Fjárlög 1992

12. fundur
Þriðjudaginn 22. október 1991, kl. 16:13:00 (372)

     Guðrún Helgadóttir :
     Hæstv. forseti. ,,Óskandi væri að Íslendingar færu að sjá að það er aumt líf og vesælt að sitja sinn í hverju horni og hugsa um ekkert nema sjálfan sig og slíta svo sundur félag sitt og skipta sundur afli sínu í svo marga parta sem orðið getur í stað þess að halda saman og draga allir einn taum og hugsa fyrst og fremst um heiður og velgengni landsins sem öllum góðum Íslendingum ætti þó að vera í fyrirrúmi.``

    Þessi orð skrifaði einn vitrasti stjórnmálamaður Íslands fyrr og síðar, skáldið Jónas Hallgrímsson, fyrir um það bil 150 árum og aldrei hafa þau verið sannari en nú. Og þau verða alltaf sönn vegna þess að í brjósti Jónasar Hallgrímssonar brann ástin á landi, þjóð og tungu og eldur hugsjónarinnar um frjálst og fullvalda Ísland sem byði öllum landsmönnum réttláta hlutdeild í gæðum þess. Er þetta sú ímynd sem landsmenn hafa af landsstjórninni nú 150 árum seinna og nær 50 árum eftir að langþráð fullveldi var fengið? Eru ráðherrar íslensku þjóðarinnar ímynd manna sem hafa yfirsýn yfir réttlætið í samfélagi okkar, skilgreina það sem aflaga hefur farið og bera í brjósti hugsjónir um að berja í brestina og skila börnum okkar betra og heiðarlegra þjóðfélagi en þeir tóku við? Svari því hver fyrir sig.
    Við mér, hæstv. forseti, blasir mynd sem skelfir mig, mynd þar sem ást á landi og þjóð og vitræn framtíðarsýn eru víðs fjarri. Íslendingar gerðu það ljóst í almennum kosningum á sl. vori að þeir vildu að þáv. stjórnarflokkar héldu áfram því starfi sem þeir höfðu hafið. Einn þeirra, Alþfl., Jafnaðarmannaflokkur Íslands, kaus að hafa þann vilja að engu, ekki vegna grundvallarágreinings um stefnu þáv. ríkisstjórnar, eins og ætla mætti, heldur vegna persónulegrar óvildar tveggja ráðherra ríkisstjórnarinnar í garð alþýðubandalagsmanna. Og hvað olli þeirri óvild? Það var tvennt.
    Alþýðubandalagsmenn vildu fara varlega í samningum um Evrópskt efnahagssvæði og þeir vildu fara varlega í samningum um nýtt álver. Alþb. leyfði sér að benda á varasöm atriði í báðum þessum málum en það var meira en þeir sem engum ráðum taka þoldu. Ímynd landsfeðranna er ekki lengur ímynd íhugulla manna sem hugsa og rökræða áður en ákvörðun er tekin, heldur er hún orðin ímynd óþolinmóðra spilamanna sem kunna best við sig í kastljósum fjölmiðlanna þar sem hver keppir við annan um vanhugsaðar yfirlýsingar og ábyrgðarlaust hjal.
    Það tók ekki langan tíma að finna spilafélaga og glaðklakkalegir birtust þeir þjóðinni og höfðu myndað ríkisstjórn. Um hvað var ósagt látið og það er óljóst enn. Daginn áður en hæstv. forsrh. skyldi flytja stefnuræðu sína óskaði ég eftir að hið háa Alþingi fengi að líta samstarfssáttmála hinnar nýju ríkisstjórnar sem þá hafði þó verið við völd í nokkra mánuði. Sú ósk var ekki að ófyrirsynju fram borin þar sem lagður hafði verið fram listi um væntanleg stjfrv. til 167 laga, 167, virðulegur forseti. Mörg þessara frv. snertu undirstöður samfélagsins. Hæstv. umhvrh. varð fyrir svörum og taldi enn nokkurt verk óunnið áður en stjórnarsáttmáli lægi fyrir.
    En viti menn. Morguninn eftir lá á borðum hv. þm. sáttmáli hinnar nýju ríkisstjórnar. Velferð á varanlegum grunni, stefna og starfsáætlun ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Alþfl. Menn eru ekki lengi að því sem lítið er. Texti þessa rits er enda á þann veg að með hreinum ólíkindum er og væri best ef þingmenn sýndu ríkisstjórninni þá hollustu og ókomnum kynslóðum þá kurteisi að láta það hverfa. Í gær kom fram í Dagblaðinu að flokksstjórn Alþfl. hefði haldið fund um síðustu helgi og að sjálfsögðu hafði hún ekki treyst sér til að álykta um þetta dæmalausa rit.
    En nokkru áður en syfjaðir embættismenn hófu störf í ráðuneytunum og suðu saman stjórnarsáttmála nóttina góðu höfðu hv. þm. haft tækifæri til að lesa frv. til fjárlaga árið 1992. Sárþreyttir embættismenn ráðuneytanna gátu því lítið annað gert við gerð stjórnarsáttmálans en tínt saman óljósar hugmyndir sem misfrumlegir ráðherrar og misskýrir í hugsun höfðu kastað fram þegar þeir óðu inn í ráðuneytin úr Viðeyjarferjunni því að nú skyldi tekið til hendinni. Öllum verkum sem í vinnslu voru skyldi kastað burt og skipti þá engu þó að þjóðarsátt hefði náðst um stefnumörkun, svo sem í skólamálum, kjaramálum, byggðamálum og á fleiri sviðum. Fílarnir voru komnir og óðu um glervörubúðina, eins og hv. 10. þm. Reykv., Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, orðaði það svo hnyttilega í umræðum um stefnuræðuna. Hugmynd Jónasar Hallgrímssonar um ,,að hugsa fyrst og fremst um heiður og velgengni landsins sem öllum góðum Íslendingum ætti þó að vera í fyrirrúmi`` er líklega gamaldags í skæru ljósi fjölmiðlanna.
    Þessi sérkennilega röð verkefna er engin tilviljun. Halda mætti að eðlilegra hefði verið að fyrst birtist sáttmáli um sameiginleg stefnumið, síðan fylgdi á eftir fjárlagafrv. og stefnuræða. Það er ljóst að það frv. til fjárlaga sem hér liggur frammi byggist á fjölmörgum lagabreytingum sem allsendis er óljóst hvort báðir stjórnarflokkarnir geta samþykkt, eins og þegar hefur komið fram. Sum ganga raunar þvert á grundvallarsjónarmið Alþfl. En með því að haga röðinni á þennan veg er Alþfl. stillt upp við vegg eins og fanga til aftöku. Verði ekki meiri hluti fyrir þeim frv. sem fjárlagafrv. byggist á er ríkisstjórnin fallin. Sú er trú mín að við eigum eftir að sjá Alþfl. heykjast í hnjánum áður en skotið ríður af.
