Afhending EES-samningsins í utanríkismálanefnd

12. fundur
Þriðjudaginn 22. október 1991, kl. 14:08:00 (360)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Mér þykir það jákvætt að hæstv. forsrh. hefur samþykkt að beita sér fyrir því við utanrrh. að við stjórnarandstöðuflokkarnir og utanrmn. fái samningstextann í hendur í dag og ég vona að utanrrh. verði við þeirri ósk. Það er hins vegar misskilningur að það hafi verið haft náið samráð um alla þætti við utanrmn. Ég vil nefna eitt dæmi. Margir, m.a. utanrrh., segja að eitt mikilvægasta ákvæði þessa samnings sé að tryggt sé að erlendir aðilar geti ekki fjárfest í íslenskum sjávarútvegi. Fyrir rúmri viku síðan óskuðum við eftir því í utanrmn. að fá að sjá þann texta samningsdraganna þar sem það væri tryggt. Það var ekki orðið við þeirri ósk okkar og utanrmn. hefur ekki enn séð neinn stafkrók um það hvernig þetta sé tryggt í samningnum þannig að við getum metið það sjálfstætt hvort nægilega örugglega sé um hnútana búið. Það er þess vegna margt í þessu sem við þurfum að fá að sjá og ég fagna því og vona að það verði niðurstaðan að við fáum samninginn í hendur síðdegis í dag.