Ummæli forsætisráðherra um byggðamál

11. fundur
Mánudaginn 21. október 1991, kl. 14:55:00 (326)

     Einar Már Sigurðarson :
     Frú forseti. Ég vil í upphafi þakka þá umræðu sem hér fer fram því hún fer svo sannarlega ekki fram að ástæðulausu. Ummæli hæstv. forsrh. á fundi Sjálfstfl. nú um helgina hafa vakið ugg og reiði fólks vítt og breitt um landið.
    Hann lýsir yfir furðu sinni m.a. á því að fólk skuli fara frá byggðum þar sem atvinna er næg og heldur að fólk hafi ekki áhuga á neinu öðru en að vinna daginn út og daginn inn. Ég vil í þessu sambandi benda hæstv. forsrh. á að lesa niðurstöður skoðanakönnunar sem félagsvísindastofnun Háskóla Íslands framkvæmdi fyrir Húsnæðisstofnun ríkisins fyrir nokkrum árum síðan. Þar kom m.a. fram að fólk leggur að sjálfsögðu mikla áherslu

á atvinnu sína en ekki síður á samgöngur og margs konar þjónustu, svo sem heilbrigðisþjónustu og menntunarmöguleika. Það er kannski þarna sem skýring er komin á ákvörðun hæstv. menntmrh. þegar hann ákvað að leggja niður skólahald í Héraðsskólanum í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp, að þetta væri leiðin til þess að draga úr þjónustu og til þess að koma fólki af stað til að fara inn á hin svokölluðu vaxtarsvæði á landsbyggðinni. Vaxtarsvæði, hæstv. forsrh., hvaða svæði eru það? Er hægt að nefna dæmi um það? Og hvaða staðir eru það sem fólk þarf helst að fara frá til að flytja inn á vaxtarsvæðin? Hér hafa verið nefndar byggðir á Vestfjörðum en hæstv. forsrh. var í útvarpsþætti sl. fimmtudag m.a. að svara spurningu frá einum íbúa á Fáskrúðsfirði og nefndi þá nokkra staði til viðbótar. Í því ágæta kjördæmi sem ég kem frá nefndi hann staði eins og Fáskrúðsfjörð, Bakkafjörð og Borgarfjörð eystri. Eru þetta m.a. staðir sem hæstv. forsrh. vill aðstoða fólk við að flytja frá?
    Ein af forsendunum sem hæstv. forsrh. vildi við hafa til að ákveða það frá hvaða stöðum ætti að fara var hagræðing. Hvaða hagræðing er það, hæstv. forsrh., sem þú miðar við? Hverjir eiga að reikna út þessa hagræðingu? (Forseti hringir.) Hverjir eiga að gefa forsendurnar? Eru það m.a. forsendur sem gefnar eru í skýrslu sem Byggðastofnun gaf út fyrir nokkrum árum um kostnað þéttbýlismyndunar? Væri ekki ráð fyrir hæstv. forsrh. að kynna sér niðurstöður þeirrar ágætu skýrslu og komast þá að því að hið hagkvæmasta fyrir samfélagið er auðvitað að snúa við hinni óheillavænlegu byggðarþróun sem verið hefur hér allt of lengi og væri þá kannski ráð að hæstv. forsrh. boðaði aðstoð fólki sem flytja vill frá höfuðborgarsvæðinu?