    Hæstv. forseti. Hæstv. fjmrh. hefur haft mörg og stór orð um afleita stjórn ríkisfjármála í tíð síðustu ríkisstjórnar. Því hefði mátt búast við róttækum breytingum í því fjárlagafrv. sem hér liggur frammi samanborið við það síðasta. En hver er sannleikurinn? Er áætlaður fjárlagahalli minni? Er dregið úr umsvifum ríkisins? Er starfsmannafjöldi A-hluta minni? Eru útgjöld ráðuneytanna lægri? Þannig mætti lengi spyrja eftir öll stóru orðin. En sannleikurinn er þessi og mig undrar ekki þótt hæstv. ráðherra forðaðist að minnast á tölur í ræðu sinni áðan.
    Áður en ég held áfram máli mínu, hæstv. forseti, vil ég mælast til að a.m.k. hæstv. fjmrh. sitji hér og hlýði á mál mitt og ekki væri verra að einhverjir fagráðherrar treystu sér til að vera viðstaddir umræðu um fjárlög. Hér er komin upp harla óvenjuleg staða og það er enda athyglisvert þegar á það er minnst, hæstv. forseti, að hinir ungu nýkjörnu þingmenn sem nú hafa kjörist til þings sækja þingfundi með ólíkindum illa, svo manni hlýtur að vera misboðið. Og ég vil biðja hæstv. forseta að reyna að ráða bót á þessu.
    Ég mun nú halda áfram máli mínu, hæstv. forseti. Þó að hæstv. fjmrh. sjái ekki ástæðu til að hlýða á það þá vænti ég að því verði komið til hans í rituðu formi.

    Ég var að tala um sannleikann sem felst í fjárlagafrv. nú samanborið við hið síðasta. Og sá sannleikur er svona: Frv. er lagt fram með 3,7 milljarða kr. halla sem samsvarar 1% af áætlaðri landsframleiðslu næsta árs. Þetta er sami halli í hlutfalli við áætlaða landsframleiðslu og í frv. í fyrra og nánast sama upphæð. Framsetning fjárlaganna er hefðbundin greiðslugrunnsframsetning. Skuldbindingar sem falla á ríkissjóð koma ekki inn í fjárlögin þrátt fyrir allt talið um það. Að vísu eru framlög til Lánasjóðs ísl. námsmanna og Byggingarsjóðs verkamanna aukin til að standa undir áætlaðri vaxtaniðurgreiðslu. Þessi framlög eru hins vegar með hefðbundnum hætti hluti ráðstöfunarfjár sjóðanna og koma því til útlána á næsta ári.
    Þjónustugjöld eru hins vegar aukin og niðurskurður er á einstaka sviðum. Á heildina litið næst hins vegar enginn árangur í að draga úr umsvifum ríkisins. Heildarútgjöld, áður en þjónustugjöld og sértekjur eru dregnar frá, verða 31% af landsframleiðslu, samanber 29,9% 1990 og 31,2% í ár. Þetta er nú allur munurinn. Þar sem landsframleiðslan lækkar milli ára er samt um að ræða lækkun útgjalda að raungildi eða um 2,2%. Hér er þó um mun minni samdrátt að ræða en rætt er um í frv. og byggir á því að draga þjónustugjöldin frá útgjöldunum. Samdrátturinn er mestur í tilfærslum en rekstrargjöld aukast, bæði sem hlutfall af landsframleiðslu og að raungildi. --- Er gott að sjá hæstv. fjmrh. ganga í salinn. ( Fjmrh.: Þakka þér fyrir.) Ég er að bera saman tölur úr því frv. til fjárlaga sem hér liggur fyrir og hinu síðasta sem hæstv. ráðherra eðlilega forðaðist að minnast á sjálfur.
    Rekstrargjöld ríkisins, áður en þjónustugjöld og sértekjur eru dregnar frá, aukast bæði að raungildi og sem hlutfall af landsframleiðslu. Þau verða 13% af landsframleiðslu 1992 samanborið við 12,5% í ár og 12,4% í fyrra. Á föstu verðlagi ársins í ár, miðað við verðlag samneyslu, verða þau 47,7 milljarðar kr. samanborið við 47 milljarða í ár og 47,2 milljarða kr. í fyrra.
    Starfsmannafjöldi A-hluta verður svipaður og í ár. Skattheimta ríkisins er að mestu óbreytt. Skattar hækka lítillega sem hlutfall af landsframleiðslu fyrst og fremst vegna 1,5% samdráttar í landsframleiðslu. Heildartekjur ríkisins án þjónustugjalda verða 28,1% af landsframleiðslu í samanburði við 27,5% í ár og 27,1% í fyrra. Það er afar erfitt að sjá mikinn mun á þessum tölum.
    Þá er komið að þjónustugjöldum og þau hækka svo sannarlega. Það er liðurinn Sértekjur sem hækkar úr 4,6 milljörðum kr. í ár í 7,1 milljarð kr. í því frv. sem hér liggur nú fyrir. Að raungildi nemur hækkunin nærri 50%. Þjónustugjöldin hækka sem hlutfall af landsframleiðslu úr 1,3% í 1,9%.
    Í frv. er reiknað með sölu eigna. Talað er um 1,1 milljarð af sölu eigna. Ekki er ljóst hvernig þetta á að gerast né hvort þetta á að koma til greiðslu á árinu. Hér er varla hægt að tala um tekjur þar sem í vissum skilningi er hér um að ræða jafngildi lántöku. Sá sparnaður sem fer í að kaupa hlutabréf af ríkissjóði fer ekki í að kaupa spariskírteini. Tekjur af sölu eigna eru ekki varanlegar tekjur. Sala eigna og fyrirtækja ríkisins getur í sumum tilfellum verið ágæt í sjálfu sér en hún leysir ekki hallavanda ríkissjóðs. Hallinn mælist of lítill sem þessu nemur.
    Ég skal fljótlega ljúka þessari talnaromsu. Tekju- og eignarskattar einstaklinga aukast um 3,1% að raungildi. Eignarskattar einstaklinga aukast um 10,9% eða um 6,8% að raungildi miðað við verga landsframleiðslu. Og töluverð aukning er á útgjöldum hjá flestum skrifstofum ráðuneyta.
    Síðast en ekki síst. Í forsendum frv. er gert ráð fyrir framkvæmdum vegna álvers á næsta ári en alls óvíst hvort slíkar framkvæmdir hefjast þá. Ef ekki verður af þeim verða tekjur ríkissjóðs mun minni en gert er ráð fyrir í frv. Ráð virðist fyrir því gert að laun verði óbreytt frá því sem nú er, sem auðvitað er ekkert sem á er að treysta. Um það verða að fara fram kjarasamningar innan tíðar. Útgjöld heilbr.- og trn. aukast um 1% frá gildandi fjárlögum en útgjöld landbrrn. um 34%. Gert er ráð fyrir skólagjöldum sem alls er óvíst að samstaða náist um. Þannig mætti lengi telja. Í bréfi sem barst í dag frá Félagi ísl. iðnrekenda er talað um að á þessu ári séu horfur á að viðskiptahalli verði um eða yfir 20 milljarðar kr. sem er 5--6 milljarða meiri halli en gert hefur verið ráð fyrir til þessa. Og um 8 milljörðum meiri halli en fram kom í síðustu spá.
