Ummæli forsætisráðherra um byggðamál

11. fundur
Mánudaginn 21. október 1991, kl. 15:16:00 (334)

     Svavar Gestsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Það er satt að segja alveg nýtilkomið að þingmönnum sé neitað um orðið um þingsköp eins og gerðist hér áðan. Ég hef ekki hugsað mér að ræða það hér úr þessum ræðustól ítarlega, en mun auðvitað gera ráðstafanir til þess að leita réttar míns sem þingmanns í þessum efnum. Með hvaða hætti það verður gert mun koma í ljós. Það er auðvitað alveg augljóst mál að ef forsetinn ætlar að taka upp ný vinnubrögð af þessu tagi mun það náttúrlega ekki auðvelda þingstörfin í vetur ef hér er stýrt eftir nýjum þingsköpum frá umræðu til umræðu.
    Það hefur aldrei nokkurn tíma verið rætt um það að umræða um þingsköp væri óeðlileg eða óheimil við þær aðstæður sem við vorum í fyrir örfáum mínútum. Það er algerlega nýtt. Mér finnst því að forsetinn hefði í nafni góðrar samvinnu átt að nefna það við okkur þingflokksformenn sem gegndum því starfi í síðustu viku áður en það er tilkynnt úr ræðustól með þessum hætti og einum þingmanni meinað að fá að taka til máls um þingsköp þegar það var þó knýjandi, virðulegi forseti.
    Þannig háttaði til að mælendaskrá hafði verið lokað samkvæmt yfirlýsingu hins virðulega forseta. Þá kemur hér í stólinn maður sem nú gegnir starfi landbrh. og samgrh. en við þekktum á síðasta kjörtímabili undir heitinu 2. þm. Norðurl. e. og var mjög oft í ræðustól. Sýnist hafa tekið hamskiptum eftir að hann settist í ráðherrastól og er orðinn allur blíðari á manninn að sjá, en féll aftur í gamlar viðjar persónuleikans í stólnum áðan og hóf dómadagsárásarræðu á m.a. hv. þm. Steingrím Hermannsson og fleiri hér með hreinum ólíkindum, enda þótt enginn gæti í raun og veru beðið um orðið til að svara fyrir sig. Það sem ég ætlaði í fullri vinsemd að stinga að forsetanum var sá möguleiki að bætt yrði við öðrum hálftíma í utandagskrárumræðu og hún færi fram að nýju til þess að hægt væri að halda áfram og taka eina rispu í framhaldi af ummælum hæstv. samg.- og landbrh. sem gaf tilefni til þess að honum yrði svarað, en skaust hér upp í skjóli þess að enginn hafði aðstæður til að biðja um orðið af þeim sem hann veittist sérstaklega að. Ég kalla þetta ódrengilega framkomu af hæstv. ráðherra og vildi benda á þann möguleika að við færum í umræður um málin með skynsamlegum hætti innan marka þingskapanna og á grundvelli fyrri mgr. 50. gr. þeirra.
    En það á kannski að taka upp tilskipanastíl á forsetastólnum eins og búið er að gera t.d. í menntmrn. þar sem skólar eru lagðir niður fyrir hádegi, eða í svipuðum stíl og hæstv. forsrh. hefur ákveðið að taka upp við að flytja fólk meira og minna nauðaflutningum víðs vegar að af landinu eins og hv. þm. Matthías Bjarnason skildi það hér á dögunum þegar hv. þm. Matthías Bjarnason sagði: Ef alla á að flytja suður verða allir að fara í verslun, viðskipti og verðbréfasölu. Ef það er það hagkvæmasta hlýtur að þurfa að færa þetta nær. Hins vegar hafa ýmsir verið að tala um það að flytja fólk eins og hjá þjóð sem var undir járnhæl kommúnismans í yfir 40 ár eins og í Rúmeníu. En það var ekki lagt í það og allir vita um endalok þess manns. En það gerist aldrei á Íslandi og það dettur engum manni í hug að flytja fólk nauðugt. Þetta sagði nú maðurinn að gefnu tilefni. Það eru því ekki vondir stjórnarandstæðingar sem fóru að reyta af sér þessar samlíkingar.
    Þetta eru einmitt þingsköp, virðulegi forsrh., vegna þess að þannig háttar til að umræðan hefur auðvitað farið út um víðan völl. Það er óhjákvæmilegt að svara sérstaklega þessum árásum þínum á þingmenn varðandi Ceausescu. Það er óhjákvæmilegt að svara því. Það getur farið svo að það verði að fara mjög vítt yfir málin í þingskapaumræðu um þessa stefnu borgarstjórnarflokks Sjálfstfl. í Reykjavík, sem þú og Sveinn Andri Sveinsson hafa gefið yfirlýsingar um, að flytja eigi fólk nauðungarflutningum.
    Ég vil inna eftir því, virðulegi forseti, hvort það er tilfellið að hæstv. forseti ætli að taka upp þessa nýja stefnu í þingsköpum að neita þingmönnum um orðið um þingsköp þegar mikið liggur við, þegar ráðherrar hafa með ódrengilegum hætti veist að þingmönnum sem engan kost eiga á því að bera hönd fyrir höfuð sér í þeim umræðum sem fram fara.