Fjárlög 1992

12. fundur
Þriðjudaginn 22. október 1991, kl. 17:11:00 (373)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
     Virðulegi forseti. Það eru viss forréttindi að vera hér fulltrúi fyrir fámennasta þingflokkinn. Bæði er það að röð á mælendaskrá fer eftir stærð þingflokka og þeir stjórnarandstæðingar, sem hér hafa talað á undan mér, hafa rakið svo vel helstu atriði fjárlagafrv. að ekki er þörf á að endurtaka það allt aftur. Ég mun því reyna að forðast miklar endurtekningar og get fullvissað hæstv. fjmrh. um að ég mun reyna að vera stuttorð.
    Hér hefur verið lagt fram fjárlagafrv. fyrir árið 1992. Samkvæmt yfirlýsingum frá stjórnarliðum að undanförnu og í máli ráðherra áðan á þetta frv. að boða þáttaskil í ríkisfjármálum. Þetta er orðin árviss lexía til þingmanna á hverju hausti og gildir einu hverjir sitja í stjórn. Hvert einasta fjárlagafrv. er tímamótafrumvarp. Það er til þess ætlað að breyta um stefnu, draga úr ríkisumsvifum, hætta að vera með óraunhæf fjárlög því nú skulu forsendur standast þó að það hafi aldrei gerst áður samkvæmt reynslu undanfarinna ára.
    Þegar skyggnst er til baka og rifjuð upp ummæli þingmanna við fyrri fjárlagaumræður voru ummæli hv. þm., Pálma Jónssonar, í umræðum um fjárlagafrv. fyrir tveimur árum, árið 1990, svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: ,,Hæstv. ráðherra hefur sagt að frv. marki ákveðin tímamót. Það sé áfangi að nýjum grundvelli í efnahagsstjórn á Íslandi og það sé traustur rammi um efnahagslífið sem allir aðilar í þjóðfélaginu verði að laga sig að. Látið er að því liggja að frv. sé svo fullkomið að það þurfi helst engu að breyta.`` Síðan rekur hann málið nokkru nánar og bætir við: ,,Því miður er það svo að þegar farið er að skyggnast í málin hverfur glansinn og dökku hliðarnar blasa við.`` Þetta sagði hv. þm. Pálmi Jónsson um fjárlagafrv. fyrir tveimur árum síðan. Og þá sat andstæðingur hans, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, í stóli fjmrh. Nú situr flokksbróðir hv. þm. Pálma Jónssonar í stóli fjmrh. og ég get alveg hugsað mér að nota þessi sömu orð um fjárlagafrv. sem nú liggur frammi.
    Það er svo að það er árlegur viðburður að fjmrh. leggi fram nýtt fjárlagafrv. sem í hvert einasta sinn á að vera fullkomnasta fjárlagafrv. sem lagt hefur verið fram því nú á að taka á ríkisfjármálunum, stemma stigu við eyðslunni, nú skulu skattar ekki hækkaðir, dregið skal úr skuldasöfnun og eftirspurn eftir lánsfé skal minnka o.s.frv. Þannig er þetta frv. líka til orðið. Það á að byggjast á velferð á varanlegum grunni, segja hinir vísu menn. Réttara væri að tala um helför á hallandi grunni. Því sú stefna sem þar kemur fram mun leiða þjóðfélagið á heljarþröm.
    Þjóðhagsáætlun fyrir árið 1992, sem forsendur fjárlagafrv. hljóta að byggjast á, er vissulega hið furðulegasta plagg. Landsframleiðslan á að dragast saman, þjóðartekjur minnka um 3% en bygging álvers á að bjarga málinu, svo trúverðugt sem það nú er. Verði breyting á þeirri áætlun verður að skoða allar efnahagsforsendur að nýju. Það er raunar hið eina sem ríkisstjórnin horfir á og vinnur að, önnur atvinnustefna er engin í þjóðhagsáætlun. Miklir fjármunir hafa verið notaðir til að greiða fyrir kostnað vegna samninga um Evrópskt efnahagssvæði. Þar erum við að ræða um hundruð milljóna. Þýðing laga og reglugerða Evrópubandalagsins kostar okkur a.m.k. 80 millj. og er þó ekki búið að loka þeim reikningi enn þá. Ferðakostnaður vegna samningagerðar EFTA og EB um Evrópskt efnahagssvæði á þessu ári er orðinn 58,7 millj. kr. Undir samningana um Evrópskt efnahagssvæði var skrifað í nótt eins og alþjóð veit. Ekki er vitað að fullu hvað í þeim samningum felst en það kemur til kasta Alþingis að fjalla um það síðar. Flestir þeir fyrirvarar sem fyrri ríkisstjórn setti eru ekki lengur fyrir hendi.