    Í þessu fjárlagafrv. er tvennt sem sker sig úr. Annars vegar þjónustugjöld, sem auðvitað eru ekkert annað en álögur á þá sem síst skyldi, og svo töfraorðið einkavæðing. Fyrst mun ég fara nokkrum orðum um einkavæðingu. Á bls. 243 á þskj. 1 segir svo þar um, með leyfi hæstv. forseta: ,,Aðrar þjóðir hafa góða reynslu af því að einkavæðing leiði til hagkvæmni í rekstri. Stefnt er það því að beita svipuðum aðferðum hér.``
    Nú vill svo til að nú í október var staddur hér á landi kunnur breskur íhaldsmaður og fyrrv. borgarstjóri, Douglas Smith að nafni. Hann var staddur hér í boði Kynningar og markaðs og flutti aðalræðu á ráðstefnu um kynningarmál en hann er meðal kunnustu sérfræðinga á sviði kynningarfyrirtækja. Hvað hafði hann um einkavæðinguna að segja?
    Í viðtali í Morgunblaðinu 8. okt. 1991 er fyrirsögn á viðtali við þennan umrædda mann sem hljóðar svo: ,,Stjórn Thatcher gekk allt of langt í einkavæðingunni.`` Þar segir m.a. svo, með leyfi forseta:
    Douglas Smith er spurður: Eru íhaldsmenn að digna í baráttunni, er frjálshyggjan og trúin á einkavæðingu á undanhaldi? Og Douglas Smith svarar: ,,Í fyrsta lagi er ekki margt eftir til að einkavæða. Eina sviðið sem eitthvað er rætt um að ráði eru ríkisjárnbrautirnar og kolanámurnar. Þetta er hvort tveggja erfitt viðureignar. Hverjum er eiginlega hægt að selja járnbrautarteinana?
    Við erum búin að einkavæða almenn samgöngutæki þ.e. strætisvagna og rútur, sömuleiðis flugvellina, ríkisflugfélagið gamla, British Airways, rafveiturnar, vatnsveiturnar, gasfyrirtækin og símafélagið sem nú heitir Telecom.

    Ég varaði við einkavæðingu í samgöngumálum en árangurslaust. Nú er ég smeykur um að sumir kjósendur eigi eftir að launa okkur lambið gráa. Fjöldi gamals fólks úti á landsbyggðinni, sem kosið hefur Íhaldsflokkinn, er mjög háður strætisvagna- og rútuferðum. Þessir kjósendur finna sárt fyrir lélegri þjónustu einkafyrirtækjanna.`` Og spurningin er: Halda menn enn þá að einkavæðing tryggi betri þjónustu?
    Með leyfi forseta ætla ég aðeins að lesa nokkur fleiri orð sem Douglas Smith sagði og bera yfirskriftina: ,,Hálfbrjálaðir prófessorar.``     ,,Einkavæðingin hófst á skynsamlegum nótum í upphafi níunda áratugarins en endaði sem rugl. Hugmyndin var ekki gagnrýnd að neinu ráði en margir skoðanabræður mínir voru fullir efasemda, einkum þegar líða tók á valdaskeið Thatcher. En þú mátt ekki gleyma að breskur forsætisráðherra er nánast einræðisherra í ríkisstjórn og flokki meðan hann heldur embættinu. Auðvitað þarf meiri hluti flokksins á þingi líka að vera traustur. Sá harði kjarni sem studdi Thatcher hefði auk þess farið sínu fram hvernig sem við hefðum látið og þeir voru í meiri hluta í þingflokknum. Bresk ríkisstjórn hefur yfirleitt 350--400 þingsæti á bak við sig og má gera ráð fyrir að um 100 þeirra séu annaðhvort í ríkisstjórninni sjálfri eða gegni valdamiklum embættum fyrir hana. Þessi hópur er sjaldan reiðubúinn að hætta völdum sínum með því að ganga gegn forsætisráðherranum.
    Margar af hugmyndunum um einkavæðingu komu frá þrem svonefndum hugmyndabönkum flokksins sem voru yfirleitt mannaðir harla hægri sinnuðum flokksmönnum og sérfræðingum. Í röðum þeirra voru hálfbrjálaðir prófessorar.``
    Sagðirðu hálfbrjálaðir? spyr blaðamaðurinn. ,,Já, ég hef alltaf sagt að þeir séu það. Þetta eru menn sem auk þess eru ekki í neinum tengslum við raunveruleikann, einkavæðing strætisvagna t.d. var hugmynd afar undarlegs og geysilega hægri sinnaðs prófessors í einhverjum fílabeinsturninum``, og lýkur þar, hæstv. forseti, tilvitnun.
    Þetta var hin góða reynsla annarra þjóða af einkavæðingu sem ráðgjafar ríkisstjórnarinnar ættu að kynna sér vel áður en lengri greinargerðir berast frá fílabeinsturnunum og skal þó enginn dómur lagður á andlega heilsu þeirra sem þar sitja. Við skulum leyfa yfirlýsingum um hugsanlega sölu á Búnaðarbankanum og Skipaútgerð ríkisins í hæsta lagi að vera merki um létta ruglun, svo og einkavæðingu á kennslu grunnskólabarna. Það er hlutverk hins háa Alþingis að vera afruglari fyrir þær útsendingar.
    Rétt áður en ég tók til máls barst bréf sem ég ætla að leyfa mér að kynna fyrir hv. þingheimi en það er ályktun sem samþykkt var á haustþingi Kennarafélags Reykjavíkur 5. okt. sl. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Kennarasamband Íslands leggur áherslu á að hvorki stétt né efnahagur hafi áhrif á möguleika einstaklinga til náms. Kennarasamband Íslands varar jafnframt við stofnun einkaskóla sem einungis eru kostaðir af foreldrum og fyrirtækjum. Slíkir skólar verða fyrst og fremst sérskólar hinna efnuðustu í landinu.``
    Hið sama á við um þá geigvænlegu hækkun þjónustugjalda sem boðuð er. Ríkisstjórnin eygir enga leið til að auka tekjur ríkisins aðra en þá að láta þá greiða fyrir þjónustuna sem njóta hennar. Hverjir njóta svo þjónustu heilbrigðiskerfisins? Vitanlega þeir sem sjúkir eru, aldraðir eða fatlaðir. Og samkvæmt kenningu hæstv. heilbrrh. er óeðlilegt að við, fullvinnandi fólk í föstu starfi, séum að greiða fyrir þjónustu við þetta fólk. Samkvæmt kenningum frjálshyggjufólksins er þetta fólk auðvitað óarðbært. Það er óhagkvæmt í rekstri og þess vegna ekki á vetur setjandi. Rétt eins og gamla fólkið sem unir hag sínum vel í Hafnarbúðum þar sem það nýtur öryggis vegna stöðugleika í rekstri og áralangra kynna við aðra vistmenn. Þetta fólk er óhagkvæmt í rekstri og þess vegna ástæðulaust að bera undir það hugmyndir um að flytja það eitthvert annað. Vellíðan umræddra vistmanna, sem þegar öllu er á botninn hvolft unnu fyrir þeim fjármunum sem hæstv. ráðherrar eru nú að deila út, er óviðkomandi reikningum ríkisins. Útreikningar sýna að það er hagkvæmara að hafa þá annars staðar.
