Ummæli forsætisráðherra um byggðamál

11. fundur
Mánudaginn 21. október 1991, kl. 14:44:00 (322)

     Steingrímur Hermannsson :
     Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu er útilokað að ræða þetta mikilvæga mál á þeim skamma tíma sem veittur er nú. Ég ætla aðeins að segja örfá orð.
    Ég get tekið undir með hæstv. forsrh. að skoða þarf byggðastefnuna frá grunni, ekki vegna þess að ekki hafi verið gífurlega mikið gert í byggðamálum, ég bendi á allar þær miklu samgöngubætur sem hafa orðið, til að nefna eitthvað. Engu að síður er það staðreynd að fólksflutningar hafa haldið áfram á höfuðborgarsvæðið.
    Hæstv. forsrh. hefur aðeins nefnt, ef ég veit rétt, tvennt til ráða í byggðamálum. Það fyrra er að svipta Byggðastofnun fjárræði, sem ég hef fyrr spurt um hvort enn stæði til að gera og ekki fengið svör við, og hitt, að flytja fólk með styrkjum ríkisins frá ýmsum byggðarlögum landsins.
    Svo vildi til að ég var á Vestfjörðum þegar þessi orð voru sögð og þau vöktu mikla athygli. Ég er sannfærður um að hægt er að gera mjög margt af skynsemi á Vestfjörðum sem styrkir byggð þar. Ég vek athygli á því að samdráttur í þorskafla kemur hvergi verr niður en á Vestfjörðum. Vestfirðingar eru háðari þorskafla en menn í nokkrum öðrum landshlutum. Þeir geta ekki farið í síldina eða loðnuna eða humarinn nema að litlu leyti.
    Ég vil aðeins á þessum skamma tíma leggja eindregið til að hæstv. forsrh. feli Byggðastofnun að gera nú þegar mjög vandlega úttekt á þeim erfiðleikum sem eru á Vestfjörðum og gera tillögur um hvernig byggð verður styrkt þar á þeim grunni sem heimamenn vilja hafa hana, en ekki flytja menn nauðaflutningum frá einum stað til annars. Heimamenn vilja taka á þessum vanda, eru tilbúnir að taka þátt í umræðum um hann, eru tilbúnir að hagræða og skipuleggja sín mál þannig að þetta geti staðist. Þannig á að vinna að þessu máli í samráði við þá. Ég skora á hæstv. forsrh. að beina nú þegar slíkum tilmælum til Byggðastofnunar.