Ummæli forsætisráðherra um byggðamál

11. fundur
Mánudaginn 21. október 1991, kl. 14:36:00 (320)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir að fá tækifæri til að fjalla stuttlega um ummæli hæstv. forsrh. um byggðamál síðustu daga. Oft hefur verið fjallað um byggðamál af misjafnri þekkingu og litlum skilningi en nú hafa þau tíðindi orðið að í fyrsta sinn hefur forsrh. landsins viðrað þær hugmyndir að tilteknar byggðir séu óhagkvæmar og eigi ekki rétt á sér og hjálpa eigi fólki að flytjast á brott. Enn fremur taldi hæstv. forsrh. rétt að skoða hvort verið gæti að launum og þjónustu fólks annars staðar væri haldið niðri vegna þessara byggða sem að hans mati eru óhagkvæmar og eiga ekki rétt á sér.
    Þessi ummæli eru með þvílíkum fádæmum og lýsa þvílíkri vanþekkingu og vanvirðu við það fólk sem býr í sjávarplássum um landið að það verður ekki komist hjá því að krefjast þess að hæstv. forsrh. geri frekari grein fyrir þeim nú þegar.
    Í fyrsta lagi kref ég hæstv. forsrh. skýringa á því hvað sé óhagkvæm byggð að hans mati. Ég bendi í því sambandi á gífurlega offjárfestingu í verslunar- og skrifstofuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu.
    Í öðru lagi er óhjákvæmilegt að hæstv. forsrh. skýri það frekar hvernig hann kemst að þeirri niðurstöðu að það geti verið að tilteknar byggðir valdi því að launum og þjónustu sé haldið niðri annars staðar og hvar þá.
    Vegna þess að hæstv. forsrh. vék sérstaklega að Vestfjörðum vil ég spyrja hann hvaða byggðir á Vestfjörðum eigi ekki rétt á sér að hans mati. Ég vil í því sambandi minnast á þau ummæli forstjóra Byggðastofnunar að menn horfðu nú fram á meiri byggðavanda á Vestfjörðum en nokkru sinni fyrr. Þar eru gífurlegir erfiðleikar fram undan, nánast í hverju einasta sjávarplássi frá Patreksfirði til Ísafjarðar. Meginorsök þessara erfiðleika eru háir vextir, gífurleg skuldasöfnun sem varð á tímum ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar með hágengisstefnunni og háum vöxtum og samdráttur í afla sem kemur harðar niður á Vestfjörðum en annars staðar á landinu.
    Í Þjóðarsál 17. okt. sl. sagði hæstv. forsrh. að ekki stæði til að setja peninga í hvert einasta byggðarlag í landinu og halda þeirri skipan sem nú er. Ég vil því spyrja: Hvaða byggðarlög fá ekki náð fyrir augum stjórnvalda og hvert eiga íbúar þeirra að flytja?
    Hæstv. forsrh. sagði á landsfundi Sjálfstfl. að Sjálfstfl. vildi að byggðirnar allar hefðu sem besta möguleika og jafnasta. Enn fremur sagði hann, með leyfi forseta: Þegar til lengri tíma er horft þá getur það ekki orðið nema til skaða ef öfluga og lífvænlega byggð er ekki að finna hvarvetna um landið.
    Þetta sagði hæstv. forsrh. fyrir kosningar. Hann segir annað nú eftir kosningar. Nú er það miðstýringin og forsjárhyggjan sem á að ráða búsetu manna.
    Virðulegur forseti. Ég hef beint spurningum mínum til hæstv. forsrh., svo sem eðlilegt er þar sem tilefnið eru ummæli hans. Ég vil að lokum beina því til viðstaddra ráðherra hvort hæstv. forsrh. hafi verið að flytja þjóðinni skoðanir þeirra á byggðamálum og hugmyndir þeirra um úrræði á vanda landsbyggðarinnar.