    Því er hins vegar ósvarað fyrir hvern það er hagkvæmara. Umræðan um hagkvæmni hefur nefnilega ekki farið fram, enda er greinilegt að hugtakið vefst fyrir fleirum. T.d. setti hv. 1. þm. Vestf. spurningarmerki við það hvenær byggð væri hagkvæm eða óhagkvæm og lái honum hver sem vill. Það hygg ég að fólkið geri líka sem stritað hefur fyrir sér og sínum í þúsund ár á erfiðum stöðum þessa stóra lands, fólkið sem hefur erjað jörðina og hætti lífi og limum með sókn í það sjávarfang sem tilvera okkar byggist á, stundum við bærileg kjör, stundum í sárri neyð sem við þekkjum ekki lengur. Þetta fólk býðst nú hæstv. forsrh. til að leiða til blómlegri byggðarlaga og hjálpa því við að koma sér fyrir á nýjum stað.
    Þetta er hugmynd ekki ólík þeirri sem skaut upp í rugluðum kollinum á úrkynjuðum dönskum kóngi í móðuharðindunum endur fyrir löngu, en hann vildi flytja kuldabólgna Íslendinga suður á jósku heiðarnar og Íslendingar hafa hlegið að æ síðan.
    Í viðtali í sjónvarpinu fyrir nokkrum dögum sagði hv. 1. þm. Vestf. eftirfarandi um hugmyndir hæstv. forsrh., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í fyrsta lagi skil ég ekki hvenær byggð er óhagkvæm eða hagkvæm. Ég vil ekkert um þessi ummæli segja. Hann auðvitað skýrir þau sjálfur. Ég tel að það sé hagkvæmt að búa sem víðast á þessu landi og það verður auðvitað að skapa sín skilyrði að fólk geti lifað þar sem það hefur lifað áður en nú er svo komið í þessu landi frjálsræðis að nú má enginn eiginlega fara á sjó nema með leyfi æðstu stjórnarherra í Reykjavík. Það var í gamla daga að menn fóru bara á sjó ef veður leyfði. En nú er beðið eftir einhverjum útreikningum og fræðingum og öllu slíku og ef þetta heldur svona áfram, þá verður kannski óhagkvæmt að vera nokkuð að stunda sjó. Það verða allir að

fara í verslun og viðskipti og verðbréfasölu. Ef það er það hagkvæmasta, þá hlýtur að þurfa að færa þetta nær. Hins vegar hafa ýmsir aðrir verið að tala um að flytja fólk eins og hjá þjóð sem var undir járnhæl kommúnismans yfir 40 ár, sem sagt eins og í Rúmeníu. En það var nú ekkert lagt í það og það vita allir um endalok þess manns. En það gerist aldrei á Íslandi og það dettur engum manni í hug að flytja fólk nauðugt.``
    Þetta sagði hv. 1. þm. Vestf. Þó að samlíkingin sé ekki fögur, er óhugnanlegt sannleikskorn í henni. Þegar valdhrokinn nær tökum á stjórnvöldum og þau verða viðskila við fólkið í landinu sínu gerast atburðir eins og sagan hefur sýnt, bæði hérlendis og erlendis. Þá er fólk flutt hreppaflutningi eða til fjarlægra landa án tillits til velferðar þess sjálfs og vilja og mannúð og mildi einskis virt, mannúð og mildi, hæstv. forseti.
    Mannúð og mildi eru ekki einungis orð. Þau eru lýsing á hugarfari sem kemur fram í verkum þeirra sem þau nota. Þau stjórnvöld sem ekki þekkja þessi orð bera dauðann í farteskinu eins og svo oft hefur komið í ljós. Það getur vel verið að það borgi sig ekki að eyða milljónum til bjargar einu mannslífi ef eingöngu er horft á tölur, ekki fremur en það borgaði sig fyrir unga móður að gefa fjölfötluðu barni sínu annað nýra sitt nú nýlega. En slík mál fjalla ekki um tölur. Þau fjalla um tilfinningar, um virðingu fyrir sérhverju mannslífi, um ást. Það orð er ekki oft nefnt í þingsölum, sennilega af því að það er erfitt að reikna ást út. En ég leyfi mér að halda því fram að ástlaus stjórnmál séu hættuleg stjórnmál. Og stjórnvöld sem enginn virðir eða þykir vænt um eru gagnslaus stjórnvöld og eiga ekkert skylt við stjórnvöld í lýðræðisríki. Engu ríki verður stjórnað af neinu viti gegn vilja fólksins sem byggir það. Vissulega er stundum erfitt að átta sig á vilja fólksins í landi okkar. En eitt veit ég þó. Fólkið í þessu landi vill að allir eigi sama rétt til náms þó að vissulega sé mikill munur á aðstöðu fólks í þéttbýli og dreifbýli. Jafnrétti virðist þó ekki vera stefna þessarar ríkisstjórnar ef hún kemur áformum sínum í framkvæmd.
    Eitt þeirra þjónustugjalda sem mennirnir í fílabeinsturnunum hafa fundið upp er skólagjald, 17 þús. fyrir háskólanemendur, 8 þús. fyrir nemendur í öðrum framhaldsskólum. Slíkt getur orðið álitleg upphæð fyrir fjölskyldurnar í landinu að ekki sé minnst á einstæða foreldra. Þetta þykir ríkisstjórninni betri kostur en að skattleggja fjármagnsgróða hinna ríku.
    Þá er vegið að Lánasjóði ísl. námsmanna sem er undirstaða jafnréttis til náms og mun ég ekki fara nákvæmlega yfir þann þátt núna þar sem mál sjóðsins verða rædd utan dagskrár á næstu dögum. Sú umræða hefur dregist allt of lengi vegna fjarveru hæstv. menntmrh. en hann hefur lofað að sitja fyrir svörum nú þegar hann er kominn til landsins. En um leið og sá arður sem vel menntað fólk í öllum greinum skilar þjóð sinni er að engu gerður er nú í fyrsta sinn litið á framfærslulán námsmanna á sama hátt og þau væru lán til eigin fjárfestinga. Með hugmyndum um vexti á námslán er orðin grundvallarstefnubreyting frá þeim viðhorfum sem hingað til hafa gilt um aðstoð til náms. Verðtryggingu var ekki mótmælt 1976, en vaxtagreiðslur og stytting endurgreiðslutíma er harkaleg árás á námsmenn sem sæta mun mikilli andstöðu.
