Ummæli forsætisráðherra um byggðamál

11. fundur
Mánudaginn 21. október 1991, kl. 14:49:00 (324)

     Einar K. Guðfinnsson :
     Virðulegi forseti. Það er auðvitað kjarni þessa máls, eins og hæstv. forsrh. hefur bent á, að það er ekki hlutverk einstakra stjórnmálamanna að ákveða eða fullyrða eða segja neitt um það hvaða byggðir séu hagkvæmar og hvaða byggðir séu óhagkvæmar. Þannig hegða menn sér einfaldlega ekki í lýðræðisríki og þar skilur á milli okkar og t.d. hins látna leiðtoga sósíalismans, Ceausescu, sem hafði þá skoðun að það ætti að taka fólk og flytja það hreppaflutningum milli héraða. Hugmynd sem einu sinni skaut rótum í Alþb. og var þar sérstaklega fagnað af því unga fólki sem á að erfa lönd og álfur í þeim flokki. Kjarni málsins er auðvitað sá að Sjálfstfl. mun aldrei nokkurn tímann ljá máls á neinum hugmyndum sem fela það í sér að bera fé á fólk í því skyni að fá það til að flytjast hreppaflutningum frá byggðum sínum. Sjálfstfl. hefur ítrekað, bæði á landsfundi árið 1989 og á landsfundi árið 1991, markað stefnu sína í þessum málum. Það er afstaða Sjálfstfl., það er sú skoðun sem við fylgjum eftir í hinni pólitísku baráttu jafnt hér innan þings sem utan.
    Við erum þeirrar skoðunar, eins og segir í ályktun um byggðamál, að meginmarkmið nýrrar byggðastefnu Sjálfstfl. sé átak í atvinnu- og samgöngumálum og efling vaxtarsvæða á landsbyggðinni. Með hugtakinu vaxtarsvæði eigum við við þéttbýlisstaði og sveitir sem tengjast með samgöngum og myndi þannig þjónustu- og atvinnuhéruð. Þetta er auðvitað kjarni málsins. Þegar við erum núna að byggja upp með myndarlegum hætti, með tengingu, með jarðgöngum á norðanverðum Vestfjörðum þá erum við að efla þessa staði, gera þá arðsamari og eftirsóknarverðari til búsetu. Það er staðreynd sem blasir við og þýðir ekkert að horfa fram hjá og þýðir ekkert að berja hausnum við steininn út af að fólki hefur fækkað á norðanverðum Vestfjörðum. Meginástæðan er sú að að hefur skort á þessa samgöngulegu tengingu þannig að við höfum ekki haft aðstæður til að efla okkar atvinnulíf, skjóta undir það styrkari og fleiri stoðum og gera búsetuna þannig eftirsóknarverðari. Þess vegna er þessi umræða náttúrlega á villigötum. Kjarni málsins er þessi: Sjálfstæðismenn munu auðvitað standa að og fylgja eftir þeirri byggðastefnu sem við höfum markað á landsfundi og ég hef margítrekað hér í þessari ræðu.