Ummæli forsætisráðherra um byggðamál

11. fundur
Mánudaginn 21. október 1991, kl. 15:13:00 (333)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Það var sagt í ævintýrunum að ef ljós hittu á tröllin yrðu þau að steini. Stundum vill það verða í þingsölum ef nýjar hugmyndir hitta suma þingmenn fyrir, þá verða þeir að steini. Ég á þar ekki við málshefjanda heldur suma aðra sem hér hafa talað.
    Þegar menn í þessum sal bregðast þannig við ummælum af því tagi sem ég hafði fram að flytja að þeir telja það eðlilegt að líkja viðkomandi við einhvern mesta fjöldamorðingja sögunnar, (Gripið fram í.) mann sem hefur reyndar setið í tespjalli við þann sem fram í kallar núna, einhvern mesta fjöldamorðingja sögunnar, þá er umræðan náttúrlega komin á hreinar villigötur og ekki sæmandi þeim sem tala úr þessum ræðustól.
    Það var nefnt hér að ég hefði lagt til að það ætti að flytja fólk nauðaflutningum. Ég hef hvergi nefnt það. Ég bendi hins vegar á það og vek athygli á því að margt fólk sem býr við aðstæður sem eru erfiðar hefur ástæður til þess að ætla að ríkisvaldið muni um eilífðartíma tryggja atvinnu á viðkomandi stöðum. Ef ríkisvaldið gerir það ekki, þá er ég að orða þá skyldu ríkisvaldsins að það geti ekki leyft sér að skilja þetta fólk eftir eignalaust heldur komi til móts við það ef leitað verður eftir því. Ég held að menn eigi að ræða þetta öfgalaust og ekki með fullyrðingastíl eins og þingmenn hafa tamið sér sumir hverjir þegar byggðamál eru rædd.
    Hv. þm. Steingrímur Hermannsson nefndi að heimamenn væru tilbúnir til að taka þátt í vandanum og það er hárrétt hjá honum. Ég hef orðið var við það einmitt núna þessa daga að mikill fjöldi fólks úr þeim dreifðu byggðum hefur samband og segir: Þetta eru hugmyndir sem hlýtur að mega skoða eins og aðrar hugmyndir og er vænlegt að skoða eins og aðrar hugmyndir. Auðvitað er það afbökun, útúrsnúningar og rangfærslur að halda því fram með vísun og leitun að samjöfnuði við einhvern mesta fjöldamorðingja sögunnar að það eigi að fara að flytja fólk hreppaflutningum. Það er ekki boðlegt fyrir neina þingmenn að tala með þeim hætti úr þessum ræðustól.
    Hv. 4. þm. Austurl. sagði eitthvað á þá leið að ég hefði ekki heildarmyndina inni því að það væru fleiri þættir sem skiptu máli en peningamálin ein. Ég er honum hjartanlega sammála og það er kannski meginatriðið í þessu sambandi. Ef okkur tekst með sameiningu sveitarfélaga og með almennum skynsamlegum aðgerðum, þar sem allir þættir koma saman, að tryggja búsetu á svæðum um landið allt og gera þau sterk og öflug þá getum við kannski einmitt komið til móts við þessi sjónarmið. Önnur sjónarmið en hin beinu fjárhagslegu sjónarmið, félagsleg sjónarmið, menningarleg sjónarmið og fleiri slík sjónarmið sem fólkið þar eins og hér leggur mikið upp úr. Menn mega ekki bara loka sig inni í fortíðinni.
    Einn hv. þm. sagði: Það hefur bara verið höfð uppi ein stefna fram til þessa. Orðrétt sagði hann það úr þessum ræðustól. ,,Það hefur bara verið höfð uppi ein stefna í þessum efnum.`` Og hvernig hefur hún lukkast? Við horfum fram á það að við eigum að skoða alla þætti og við eigum að skoða þá með þeim hætti að fólkinu úti á landi sé sómi sýndur. Ég held nefnilega að sumir þingmenn geti vel hugsað sér það að fólkið á vissum stöðum úti á landi sé alltaf upp á þá komið og reddingar þeirra hér syðra.