Ummæli forsætisráðherra um byggðamál

11. fundur
Mánudaginn 21. október 1991, kl. 15:23:00 (336)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Mér er það ekkert ljúft að taka þátt í langri þingskapaumræðu. Það hefur verið mín stefna að við reyndum að halda umræðu á málefnalegum grundvelli og á þann hátt tók ég þátt í umræðunni hér áðan. Það er hins vegar held ég fáheyrt að undir lok slíkrar utandagskrárumræðu sem var áðan taki ráðherra til máls með þeim hætti sem hæstv. landbrh. gerði með nánast beinum útúrsnúningum ef ekki því að staðreyndir hafi verið færðar til. Það dugir ekkert að koma upp og segja það að með búvörusamningi á síðasta vori hafi fullvirðisréttur verið færður úr 12 þús. tonnum niður í 8 þús. tonn. Það getur vel verið að með einhverjum reikningskúnstum sé hægt að sýna fram á að fullvirðisréttur hafi verið fram undir þetta 12 þús. tonn, en sú framleiðsla sem bændur gátu komið á markað var, hæstv. landbrh., ekki 12 þús. heldur 9 þús. tonn. ( Forseti: Má ég biðja þingmanninn að halda sig við þingskapaumræðu.) Ég mun reyna að gera það eftir því sem mér er unnt.
    Í öðru lagi vil ég benda á það að sami hæstv. ráðherra vék að einu byggðarlagi í okkar landi á mjög óviðurkvæmilegan hátt undir lok máls síns þannig að ekki var hægt að svara. Hann tók sem dæmi byggðarlag þar sem illa hefði til tekist í byggðamálum og hann var svo óheppinn að nefna heila sýslu úr eigin kjördæmi og sýslu þar sem menn hafa með dugnaði og áræði náð að rétta sinn hlut betur en þekkist annars staðar í dreifðum byggðum á síðustu árum.