    Á 113. löggjafarþingi samþykkti hið háa Alþingi ný lög um grunnskóla. Frv. sem til laganna leiddi var afrakstur mikillar vinnu og samráðs við alla þá sem best þekkja til grunnskólakennslu í landinu. Ekki var ný ríkisstjórn fyrr tekin við en framkvæmd þessara laga er frestað án alls samráðs við það fólk sem best vann að lögunum og farið að boða fleiri einkaskóla fyrir börn efnaðra foreldra, enda stóð ekki á andmælum kennara við þessari firru á nýafstöðnu þingi eins og ég hef þegar kynnt. En þannig virðist þessi gæfulausa ríkisstjórn ætla að vaða yfir allt og alla án þess að þurrka af sér áður en inn er gengið. Menn eiga að þurrka af sér áður en þeir ganga í nýtt hús.
    Ekki er langt síðan barn fékk ekki afhent prófskírteini við skólaslit af því að skólagjaldið hafði ekki verið greitt og barnið var þannig auðmýkt og niðurlægt fyrir augum allra viðstaddra. Er þetta það sem við viljum sjá gerast í grunnskólum landsins í framtíðinni? Það held ég ekki. En vera má að hugmyndin að menntastefnu fyrir útvalda sé einnig sótt til Viðeyjar þar sem út var gefin á sínum tíma fræg matreiðslubók sem bar heitið ,,Einfalt matreiðsluvasakver fyrir heldrimanna húsfreyjur.``
    Hæstv. forseti. Hér hefur verið stiklað á nokkrum atriðum sem felast í því frv. til fjárlaga sem hér er til umfjöllunar og þá helst þeim sem vega að þeim grundvallarskilningi sem menn hafa lagt í orðið velferðarþjóðfélag. En í því eru fleiri mikilvæg atriði sem lúta að því að brjóta niður það velferðarþjóðfélag sem við erum öll sammála um, enda segir á bls. 239 í 1. kafla grg. með frv. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Landsmönnum verður ekki lengur tryggð ein sú besta velferðarþjónusta sem völ er á án tillits til kostnaðar, afkomu manna og efnahagsaðstæðna.`` Skýrar verður það ekki sagt. ,,Ein sú besta velferðarþjónusta sem völ er á`` er ekki fyrir alla. Hún er bara fyrir suma og þeir eiga von á góðu fyrir vestan eftir síðustu yfirlýsingar hæstv. forsrh.
    Einu sinni var hlegið um allan Skagafjörð að karli sem var tjáð að kona hans þyrfti að gangast undir aðgerð. ,,Tekur því``, spurði karl og tók um budduna. ,,Þetta er nú gömul manneskja.`` Þetta er heilbrigðismálastefna ríkisstjórnarinnar í hnotskurn. Stóra spurningin verður: Tekur því?
    Hæstv. forseti. Spyrja má hvort það taki því að fara nákvæmlega yfir öll þau atriði í frv. til fjárlaga sem vert er að vekja athygli á. Ég tel óhjákvæmilegt að fara stutta yfirferð yfir helstu breytingar sem boðaðar eru aðrar en þær sem áður eru nefndar og mun reyna að stytta mál mitt sem kostur er.
    Það vekur athygli í öllu vonleysishjali ríkisstjórnarinnar að í grg. frv. verða menn að viðurkenna að þeir taki við búi þar sem verðbólga er lág, gengi stöðugt og næg atvinna. Ef ríkisstjórnir nágrannaþjóða okkar fengju sömu einkunn og síðasta ríkisstjórn væri kæti á þeim bæjum að ég hygg. Vissulega horfir illa um afla. En það er nú

eðli lífríkis hafsins að koma okkur á óvart með tilheyrandi hagsveiflum og spár mínar þar um eru litlu óáreiðanlegri en spár hvers annars. En ljóst er að ástæðulaust er að reikna með happdrættisvinningum í aflaverðmæti við gerð fjárlaga.
    Það er einnig ljóst að í hönd fara kjarasamningar þar sem fjöldi launþega hlýtur að krefjast launahækkana eftir að forsendur þjóðarsáttar eru brostnar með álögum af ýmsu tagi. Og þá er annað höfuðmisklíðarefni fyrri ríkisstjórnar enn þá sagan endalausa, samningar um nýtt álver virðast hingað til aðeins skot út í loftið, eins og þeir nota við hönnun stórhýsa hjá Reyjavíkurborg, og tekjur af því einungis tölur á blaði.
    Í grg. er tekið fram að horfur á peningamarkaðnum séu óvissar. Samkvæmt fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að lánsfjárþörf ríkissjóðs minnki úr 12 milljörðum kr. á þessu ári í 4 milljarða árið 1992. En einnig er tekið fram að fjárþörf húsnæðiskerfisins verði áfram mjög mikil og allt óvíst þar um. Þegar við bætast öll þau lagafrv. sem afla eiga tekna í tekjuhlið fjárlaga og óvíst er um samþykki hins háa Alþingis fyrir er heildartekjuhlið frv. nær ómarktæk. Okkur í fjárln. Alþingis er því nokkur vandi á höndum við að skipta fjármunum sem við vitum ekki hverjir eru. Við höfum enga tryggingu fyrir þeim 106 milljörðum kr. sem okkur er falið að deila milli verkefna.
    Þá hef ég áður vakið athygi á slælegri innheimtu ýmissa álagðra gjalda og mikinn og óskiljanlegan mun á skilum á hinum ýmsu stöðum á landinu. Þar þarf að taka til hendinni því að til lítils er að leggja á gjöld sem síðan eru ekki greidd. Ég vill enn ítreka við hæstv. fjmrh. að reynt verði að bæta úr þessu.
    Ef litið er lauslega í gegnum það frv. sem hér liggur fyrir, þá vil ég byrja á hinu háa Alþingi. Ég hef vakið athygli á nauðsyn þess á undanförnum árum að hið háa Alþingi sjálft gerir raunhæfar fjármálaáætlanir og fari ekki fram úr fjárlögum. Árið 1988 vantaði 92 millj., árið 1989 64, en betur tókst til árið 1990 og var töluvert fyrir því haft og ber ekki síst að þakka það góðri stjórn starfsmanna og fjármálasviðs þingsins. Ég skal taka það fram að þá þurfti aðeins að biðja um 4 millj. á aukafjárlögum. Ég hlýt því að harma þær ákvarðanir sem á þessu sumri hafa leitt til að nú er beðið um 40 millj. kr. á aukafjárlögum sem nú liggja fyrir. Sumar eiga sér skýringu en aðrar eru einungis fram komnar vegna ákvarðana sem engin heimild var fyrir. Það er eftir sem áður skoðun mín að Alþingi fái það fé sem það telur sig þurfa án afskipta framkvæmdarvaldsins. En það er einnig skylda þess að halda sig frá fjáraukalögum.
