Heilbrigðisþjónusta

12. fundur
Þriðjudaginn 22. október 1991, kl. 13:34:09 (343)

     Stefanía Traustadóttir (um atkvæðagreiðslu) :
     Virðulegur forseti. Ég bað um að fá að gera örlitla athugasemd áður en frv. það sem ég kynnti hér í gær yrði afgreitt til nefndar og þaðan til 2. umr. Tilefnið er að forseti sá ekki þegar ég bað um orðið hér í gær og sleit umræðunni. Ég er kannski ekki orðin nógu sjóuð í þeim táknmálum sem viðgangast í þingsölum en alla vega þakka ég forseta að leyfa mér að komast að núna.
    Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, 10. þm. Reykv., og Finni Ingólfssyni, 11. þm. Reykv., fyrir þann stuðning við þetta mál sem kom fram í þeirra orðum. En ég vil taka það fram vegna orða hv. þm. Finns Ingólfssonar að það er ekki nóg að eitthvað sé talið eiga að vera ókeypis og kannski gert ráð fyrir því í samningum um kaup og kjör, t.d. hvað varðar þetta mál í samningum um starfskjör lækna sem vinna við heilsugæslustöðvar. Slíkir samningar eru engin trygging og það er hægt að breyta þeim og endurskoða án þess að Alþingi komi nokkurs staðar þar nálægt. Þess vegna er nauðsynlegt að við setjum í lög þessa skyldu ríkissjóðs. Það þarf að vera ótvírætt tryggt í lögum að svo mikilvæg þjónusta sem smábarnaeftirlitið og mæðraverndin er sé á kostnað ríkissjóðs. Eins og ég sagði í ræðu minni í gær er alveg ástæðulaust að gera núv. eða seinni tíma ríkisstjórnum þau skref of auðveld að setja gjöld á þessa þjónustu ef þeim sýnist svo. En það geta þeir í raun gert frá og með næstu áramótum.
    Vegna orða Finns Ingólfssonar, 11. þm. Reykv., vil ég taka það fram að í 20. gr. laga um heilbrigðisþjónustu er kveðið á um hvernig skuli staðið að kostnaði við rekstur heilsugæslustöða og því ekkert óeðlilegt að þar komi inn ákvæði hvað varðar þetta atriði.
    Ég vil líka taka fram að það getur verið að það sé jafngóð trygging fyrir því að þessi þjónusta sé á kostnað ríkissjóðs ef það verði sett í lög um almannatryggingar og jafnvel að samin verði sérlög um þennan þátt heilbrigðisþjónustunnar. Það eru til sérlög um ýmsa aðra þætti hennar sem og vísað er til, t.d. í reglugerðum um hvernig skuli standa að heilsugæslu. En það er nauðsynlegt að festa þetta ákvæði í lög og gera það sem allra fyrst.