðum eða menn ímynda sér það sem nauðsynlegt var að vita. Þess vegna var mönnum og er jafnvel enn oft hætt við því að grípa það sem hendinni er næst sem orsakir til þess að útreikningarnir reyndust skakkir, þ.e. að fiskurinn komi ekki á sínar vanalegu stöðvar og orsakirnar voru og eru oft enn að þeirra dómi tíðast mennirnir og þeirra athafnir. Oftast voru það ill áhrif frá aðkomuskipum, útlendingum eða innlendum. Þau drógu fiskinn á djúpið og héldu honum þar við niðurburðinn eða veiddu fiskinn upp svo að ekkert varð eftir handa heimamönnum eða það var tálbeitan sem allir gátu ekki aflað sér, moldrok í sjóinn sem fældi fiskinn o.s.frv. Á síðustu öld bættist askan frá gufuskipunum og vélaskröltið og á þessari öld jafnvel mótorskellirnir við, en ekkert hefur þó líklega gefið mönnum jafnillan grun á sér í þessu sambandi og hvalveiðarnar og botnfiskveiðarnar. Hvalveiðarnar áttu að hafa sérstaklega óheppileg áhrif á göngu síldarinnar að landi og inn á firði, en botnvörpuveiðarnar á aðrar fiskigöngur og fiskveiðar. Varpan átti að umróta botninum og eyða um leið öllum gróðri hans, hrognum fiska, jafnvel þeim sem aldrei eru við botn eins og lirfum þorsksins, drepa allt ungviði unnvörpum og flæma allan fisk af miðunum.``
    Þetta var formálinn að bókinni ,,Fiskarnir`` eftir dr. Bjarna Sæmundsson. Ég held að

hann eigi að mörgu leyti vel við umræðuna í dag.
    En við skulum víkja aftur að umræðunni um fiskveiðistjórnunina. Gjöf þjóðarinnar á sjávarútvegsauðlind til útvegsmanna og síðast en ekki síst skortur á hugrekki til að hverfa frá því fiskveiðistjórnunarkerfi sem okkur hefur tekist að festa okkur í með tilheyrandi örðugleikum, byggðaröskun, atvinnuleysi og kvótabraski.
    Nú er það ekki svo að sá sem hér talar hafi ekki tekið þátt í að útfæra þetta kerfi síðan 1983 þegar því var komið á. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að kvótakerfið hefur reynst okkur illa og í hvert skipti sem reynt hefur verið að betrumbæta kerfið hafa fleiri vandræði af hlotist. Við horfum upp á það gerast að atvinnutækifærum Íslendinga fækkar jafnt og þétt í flestum undirstöðugreinum atvinnulífsins.
    Í nýlegri fyrirspurn til iðnrh. og svari hans kemur fram að atvinnutækifærum fækkar jafnt og þétt í öllum iðnaðargeiranum nema ferðamannaiðnaði. Erlendir menn yfirtaka störfin á kaupskipunum og kaupskipum skráðum undir íslenskum fána fækkar stöðugt. Þessari þróun verður að snúa við. Íslensk atvinnustefna verður að hafa að meginmarkmiði það sjónarmið að fjölga atvinnutækifærum okkar eigin þegna en fækka þeim ekki. Það getur ekki verið að við ætlum að sætta okkur við að atvinnutækifærum í landinu fækki almennt. Þjóðinni fjölgar þó enn þá og varla verður sú stefna framkvæmd með vilja stjórnvalda að flytja fjölgunina úr landi. Ég vil aldrei þurfa að trúa því að Ísland geti ekki gefið af sér störf fyrir Íslendinga eða hafa menn yfirleitt þá skoðun að framtíðin bjóði ekki upp á störf fyrir þjóð sem telur fleiri en 260 þúsund manns?
    Mér hrýs hugur við þeirri þróun og þeim skoðunum sem oftar heyrast að nauðsynlegt sé að fækka í ákveðnum stéttum, t.d. í landbúnaði, siglingum, fiskveiðum, fiskvinnslu. Hvar á þá að vera vöxtur í íslenskum atvinnutækifærum? Hvalur og selur synda í sjó og lifa góðu lífi á því að éta frá okkur auðlindina og við þorum varla að nýta okkur þá kjötvöru sem þar syndir vegna umhverfisverndarsinna sem algerlega hafa misst sjónar á því markmiði sínu að halda jafnvægi í lífríki sjávarins sem fyrir löngu er orðið háð því að maðurinn nýti það rétt, ekki bara eina tegund úr lífríkinu heldur allar svo að jafnvægi haldist. Við eigum samleið með umhverfisverndarsinnum að því er varðar varnir gegn mengun sjávar, lofts og lagar. En við höfnum alfarið ruslahaugastefnu iðnríkjanna um losun úrgangsefna í hafið. Við munum um ókomna framtíð vera háð því að nýta náttúruauðlindir okkar og flytja til okkar þau aðföng sem við höfum ekki sjálf.
