Fyrirspurnir til ráðherra skv. 7. mgr. 49. gr. þingskapa.

12. fundur
Þriðjudaginn 22. október 1991, kl. 13:42:00 (344)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
     Eins og forseti sagði við upphaf fundar í gær er þetta í fyrsta sinn sem fyrirspurnir af þessu tagi koma hér á

dagskrá. Er því mikið í húfi að vel takist til með þessa nýbreytni í þingstörfum. Forseti væntir góðrar samvinnu við þingmenn um framkvæmd þessa ákvæðis þingskapanna. Mikilvægast er að fyrirspurnir og svör verði stutt og hnitmiðuð þannig að sem flestir þingmenn sem kjósa að taka þátt í þessum umræðum komist að.
    Fyrirmyndir að óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra eru frá öðrum þingum komnar og hafa þótt gefast vel en meginhugmyndin er að spurningar og svör gangi greiðlega fyrir sig. Gert er ráð fyrir að fyrirspurnatími þessi taki hálftíma. Um ræðutíma gilda samkvæmt þingsköpum sömu reglur og á venjulegum fyrirspurnafundum, þ.e. fyrirspyrjandi hefur tvisvar sinnum þrjár mínútur og ráðherra tvisvar sinnum fimm mínútur. Ákvæði um athugasemdir annarra þingmanna en fyrirspyrjenda og ráðherra eiga ekki við hér enda hafa allir þingmenn sama rétt á fundinum til að koma upp í ræðustólinn og beina fyrirspurn til ráðherra.
    Forseti væntir þess eindregið að þingmenn fullnýti ekki þann rétt til ræðutíma sem þeim er áskilinn í þingsköpum því að þá komast aðeins tveir þingmenn að á þessum hálftíma sem okkur er skammtaður.
    Fyrirkomulag umræðunnar verður þannig að þingmenn kveðja sér hljóðs með venjubundnum hætti, banka í borðið, en eru auk þess beðnir vinsamlegast að rísa úr sæti til að auðvelda forseta yfirsýn yfir þá sem biðja um orðið. Þetta eru þingmenn beðnir að endurtaka í hvert sinn sem fyrirspurn er svarað.
    Forseti verður að velja fyrirspyrjendur en þeir ráða því til hvaða viðstaddra ráðherra þeir beina máli sínu. Verði þátttaka mikil er víst að einhverjir þingmanna komist ekki að en við það verður að una.
    Forseti vill ítreka þá ósk sína að fyrirspurnir verði stuttar, um eitt eða tvö efnisatriði, og ekki síður að svör ráðherra verði stutt og hnitmiðuð. Þá er þess að vænta að þetta nýmæli reynist vel.