Gæðamál og sala fersks fisks

11. fundur
Mánudaginn 21. október 1991, kl. 14:10:00 (316)

     Stefán Guðmundsson :
     Virðulegi forseti. Hér fer fram umræða sem vissulega væri gaman að taka þátt í en aðeins fyrir örfáum dögum var umræða um sjávarútvegsmálin sem ég því miður gat ekki tekið þátt í.
    Ég held að mönnum sjáist yfir það hvað það er sem raunverulega þarf að gera í þessari atvinnugrein. Það er fyrst og fremst eitt sem þarf að gera og það er grundvallarmál. Það þarf að koma á aukinni arðsemi í sjávarútveginn. Það þarf að vera hagnaður í þessari atvinnugrein. Það er grundvallarmálið í dag. Sjávarútvegurinn verður að fá að hagnast það mikið að hann geti borgað, ekki aðeins hærra fiskverð, hann verður einnig að geta borgað hærri laun til þess fólks sem starfar í sjávarútvegi. Þetta er grundvallarmálið í dag. Um þetta á þessi umræða vitaskuld að snúast. Ef það næst ekki fram að við komum svo miklum hagnaði í þessa atvinnugrein að við getum bæði hækkað fiskverðið og bætt laun fólks, sem þar starfar, mun verða skammt í það að við Íslendingar verðum aðeins veiðiþjóð í okkar eigin landi og látum öðrum þjóðum það eftir að njóta margfeldisáhrifa vinnslunnar. Þetta er staðreyndin. Og því hryggir það mig að hvernig sú ríkisstjórn sem nú situr bregst hér við.
    Ef við lítum yfir fjárlagafrv., sem ég ætla ekki að fjalla mikið um, það gefst tækifæri til þess síðar, þá er þar krökkt af tillögum og hugmyndum um nýja og stóraukna skattheimtu á þessa atvinnugrein. Og það er hreint ekki til þess að styrkja þessa stefnu sem við erum að tala um.
    En að endingu, virðulegi forseti, er rétt að það komi fram vegna þess eins og ég sagði í upphafsorðum mínum að ég gat ekki tekið þátt í umræðunum um sjávarútvegsmálin, að sú fiskveiðistefna sem við búum við í dag og höfum verið að aðlaga að okkar háttum hefur leitt af sér margs konar hagræðingu í veiðum og vinnslu og stórbætt meðferð aflans. Og það þarf einmitt að vera leiðarljós þeirra manna sem nú eru að fjalla um nýja stjórnun fiskveiða.