    Sjómennirnir sem stunduðu hvalveiðar við stendur landsins og eiga allt sitt undir því að þær veiðar verði leyfðar að nýju treysta því að í ljósi þeirra gagna sem fyrir liggja um veiðiþol einstakra hvalastofna verði samþykkt að hefja veiðar á hrefnu og langreyði strax á næsta sumri. Afkoma sjómanna og fjölskyldna þeirra er í húfi. Jafnframt benda t.d. sjómannasamtökin á að ef Alþjóðahvalveiðiráðið ákveður áframhaldandi hrefnuveiðibann verður afkoma þeirra sjómanna sem stunda fiskveiðar við stendur landsins og þar með þjóðarinnar allrar stefnt í hættu í framtíðinni vegna offjölgunar sjávarspendýra.
    Undir þetta sjónarmið hefur verið tekið í hvítbókinni svokölluðu sem kom út fyrir nokkrum dögum. Þar er skýrt talað um að hvalastofnanir munu í framtíðinni vega að afkomu þjóðarinnar. Mér finnst vera orðið meira en tímabært að Alþingi Íslendinga og sérstaklega ríkisstjórnin leggist á eitt við að standa vörð um íslensk atvinnutækifæri og að þeim fækki ekki eins og allt stefnir í á þessu ári og næstu árum.
    Mig langar að víkja aftur að kvótakerfinu eins og það kemur mér fyrir sjónir. Formælendur kvótakerfisins hafa haldið því fram að alls ekki mætti vera með samkeppniskerfi í fiskveiðunum. Það væri allt of dýrt og atvinnuástand væri ekki tryggt né hagkvæmni veiðanna. Á sama tíma tala sömu menn fyrir því í tíma og ótíma að óveiddur fiskur verði að fá að ganga kaupum og sölum í fullri samkeppni milli aðila og þeir sem betur geti gert þurfi nauðsynlega að geta staðið upp úr. Sem sagt, það er í mjög góðu lagi að hafa fulla samkeppni ef fjármunir eru greiddir til þeirra útgerðarmanna sem ekki hafa dug eða vilja til að gera út, jafnvel ár eftir ár, fyrir sömu tonnin og hvaðan sem fjármagnið kemur, innlent eða erlent. Það má alls ekki vera samkeppni í veiðunum þar sem þeir sem betur gera ná meiri afla og betri afkomu. Nei, það má bara vera frjálst og óheft ef útgerðarmenn fá fjármuni fyrir óveiddan fisk í sjó sem þeir jafnvel hafa engan áhuga á að reyna að veiða.

    Fyrir fáum árum var Aflatryggingasjóður afnuminn og voru allir sammála því að fækka sjóðum í sjávarútvegi. Í núverandi kvótakerfi tel ég að sé upprisinn nýr aflatryggingasjóður útgerðarmanna einna þar sem þeir sem meiri tekjur hafa færa til hinna sem ekki vilja nýta sér afkomumöguleikana. Spyrja mætti hvort skyldi vera hagkvæmara, að fullnýta allar tegundir eins og gerist í skrapdagakerfinu og gerðist líka í sóknarmarkinu eða láta auðlindina synda hjá garði eins og gerist í aflamarkskerfinu? Síðasta dæmið er það t.d. að rækjukvótarnir voru ekki fullnýttir á síðasta fiskveiðiári. Það má líka líta til þess að á meðan við vorum við sóknarmarkið annars vegar og aflamarkskerfið hins vegar nýtti sóknarmarkskerfið allar sínar heimildir en aflamarkskerfið skildi eftir á því ári bæði ýsu- og ufsaheimildir sem námu u.þ.b. 15 þús. tonnum. Í mínum huga er það ekki spurning að sóknarmarkskerfið með hámaksbremsu á fáar tegundir reynist betra, bæði aflalega og í heild í kostnaðarsparnaði. Því hefur verið haldið fram að kvótakerfið, aflamarkið, hafi leitt til mikils sparnaðar í orkunotkun á fiskiskipum. Sú fullyrðing stenst varla. Menn geta kynnt sér ef þeir vilja hjá starfsmönnum Fiskifélags Íslands olíunotkun flotans.
    Þá er eftir að fjalla um afkomu einstakra byggða og réttarstöðu sjómanna í framtíðinni sem að mínu mati er aldeilis óviðunandi ef áfram verður haldið þeirri mismunun sem núverandi kerfi býður upp á. Að lokum vil ég leyfa mér að vona að það nefndarstarf sem farið er í gang á vegum ríkisstjórnarinnar leiði það af sér að menn þori að líta á þessi stefnumál í sjávarútvegi með það að markmiði að reyna að komast út út því kerfi sem við erum að festast í. Ella tel ég að það muni leiða til þess að við munum sigla inn í auðlindaskatt sem ekki mun verða landsbyggðinni til góðs né þjóðinni allri.