Ummæli forsætisráðherra um byggðamál

11. fundur
Mánudaginn 21. október 1991, kl. 15:27:00 (338)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (um þingsköp) :
     Hæstv. forseti. Ég hafði ekki búist við því að þessi umræða héldi áfram undir þingsköpum en er vanur því að taka þátt í slíkum umræðum og stendur ekki á mér.

    Það er undarlegt að einn af forustumönnum bænda skuli halda því fram hér að heildarfullvirðisréttur virkur og óvirkur í sauðfjárrækt sé 9 þús. tonn. Þetta er vitaskuld ekki rétt. Hann er um 12 þús. tonn eins og ég sagði hér áðan og það er verið að tala um að færa hann niður í 8.600 tonn. Þetta á bóndanum að vera kunnugt og má vera að honum hafi hitnað í hamsi og hann ekki gætt að því sem hann sagði.
    Hitt er auðvitað alveg laukrétt að í þessum áfanga búvörusamnings er gert ráð fyrir því að fækka um 55 þús. ær og það skiptir auðvitað ekki máli. (Gripið fram í.) ( Forseti: Forseti verður að biðja menn að halda sig við þingskapaumræður.) Ég held að við getum farið hér í umræður um það. Ég býst við að hv. þm. viti það jafn vel og ég að gert er ráð fyrir því að þeir bændur sem hyggjast á nýjan leik nýta sinn fullvirðisrétt, bæði vegna riðu, skurðar og annars, hafi keypt um 20 þús. gimbrar á þessu hausti. Ég veit hins vegar ekki hvort hæstv. forseti telur almennar umræður um landbúnaðarmál falla undir þingsköp. ( Forseti: Forseti telur að slíkar umræður falli ekki undir þingskapaumræður.) En ég taldi óhjákvæmilegt að leiðrétta þetta.
    Ég tel líka óhjákvæmilegt að það komi alveg skýrt fram að þeir sérstöku erfiðleikar sem nú eiga sér stað víða í byggðarlögum úti á landi, og ég vil ítreka það, eru vegna erfiðleika í þjónustugreinum og kemur m.a. mjög glöggt fram í þeim byggðarlögum sem ég gat um áðan. Auðvitað er það líka rétt að íbúar þar hafa brugðist við vandanum eins og fólk úti á landsbyggðinni reynir að gera hvar sem það er statt. Annað er auðvitað ekki nema útúrsnúningur, að reyna að halda því fram að fólk þar deyi ráðalaust þó að á móti blási í bili.
    Hitt var kjarni minnar ræðu og ég vil ítreka það sem ég sagði. Það er uggvænlegt ástand víða í atvinnumálum landsbyggðarinnar. Það er dæmalaust að þingmaður eftir þingmann skuli koma hingað upp og láta eins og óheimilt sé að nefna þá sérstöku erfiðleika sem landsbyggðin stendur frammi fyrir sem að sumu leyti eru vegna samdráttar í sjávarútvegi og vegna þess að dregið hefur úr sókn í fiskstofna og að sumu leyti eru því að kenna að hér hefur verið fylgt rangri stefnu í byggðamálum, eins og hv. þm. Steingrímur Hermannsson hefur undirstrikað öðrum mönnum betur.