    Með samningnum erum við að afsala okkur hluta af fullveldi okkar. Erlendir dómstólar munu hafa úrskurðarvald í málum sem snerta hagsmuni okkar. Því er það sjálfsögð krafa að þjóðin sé spurð um afstöðuna til aðildar að Evrópsku efnahagssvæði í almennri atkvæðagreiðslu. En það virðist þó ekki vera á dagskrá samanber skoðun hæstv. forsrh. í umræðunum hér fyrr í dag.
    Þetta frv. boðar minnkandi þjóðartekjur vegna aflasamdráttar á næsta ári, sem getur numið allt að 10 milljörðum króna og fer það nokkuð eftir því hvernig verðlag þróast á erlendum mörkuðum. Þar hefur verðlag verið mjög hátt á þessu ári og toppnum er sennilega náð. Þess vegna eru miklar líkur á að það muni fara lækkandi.
    Í tekjuhlið frv. er gert ráð fyrir því að áætlanir um byggingu álvers verði að veruleika eins og ég sagði áðan. Það er þó engan veginn víst og margir óvissuþættir eru um þróun þeirra mála. Það er því ekki réttlætanlegt að ganga út frá þeim forsendum við samningu fjárlaga að úr því verði. Reyndar hafa heyrst gagnrýnisraddir um það úr höfuðstöðvum Vinnuveitendasambands Íslands.
    Þá verður mikil aukning á sértekjum ríkssjóðs svokölluðum, eða um 2,5 milljarða. Það eru skólagjöld og þjónustugjöld ýmiss konar. Það er þó engan veginn víst að þingmeirihluti sé fyrir þeim ákvörðunum ríkisstjórnarinnar því yfirlýsingar sumra þingmanna úr hópi stjórnarliða benda til þess að þeir muni ekki samþykkja það. Niðurstaða í tekjuhlið frv. er því sú að þó því sé haldið fram að skattbyrði eigi ekki að aukast er það aðeins orðaleikur þar sem í stað beinna skatta eiga að koma þjónustugjöld sem rýra afkomu einstaklinga og heimila á næsta ári. Fjárlagafrv. gerir ráð fyrir auknum álögum á almenning í landinu alveg sama hvort það heita skattar eða þjónustugjöld. Hlutur ríkissjóðs af þjóðarkökunni eykst og verður nú 30% en er í ár áætlaður 28,7%.
    En það má vissulega lesa stefnubreytingu út úr þessu frv. Sú stefnubreyting felur í sér að nú skulu borgarar

þessa lands greiða í auknum mæli fyrir þá þjónustu hins opinbera sem hingað til hefur verið talin sjálfsagður hluti af velferðarkerfinu. Með því að taka upp stórhækkuð þjónustugjöld til sjúkrastofnana, setja á skólagjöld fyrir framhaldsskólanemendur og fyrir aðgang að háskólum og hækka lyfjakostnað sjúklinga er sú stefna tekin að færa kostnað vegna þessara málaflokka á herðar þeirra sem nota þessa þjónustu. Og þar finna stjórnarliðar breiðu bökin. Það er skólafólkið, það eru fjölskyldurnar með yngstu börnin sem þurfa yfirleitt mest að leita læknis við hinum ýmsu barnasjúkdómum, það eru aldraðir og öryrkjar sem þurfa oftast meira á lyfjum að halda en fullfrískt fólk á miðjum aldri. En foreldrar yngstu barnanna og eldra fólkið eru einmitt oftast tekjulægstu hóparnir í þjóðfélaginu. En sparnaður í rekstri ráðuneyta er ekki finnanlegur í hinu nýja fjárlagafrv. og heldur ekki í því fjáraukalagafrv. sem nú liggur fyrir Alþingi, fyrir árið 1991. Þar fara skrifstofur ráðuneytanna 80 millj. kr. fram úr fjárlögum yfirstandandi árs. Og greiðslur til fjmrh. fyrstu átta mánuði þessa árs voru 1 milljarður 124 millj. kr. umfram heimildir. Þar af er rúmur milljarður vegna fasteignakaupa. Það er því ævinlega sama úrræðið sem gripið er til, þ.e. að fara í vasa almennings til að standa undir því ríkisbákni sem fyrir löngu er orðið að þeim óskapnaði sem engin lög virðast ná að minnka. Og trúverðugleiki stjórnvalda til að minnka umsvif ríkisins er ekki mikill þegar litið er til þess hvernig rekstur ráðuneyta fer sífellt úr böndunum.