    Athugasemdir hef ég ýmsar við liðinn Æðsta stjórn ríkisins. Ég vil leggja á það áherslu að það er landi og þjóð til minnkunar að ekki skuli þegar í stað unnið að byggingu íbúðarhúsnæðis fyrir forseta Íslands. Það er með eindæmum að forseti lýðveldisins skuli búa í eigin húsnæði nær eftirlitslaust og án öryggisgæslu eftir því sem ég best veit. Bessastaði hlaut þjóðin að gjöf og þar hafa nú orðið þær breytingar sem allir þekkja og eru eflaust til bóta. En til þess var ætlast að forseti sæti staðinn og hafi þjóðin ekki ráð á því að hýsa forseta sinn með myndarlegum hætti er lýðveldið heldur lágreist stofnun.
    Í liðnum Forsætisráðuneyti vekur athygli að framlag til öryggismálanefndar fellur niður. Eins og allir vita varð sú nefnd til að skila umtalsverðri þekkingu á vígbúnaði og varnarmálum inn í landið sem flestum Íslendingum var að mestu framandi. En þekking og fræðsla eru ekki áhugamál hæstv. ríkisstjórnar um þau efni fremur en önnur og því er nefndin nú lögð niður og ber að harma það. Embætti húsameistara ríkisins tel ég óþarft og fráleitt að því sé ætlað að afla sértekna. Þessar sértekjur eru ekkert annað en tilfærsla á fjármunum frá öðrum opinberum stofnunum og hvergi skorið við nögl þegar reikningar eru sendir. Þessa stofnun þarf að taka til rækilegrar endurskoðunar og athugunar á því hvort hún sé ekki tímaskekkja.
    Enn eina athugasemd vil ég gera við þennan fjárlagalið. Um margra ára skeið hafa staðið yfir rannsóknir á lífríki Þingvallavatns sem Pétri Jónassyni vatnalíffræðingi var falið að stjórna. Þessu verki er nú lokið og einungis eftir að koma út niðurstöðum á bók. Lagðar hafa verið til þessa verks nokkrar milljónir á fjárlögum undanfarinna ára en fé hefur einnig komið frá öðrum aðilum, innlendum og erlendum. Nú bregður svo við að 2 millj. til þessa verks eru felldar niður, hvað sem þá verður um jafnháa upphæð sem Landsvirkjun hefur lagt fram árlega. Þessi ráðstöfun er fráleit og hana ber að leiðrétta og að því verður að sjálfsögðu unnið innan nefndarinnar.
    Lið 02 Menntamálaráðuneyti hef ég þegar gert að umræðuefni að nokkru. En ljóst er að auk þess sem áður var á minnst lækka framlög til rannsókna og vísinda að raungildi þrátt fyrir áætlun um tvöföldun á 10 árum. Lög um leikskóla og grunnskóla eru lögð í salt og héraðsskólar lagðir niður án þess að um það hafi tekist sátt. Engar fréttir eru af samningum við Félagsmálaskóla alþýðu um afnot af Reykholtsskóla og engar hugmyndir uppi um nýtingu Skálholtsskóla. Óvíst er um framtíð Reykjanesskóla. Víst má ræða breytta nýtingu þessara skóla. En menn eiga, eins og ég áður hef sagt, að þurrka af sér áður en þeir vaða inn.
    Fjölmargar menningarstofnanir verða skurðarhnífnum að bráð. T.d. er sárt ef loka þarf safni Sigurjóns Ólafssonar sem kona hans, Birgitta Spur, hefur komið upp af fádæma elju og virðingu við verk manns síns, til þess eins að spara 5 millj. Ég vil minna hv. þingheim á að þessi mikli listamaður varð ekki þungur á fóðrunum hjá hinu háa Alþingi. Hann fékk heiðurslaun listamanna nokkrum dögum áður en hann lést og munu þau aldrei hafa komið til greiðslu.
    Önnur listastarfsemi er skorin niður eftir geðþótta og vegið að einni blómlegustu listgrein landsmanna, leiklistinni, þó að engin listgrein geti státað af eins mörgum virkum listamönnum og áhugaleikhúsin um land allt. Stórfé virðist vanta til rekstrar Þjóðleikhússins og almennt verða flestar listgreinar hart úti. Síðast en ekki síst vil ég spyrja hæstv. menntmrh., sem að sjálfsögðu er ekki hér, hvort engin áætlun sé um að flytja inn í hið glæsilega hús sem keypt var af miklum myndarskap fyrir Handíða- og myndlistarskólann, Leiklistarskólann og Tónlistarskólann. Ekkert er ætlað í stofnkostnað svo að þessir skólar megi flytja þar inn og ég spyr: Á ekki að nýta þetta glæsilega hús til þeirrar starfsemi sem því var ætlað að hýsa en halda áfram að greiða svimandi háa húsaleigu til nafnkunnra einstaklinga fyrir óhentugt húsnæði og vanrækt fyrir þessa mikilvægu starfsemi? Ég óska eftir afdráttarlausu svari.
    Ég geri mér grein fyrir að ræða mín hefur tekið nokkurn tíma, hæstv. forseti, en ég á enn nokkurt mál eftir. Í lið 03 Utanríkisráðuneyti ber að fagna því að embætti varnarmálafulltrúa í Brussel er lagt niður, hvað sem hann hefur nú haft að gera. Munar þar um einar 3 millj. og er það vel. Hitt þykir mér kyndugra að ástæða sé til að draga úr tollgæslu á Keflavíkurflugvelli. En mér hefur ekki gefist tími til að kanna það mál. Ég vil hins vegar ítreka enn tillögu mína, sem ég lagði fram í milliþinganefnd um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, þess efnis að embætti lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli verði óviðkomandi utanrrn.
    Verði einhver til að hafa á móti 11% hækkun til sendiráða Íslands erlendis sem núv. hæstv. utanrrh. hefur oft hnýtt í, þá er ég ekki ein af þeim. Að þeim á að búa af myndarskap en ég hygg að starfskrafta þeirra megi nýta mun betur. Ég er viss um að sendiherrar okkar erlendis kysu heldur að annast fundasetu fyrir hönd ráðherra landsins um ýmis þau málefni sem þeir verða hvort sem er að gjörþekkja en að endasendast eftir ráðherrum á flugvelli heimsins og halda þeim, frúm þeirra og föruneyti rándýrar veislur oft í mánuði. Margir sendiherrar okkar eru menn sem hafa mikla þekkingu á alþjóðamálum og ættu auðvitað að veljast til starfa vegna þess og mikla fjármuni mætti spara með því að fela þeim viðameiri störf en að eltast við íslenska ráðherra á eilífum þeytingi um heiminn. Sendiráðin eru andlit okkar í hinum stóra heimi og útverðir íslenskrar menningar og þess vegna ber að búa þau myndarlega. 58 millj. á aukafjárlögum ársins 1991, m.a. vegna utanfara í sambandi við samninga um Evrópskt efnahagssvæði hefðu lækkað verulega ef sendiráðsfólk okkar hefði fengið að annast eitthvað af þessum fundum.
