Ummæli forsætisráðherra um byggðamál

11. fundur
Mánudaginn 21. október 1991, kl. 15:09:00 (332)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegur forseti. Í gegnum árin hefur af hálfu stjórnvalda og allra flokka verið um það samstaða að gera mönnum lífið betra á landsbyggðinni eftir því sem kostur væri og samkvæmt þeim ábendingum sem menn hafa komið sér saman um heima í héraði. Það hefur legið fyrir um áratuga skeið að það hefur verið stefna Vestfirðinga að fara fram á það við stjórnvöld að bæta samgöngur. Vestfirðingar hafa gjarnan orðað það svo að það væri þrennt sem þyrfti að gera til þess að það væri betra að búa á Vestfjörðum og byggð gæti fremur haldist í horfinu en verið hefur. Það væri í fyrsta lagi að bæta samgöngur, í öðru lagi að bæta samgöngur og í þriðja lagi að bæta samgöngur.
    Hæstv. forsrh. er í raun og veru sá fyrsti sem bregður út af þessari stefnu og viðrar hugmyndir um það að í stað þess að bæta samgöngur eigi að flytja fólk til. Ég tók hins vegar eftir því að þegar á hann var leitað og hann var beðinn um að gera grein fyrir afstöðu sinni vildi hann ekki svara. Hann hafði engin rök fram að færa fyrir þeirri skoðun sinni að einstakir staðir á Vestfjörðum valdi því að fólk annars staðar búi við lakari kjör og verri þjónustu. Og það er mikill ábyrgðarhluti af hæstv. forsrh. að viðra hugmyndir af þessu tagi án þess að vera tilbúinn að færa rök fyrir þeim þegar eftir því er leitað.
    Ég hef metið umræðurnar svo eftir þær ræður sem hér hafa verið fluttar að ágreiningur sé innan stjórnarliðsins um þessa stefnu hæstv. forsrh. Hann kýs að segja sem minnst á þessari stundu og einstakir stjórnarþingmenn, eins og hv. 3. þm. Vestf. sagði hæstv. forsrh. ,,ganske pent`` að hann ætti ekki að vera að tala.

    Hins vegar vek ég athygli á því að þessar hugmyndir hæstv. forsrh. eru ekkert einangrað fyrirbæri og ekkert nýjar hugmyndir. Ég bendi á að annar borgarfulltrúi í Reyjavík, Sveinn Andri Sveinsson, sem gegnir stöðu formanns Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu lýsir sinni skoðun mjög skeleggur í Morgunblaðinu í gær. Hann segir þar að flutningur fólksins til höfuðborgarsvæðisins sé ekkert vandamál. Þangað eigi fólkið að fara vegna þess að borgarkjarninn hljóti að taka til sín hæfasta og menntaðasta vinnuaflið. Mér finnst þessi stefna mjög athyglisverð og það er ljóst að hún á sér mjög dygga stuðningsmenn í Sjálfstfl. og að þeir sem hafa þessa skoðun eru ofan á í þeim flokki. Því er það að Sjálfstfl. í ríkisstjórn er hættulegur fyrir landsbyggðina.