Ummæli forsætisráðherra um byggðamál

11. fundur
Mánudaginn 21. október 1991, kl. 15:22:00 (335)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
     Það er mikill misskilningur hjá hv. 9. þm. Reykv. að forseti hafi ætlað að meina hv. þm. að tala um þingsköp. Ég gat þess sérstaklega að hann fengi leyfi til að tala um þingsköp þegar umræðunni væri lokið, þessari hálftíma umræðu sem er mjög óheppilegt að slíta í sundur þegar umræðan stendur svo stutt sem raun ber vitni. Ég vænti þess að hv. þm. sé mér sammála um að það hafi ekki komið mikið að sök þó hann hafi orðið að bíða þar til þessari umræðu lyki til þess að koma sínum málum að.
    Ég vil líka minna á að ég gat þess að mælendaskránni væri lokað. Það var kannski ekki rétt orðað samkvæmt þingsköpum en ég var að upplýsa það að tíminn leyfði ekki að fleiri gætu tekið til máls þannig að þingmenn færu ekki að biðja um orðið og þeim yrði ekki leyft að tala þegar þar að kæmi. Það var skýringin hjá mér og var vel meint en ekki illa.