    Það verður að játast að ég átti ekki von á að um störf hæstv. landbrh. yrði meiri friður en ýmis önnur og sannast þar að lengi má manninn reyna. Vera kann að þar sé flest svo niður njörvað að litlu verði hnikað og af takmarkaðri þekkingu minni sýnist mér einhver skynsemi í fjárlagafrv. þessa hæstv. ráðherra. A.m.k. sýnist þar ekki vaðið inn á skítugum skónum. Þó ber að benda hæstv. ráðherra á að hafa hemil á húsakaupum Skógræktar ríkisins án fjárlagaheimildar, eins og áttu sér stað Selfossi. Einnig mætti athuga svik sömu stofnunar við sunnlenska bændur varðandi skógræktarverkefni og 3 millj. í skólagjöld í Garðyrkjuskóla ríkisins er utan alls velsæmis. Þá er hæstv. ráðherra, sem er farsællega fjarverandi, inntur eftir hvernig þeim vísindarannsóknum sem hafnar voru að Mógilsá hefur reitt af eftir að forstöðumannsskipti urðu því að mikið skortir á að mínu mati að nægjanlegar rannsóknir hafi farið fram til grundvallar vinnu við uppgræðslu lands okkar og mikil nauðsyn á að þessar rannsóknir detti ekki niður.
    Að öðru leyti og að þessum fallegu orðum sögðum um hæstv. landbrh. bíðum við byltingarinnar í íslenskum landbúnaði sem Alþfl. ræddi á flokksstjórnarfundi sínum um helgina og vonum að um hana takist farsæl sátt og samvinna við hæstv. ráðherra.
    Í lið 05 Sjávarútvegsráðuneyti má sjá fyrstu merki um auðlindaskatt og verða það að teljast nokkur tíðindi. Það er Hafrannsóknastofnunin sem látin er ríða á vaðið og skulu nú hagsmunaaðilar í sjávarútvegi fjármagna að einhverju leyti rekstur stofnunarinnar. Ekki er svo að sjá að mikið samráð hafi verið haft við forráðamenn stofnunarinnar né hagsmunaaðilana og er það eftir annarri forræðisáráttu ríkisstjórnarinnar.
    Þá hlýt ég aðeins að minnast á ótrúlegt klúður hæstv. dómsmrh. og heilbrrh. í málefnum ósakhæfra afbrotamanna þar sem ég hafði ítrekað tekið það mál upp hér í þingsölum en hér eins og annars staðar hafa fagleg úrræði lotið í lægra haldi fyrir valdhrokanum.
    Þá er ljóst hverja virðingu stjórnvöld bera fyrir ályktunum hins háa Alþingis þegar kemur að kaupum á þyrlu fyrir Landhelgisgæsluna. Í frv. til fjárlaga er ekki gert ráð fyrir neinu fé til þeirra kaupa þvert ofan í samþykkt þingsins. Það er úrræði ráðamanna að hefja umræður við bandaríska herinn um björgunarmál og sjúkraflutninga á landi.
    Núv. hæstv. kirkjumálaráðherra hefði átt að hafa færri orð. Hann er að sjálfsögðu heldur ekki hér. Hann er trúlega á leiðinni til Íslands með þeim ráðherra sem eitt sinn spurði: Hverjir eiga Ísland? En ég vona að sú spurning komist til hæstv. kirkjumálaráðherra, hvað hann hafi átt við með óánægju sinni með niðurskurð fyrrv. fjmrh. á tekjum til þjóðkirkjunnar. Ekkert bendir til að ákvörðunum fyrrv. hæstv. fjmrh. hafi verið breytt í því frv. sem nú liggur fyrir. Þannig er þetta svo oft og það er svo margt í þessu frv. sem gerir það að verkum að maður hlýtur að spyrja: Hvernig er hægt að ætlast til að þjóðin taki þessa menn alvarlega?
    Hæstv. forseti. Ég get farið að stytta mál mitt. Liður 07 Félagsmálaráðuneyti er að mestu óráðin gáta og lítið eftir af stóryrðum og hótunum hæstv. félmrh. Á ráðherranum er nú ekkert fararsnið þó að óvíst sé um fjármögnun til húsnæðismála, þó að ríkisábyrgð á launum verði takmörkuð, þó að jafnréttismálin séu síst betri en áður, eins og ný könnun á launum karla og kvenna í landinu sýnir þar sem konur eru varla hálfdrættingar í launum á við karla árið 1991, þó að skerða eigi Framkvæmdasjóð fatlaðra með því að verja nú þriðjungi af ráðstöfunarfé sjóðsins til viðhalds þegar byggðra stofnana.
    Svo hefur stefna hæstv. ríkisstjórnar í heilbrigðismálum gengið fram af fólki að þau mál hlutu að koma fram í upphafi ræðu minnar. Skal ekki fleira um þau sagt að sinni, enda hygg ég að aðrir verði til þess.

    Ég hef einnig aðeins vikið að samgöngumálum svo sem öllum hugmyndum um að leggja niður Skipaútgerð ríkisins eða selja hana en ég hlýt einnig að minnast á framlög til jarðganga á Vestfjörðum sem nú stendur til að taka af vegafé. Það var aldrei ætlunin.
    Flugmál gætu verið umræðuefni eftir að ljóst er að forræðishyggjumenn ríkisstjórnarinnar vilja ekkert vita af frjálsri samkeppni, enda hæstv. samgrh. nátengdur --- ég sagði nátengdur, öllum einokunarfyrirtækjum í samgöngumálum á Íslandi eins og dæmin sanna og auðvelt er að sýna fram á.
    Um lið 11 Iðnaðarráðuneyti mun hv. þm. Svavar Gestsson, fjalla hér síðar en hann er fulltrúi flokks okkar í hv. iðnn. Þar er líkast því að hið eineyga yfirvald íslensks iðnaðar hafi gleymt því að hann er til. Og augað eina beinist að nýrri álverksmiðju einni. Þar ríkir hugmyndaleysið öllu ofar og enginn sýnilegur áhugi á að nýta þann sköpunarmátt og verktækni sem finna má í landinu.
    Af hinu ráðuneyti hæstv. ráðherra Jóns Sigurðssonar er enn minna að frétta. Ógerningur sýnist að koma lögum yfir greiðslukortaþjónustu, þrátt fyrir ítrekuð tilmæli hv. þm., hlutafélagabraskið eða yfirleitt nokkuð annað sem lýtur að meðferð þeirra fjármuna sem fólkið í landinu aflar. Hæstv. ráðherra er valdalaust handbendi bankavaldsins í landinu og berst fyrir vindunum sem blása frá húshornum þeirra sem því stjórna sem að sjálfsögðu eru hinir sömu og einoka allt annað viðskiptalíf í landinu.
