Ummæli forsætisráðherra um byggðamál

11. fundur
Mánudaginn 21. október 1991, kl. 14:58:00 (327)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
     Virðulegi forseti. Sú umræða sem hér fer fram er til komin vegna ummæla hæstv. forsrh. Þau ummæli eru reyndar tæplega svara verð, svo fáránleg sem þau eru. Í því sambandi vil ég þó spyrja: Hvað er byggðastefna? Það er að gera fólki kleift að búa þar sem það velur sér búsetu án þess að það kosti meira í rekstri heimila og það eigi kost á svipaðri þjónustu skóla og heilbrigðisstofnana og annars staðar á landinu. Einnig að opinber þjónusta sé sem næst bústað eða samgöngur greiðar þangað. Í öðru lagi að menningarþætti sé sinnt bæði af hálfu opinberra aðila og með frjálsum félagasamtökum. Í þriðja lagi, og ekki síst, er að fólk geti stundað atvinnu sem næst sér til að framfleyta sér og sínum.
    Hvernig er svo byggðastefnan í framkvæmd? Nýjustu yfirlýsingar forsrh. eru þær að flytja eigi fólk til eftir geðþóttaákvörðunum stjórnmálamanna þegar búið sé að ákveða hvaða staðir eigi að lifa. En hver skyldi vera undirrótin að því að slíkar yfirlýsingar koma ef við getum átt von á að stjórnmálamenn með frjálshyggju að leiðarljósi láti frá sér fara slík ummæli? Það er vitaskuld sú fiskveiðistefna sem rekin hefur verið. Þegar rétturinn til að lifa á smærri stöðum á landsbyggðinni er tekinn af fólkinu í krafti þess að skipin eigi réttinn til að veiða og þegar þau eru seld í burtu hafi fólkið engan rétt til að afla sér viðurværis með því að nýta þær auðlindir sem fyrir eru á svæðinu.
    Það fer að verða spurning hvort sú sjávarútvegsstefna sem rekin hefur verið undanfarin ár og felst í því að binda fiskveiðikvóta við skip er ekki að verða mannréttindamál og þar með dómsmál.