Heilbrigðisþjónusta

11. fundur
Mánudaginn 21. október 1991, kl. 14:28:00 (318)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
     Virðulegi forseti. Mig langaði til þess að koma hér í stólinn til þess að lýsa yfir ánægju minni með að með þessu frv. skuli vakið máls á mikilvægu máli sem ég held að Alþingi þurfi að taka til umfjöllunar og umræðu í vetur í mun ríkara mæli en verið hefur að undanförnu. Það er spurningin um það hvenær veita eigi heilbrigðisþjónustu án endurgjalds og hvenær gegn endurgjaldi. Eftir því sem manni virðist á fjárlagafrv., sem nú hefur verið lagt fram, á að reyna að koma greiðslu inn í heilbrigðiskerfið á öllum stigum þess og ég held að það sé mjög mikilvægt að velta því fyrir sér hvort slíkt eigi rétt á sér.
    Það hefur aðeins verið vikið að því af 1. flm. þessa frv. hversu mæðravernd og ungbarnavernd séu mikilvægir þættir heilsuverndar og það þarf held ég enginn að efast um það sem lítur yfir söguna. Ef við skoðum dauðsföll ungbarna á undanförnum áratugum, við getum bara tekið síðustu öld, þá hefur þeim auðvitað fækkað alveg gífurlega, ekki síst vegna kerfisbundins eftirlits með barnshafandi konum og ungbörnum. Dauðsföll ungbarna voru um 300 af hverjum 1000 börnum árið 1850 og fóru síðan í 5,4 af hverjum 1000 um 1950. Og þetta stefnir í það núna að vera 3--4 börn af hverjum 1000 um aldamótin. Og auðvitað skiptir þetta verulegu máli og á stærstan þátt í langri meðalævi Íslendinga.
    Á heilsugæslustöðvum er veitt, má segja, tvenns konar þjónusta. Annars vegar er þar veitt fyrirbyggjandi þjónusta og hins vegar það sem við getum kallað viðgerðarþjónusta.
    Heilsuverndin byggir auðvitað á margs konar fræðslu og tengist ekki bara einstökum komum í heilsugæslustöð heldur margháttaðri fræðslu sem veitt er á heilsugæslustöðinni. Eitt af því sem er að verða mjög mikilvægt í dag í hvers konar ungbarnaeftirliti er fræðsla til foreldra um meðferð ungra barna, um uppeldi ungra barna og um ábyrgð foreldra á börnum sínum. Ég held að það væri mjög mikilvægt að geta komið slíkri fræðslu við í heilsugæslustöðvum án þess að það komi sérstakt endurgjald fyrir. Þess vegna held ég að það sé mjög erfitt að ætla að láta foreldra greiða fyrir ungbarnaeftirlitið eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrv.
    Það er held ég öllum ljóst sem til þekkja að heilsuvernd í hvaða formi sem er sparar umtalsverðan kostnað fyrir samfélagið síðar meir. Fyrirbyggjandi aðgerðir í heilsuverndinni eru fjárfesting sem eykur framleiðslugetu þjóðfélagsins. Ég held að mjög mikilvægt sé að menn hafi þetta í huga núna þegar talað er í sífellu um þau deyfilyf sem spýtt hefur verið í atvinnulífið á undanförnum árum. Fjármunir í heilsuvernd eru ekki deyfilyf. Það eru lyf sem auka framleiðslugetu þessa þjóðfélags. Vegna þeirrar umfjöllunar sem hér hefur komið upp vil ég lýsa því sem minni skoðun að heilsuverndarþátturinn í heilsugæslustöðvum eigi að vera veittur án endurgjalds. Hins vegar finnst mér í rauninni sjálfsagt að taka eitthvert gjald fyrir þessa svokölluðu viðgerðarþjónustu.
    En ég vil vegna þessarar umræðu spyrja heilbrrh. hvort fyrirhugað sé að taka t.d. upp gjald fyrir heilsuvernd sem veitt er í skólunum vegna þess að einn þáttur heilsuverndarstarfsins fer fram í skólunum og oft er sú þjónusta veitt af hjúkrunarfræðingi heilsugæslustöðva. Á sá þáttur heilsuverndarstarfsins að vera undanskilinn gjaldtöku samkvæmt þeim hugmyndum sem uppi eru í heilbrigðisráðuneytinu eða á að greiða fyrir þennan þátt líka?