    Umhvrn. er svo nýtt en þó svo langþráð ráðuneyti að lítið er enn um það að segja. Eðlilegt er að bíða átekta og gefa hæstv. umhvrh. tíma til að sanna þjóðinni að hann skilur það sem hún skilur, að góð umgengni um umhverfið getur aldrei orðið nema arðbær og hagkvæm. Full ástæða er til að benda hv. þingheimi á ágæta grein eftir dr. Þorvald Gylfason í Vísbendingu 3. okt. sl., sem ber heitið ,,Hagvöxtur og mengun``, þar sem hann bendir á að vaxandi mengun er ekki sjálfsagður fylgifiskur aukins hagvaxtar heldur sé þvert á móti forsenda aukins hagvaxtar umhyggja fyrir umhverfinu.
    Hæstv. forseti. B-hluti þessa frv., um ríkisfyrirtæki og sjóði, er e.t.v. enn óljósari en A-hlutinn. Í fjölmörgum tilvikum er engin ákveðin stefna um rekstur fyrirtækja og sjóða og ótrúlegt að ákvarðanir verði teknar á þeim nauma tíma sem hv. Alþingi gefst til að ljúka afgreiðslu fjárlaga. Hvað gera skal við 3,7 milljarða skuld sem hvílir á Flugstöð Leifs Eiríkssonar og fjárþörf Byggingarsjóðs ríkisins eru óútkljáð mál auk ótal margs annars. Þetta frv. til fjárlaga kemur mér því fyrir sjónir sem óábyrgar hugleiðingar í veigamiklum atriðum fremur en vönduð vinna manna sem reynslu og þekkingu hafa af ríkisfjármálum.
    Að lokum þetta, hæstv. forseti. Ég hef rætt meira um það sem áhyggjum veldur í þessu frv. en það sem ásættanlegt er. Ríkisstjórn sem tekur við búi sem ekki er verra en svo að verðbólga er lág, gengi stöðugt og atvinnuleysi óverulegt ber fyrst og fremst að verja þá stöðu. Allar aðgerðir sem ógna þeirri stöðu eru hættulegar. Sérhver ríkisstjórn þarfnast tíma til að breyta veigamiklum atriðum í ríkisfjármálum, ekki síst þegar reynslulausir menn sem aldrei hafa á hið háa Alþingi komið setjast við stjórnvölinn. Íhygli og samráð eru góðir förunautar þeirra sem stjórna löndum og þjóðum svo að friður ríki um niðurstöðurnar. Það er engin stjórnviska að æða inn eins og fílahjörð og enn verra þegar fílahjörðin treður sér inn í þröngan fílabeinsturn og skellir á eftir sér.
    Hið háa Alþingi stendur nú á merkum tímamótum eftir að þingið var fært í eina málstofu. Störf hv. fjárln. hljóta að breytast við það og sú er von mín að störf hennar verði markvissari. Nefndin á ekki að vera ríki í ríkinu hér innan hins háa Alþingis þar sem aðrar hv. nefndir þingsins eiga nú einnig að fjalla um fjárlög fyrir hina ýmsu málaflokka.
    Fyrrv. hæstv. fjmrh. gerði ýmsar mikilsverðar breytingar á meðferð ríkisfjármála og nægir þar að nefna bætta innheimtu söluskatts og virðisaukaskatts auk þess sem aukaútgjöld ríkissjóðs fara nú að framlögðum frv. til fjáraukalaga í stað þess að áður var löngu búið að eyða því fé sem beðið var um með fjáraukalagafrv. svo að hið háa Alþingi stóð frammi fyrir gerðum hlut. Síðast þegar þetta gerðist voru það fjáraukalög síðustu 10 ára og geta menn gert sér í hugarlund hversu mikið gagn var að þeirri samþykkt. Margt þarf þó enn að breytast til batnaðar í meðferð ríkisfjár.
    Ýmislegt kemur mér spánskt fyrir sjónir eftir mánaðarveru í hv. fjárln. sem ég mun ræða á síðari stigum afgreiðslu þessa frv. Nærtækt dæmi þó er það, sem ég get ekki sætt mig við, að fyrir hefur komið að hafnar séu framkvæmdir án heimildar Alþingis með undirrituðum loforðum þingmanna einstakra kjördæma um að þeir muni beita sér fyrir fjárframlögum til verksins. Slík loforð geta ekki verið nema pappírinn einn og ósæmilegt með öllu að hv. þm. taki sér slíkt vald. Miklu fremur ætti hið háa Alþingi að ráðast í færri verkefni, undirbúa framkvæmdir nákvæmlega og tryggja áreiðanlegar fjárhagsáætlanir og ljúka síðan hverju verki. Óarðbærir hússkrokkar um land allt eru óheppileg fjárfesting og gera engum gagn, hvorki einstökum kjördæmum né landsmönnunum í heild.
     Sams konar ábyrgðarleysi einkennir að mínu viti þetta frv. til fjárlaga og það verður mikil vinna að skila því aftur til hins háa Alþingis svo að vit sé í. En stefna hæstv. ríkisstjórnar er ljós. Bilið milli ríkra og fátækra í landinu á enn að aukast og haldið skal áfram að færa sífellt meira fé á æ færri hendur. Í nýlegum sjónvarpsþætti um örlög byggðarinnar í Djúpuvík á Ströndum eftir að síldarævintýrinu lauk var gamall maður spurður hvort það hefði orðið byggðarlaginu til góðs. ,,Nei, þeir fóru með gróðann``, sagði hann, ,,hann varð ekki eftir hér.`` Síldarkóngurinn sem þar var að verki deildi honum ekki heldur þegar hann kom heim til Hafnarfjarðar, ekki fremur en síldarkóngurinn frá Siglufirði deildi sínum gróða meðal Reykvíkinga þegar ævintýrunum lauk. Þetta fé vex og dafnar enn í dag í kaupþingum landsins undir trúrri forustu eigenda þess sem nú sitja m.a. hér á hinu háa Alþingi, kynslóð fram af kynslóð.

    Við alþýðubandalagsmenn, hæstv. forseti, munum halda áfram að afhjúpa sannleikann um íslenskt efnahagslíf og skilgreina það þjóðfélag sem íslenskir launþegar búa við. Gera þeim skiljanlegt að Ísland er auðugt land sem ætti að búa fjölskyldunum í landinu betri kjör en þær búa nú við. En til þess þarf að ná þeim fjármunum, sem þeir hafa unnið fyrir, frá þeim sem hafa tekið sér þá til eigin þarfa. Og það er meginverkefni hæstv. fjmrh. fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Ég hef lokið máli mínu hæstv. forseti.