Tekjuskattur og eignarskattur

11. fundur
Mánudaginn 21. október 1991, kl. 15:41:00 (341)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. 1. flm. frv. sem hér er til umræðu að það er ákaflega eðlilegt að málið sé rætt á hinu háa Alþingi. Þetta er mál sem er mikið rætt á hinum ýmsu vinnustöðum og víðar í þjóðfélaginu, eins og réttilega kom fram í máli flm. Það eru nokkur atriði þó sem ég vil taka fram í þessari umræðu.
    1. Sú þáltill. sem samþykkt var er til umfjöllunar í ráðuneytinu.
    2. Ég tel vafasamt, eins og fram kom í máli hv. þm. Kristínar Sigurðardóttur, að fullyrða að með staðgreiðslukerfinu hafi skattfrelsi iðgjalda verið afnumið. Staðreyndin er að hjá öllum þorra launþega féll þessi frádráttur inn í fastan 10% frádrátt og hafði engin eða lítil áhrif á skattgreiðslurnar.
    3. Það er einnig vafasamt að halda því fram að um tvísköttun lífeyrissjóðsgjalda sé að ræða. Auk þess að verulegur hluti þeirra ber engan skatt vegna þess að um er að ræða tekjur neðan skattleysismarka er stór hluti

lífeyrisgreiðslna einnig undir skattleysismörkum og því ekki greiddur af þeim skattur. Líklega er langtum stærri hluti lífeyrisiðgjalda alls ekki skattlagður en sá hluti sem er skattlagður, að ekki sé talað um að hann sé tvískattaður.
    4. Í reynd er valið í þessu efni ekki um skattleysi eða sköttun þessa hluta tekna heldur val á milli breiðari skattstofns og lægra hlutfalls eða þrengra stofns og hærra hlutfalls. Þrenging skattstofnsins um 4% mundi lækka tekjur ríkis og sveitarfélaga mjög verulega ef ekki yrði að gert. Til að halda óbreyttum tekjum yrði að hækka skatthlutfallið um u.þ.b. 1,6% og breyta persónuafslætti þannig að skattleysismörk yrðu óbreytt. Einnig mætti hugsa sér að fara þá leið að lækka persónuafsláttinn en ég hygg að fæstir mundu kjósa hana.
    5. Breyting sem þessi mundi ekki auka jöfnunaráhrif skattkerfisins þar sem hún gagnast lítið þeim sem eru tekjulágir og skattlausir. Það er því alltaf spurning um forgangsröðun þegar verið er að ræða um skatta og skattleysi og maður hlýtur að spyrja hvort eðlilegt sé að byrja á þessum stað þegar vitað er að aðrar breytingar gætu komið þeim meira að gagni sem lægstar hafa tekjurnar.
    6. Ég vil minna á að hlutur atvinnurekenda er 60% af þessum fjármunum og sá hluti er að sjálfsögðu skattfrjáls vegna þess að hann telst til gjalda hjá fyrirtækjunum.
    7. Ég vil benda á að í tillögu sem samþykkt var á Alþingi var gert ráð fyrir að samræmi væri með þessum þvingaða sparnaði og frjálsum sparnaði. Ég minni á að í dag er í sumum tilvikum ekki um eignarskatt að ræða á sparnaði og þá fyrst og fremst þeim sem ríkið stendur fyrir. Einnig er engin ávöxtunar- eða vaxtaskattur, enginn fjármagnstekjuskattur, eignatekjuskattur eða hvað menn vilja kalla hann. Hins vegar er, eins og fram kom í máli hv. 1. flm., skattur tekinn af þeim tekjum sem mynda frjálsan sparnað í dag með sama hætti og tekjurnar sem renna til lífeyrissjóðanna eru skattlagðar.
    Tillaga sem samþykkt var á sínum tíma og flutt var af hv. þáv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni er til skoðunar í ráðuneytinu. Ég legg til að þetta frv. fái skoðun ásamt þeirri ályktun Alþingis og tel að málin séu að mörgu leyti mjög skyld, eins og reyndar mátti skilja á máli hv. 1. flm. frv. Ég er fyllilega sammála þeirri hugsun sem fram kemur í frv. að stefna eigi að sem mestum sparnaði og ráðdeild og það eigi að efla þá hugsun og ýta undir að fólk leggi til hliðar fjármuni fyrr á ævinni til þess að fólk geti síðar lifað mannsæmandi lífi. Að því leyti til er ég fyllilega sammála hv. flm.
    Ég ítreka það, virðulegi forseti, að mér finnst mjög eðlilegt að þetta mál sé rætt í sölum Alþingis og tel að það eigi að fá skoðun ásamt öðrum hugmyndum sem fram hafa komið og snúa að breytingum á tekjuskattskerfinu.