    Almenningi er sí og æ bent á að herða sultarólina en bruðl í rekstri ráðuneyta er á allra vitorði. Stundum hefur verið sagt að siðferðisvitund þjóðarinnar og meðferð fjármála sé á mjög lágu plani. En ætli þar eigi ekki við málshátturinn; það höfðingjarnir hafast að hinir ætla sér leyfist það, og í fullu gildi.
    Þá er eftir að geta þess að í forsendum fjárlaga er ekki gert ráð fyrir neinum launahækkunum á næsta ári og það þrátt fyrir að samningar séu nú lausir hjá þorra launafólks. Það ber því allt að sama brunni, forsendur þessa frv. eru byggðar á mjög ótraustum grunni. Þá get ég ekki látið hjá líða að nefna að það er alveg sama hversu fallegar tölur koma út úr fjárlagafrv. það skiptir líka máli hvernig framkvæmd fjárlaganna er. Og eins og ég nefndi dæmi um úr fjáraukalagafrv. fyrir yfirstandandi ár er það því miður dæmi um að aðhalds er ekki gætt sem skyldi og ætti Alþingi í raun að hafa meira um það að segja að fylgjast með því að fjárlög séu haldin. Allt of oft virðast ráðherrar haldnir þeirri blindu að þeir geti sjálfir ákveðið útgjöld sinna ráðuneyta óháð fjárlögum og allt of oft hafa þeir komist upp með það vegna þess að Alþingi, sem samþykkir fjárlög, fylgir því ekki eftir að þau séu haldin. Ríkisendurskoðun hefur margsinnis gert athugasemd við framkvæmd fjárlaga, sömu atriðin ár eftir ár og lítið orðið ágengt.
    Þá er 6. gr. fjárlaganna mjög umdeilanleg þar sem svokölluð heimildarákvæði um ýmsa liði eru. Kemur þar hvort tveggja til að þar hafa ráðherrar mjög frjálsar hendur til ýmissa skuldbindinga og hafa þeir yfirleitt farið langt fram úr fjárlögum. Samanber að á þessu ári voru þær heimildir 300 millj. kr. en í fjáraukalögum er gert ráð fyrir að auka þær heimildir um 105 millj. kr. Þó telur Ríkisendurskoðun að enn vanti 700 millj. kr. á þær heimildir. Að mínu áliti er tímabært að þrengja þessar heimildir verulega þó að sú skoðun sé nokkuð útbreidd meðal þingmanna að einhverjar heimildir þurfi að vera fyrir hendi.
    Annað í tekjuöflun ríkisins sem snertir framkvæmd þarf líka skoðunar við. Það er sú staðreynd að stór hluti álagðra skatta innheimtist ekki. Mjög er það mismunandi eftir skattumdæmum hvernig til tekst um innheimtu. Þar er víða pottur brotinn og dæmi um að ekki náist nema 50% af tilteknum gjaldaflokkum í innheimtu. Það er mjög ámælisvert að fyrirtæki skuli komast upp með að innheimta skatta af starfsmönnum sínum og skila þeim síðan ekki. Það hlýtur að vera meira en lítið að í innheimtumálum þegar útistandandi skattskuldir eru orðnar jafnháar þeirri upphæð sem er hallarekstur ríkissjóðs.
    Að síðustu má nefna þær lagabreytingar sem er gengið út frá í forsendum fjárlagafrv. vegna tekju- og gjaldahliða. Þær lagabreytingar, sem þar eru kynntar, eru ekki komnar í framkvæmd. Þær eru hvorki meira né minna en 43. Þar er um að ræða breytingar sem geta skipt sköpum um afkomu einstaklinga og fyrirtækja. Nægir þar að nefna lög um almannatryggingar, lög um ríkisábyrgð á laun, um slysatryggingar, heilbrigðisþjónustu, Atvinnuleysistryggingasjóð, Húsnæðisstofnun ríkisins, lyfsölusjóð, hafnalög, stjórn fiskveiða og búvörulög svo eitthvað sé nefnt. En hvað boðar þessi áætlun um ríkisbúskap fyrir fólkið í landinu? Hún boðar í stuttu máli aukna skattheimtu, sem nú er kölluð þjónustugjöld. Aukið atvinnuleysi, niðurskurð á opinberum framkvæmdum og versnandi afkomu heimilanna í landinu. Frv. boðar engar breytingar í þá átt að rétta við halla ríkissjóðs á næsta ári eins og forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa látið í veðri vaka. Gert er ráð fyrir halla í frv. upp á 3,7 milljarða kr. Trúlega á sú upphæð eftir að hækka í meðförum Alþingis samkvæmt reynslu undanfarinna ára og einnig í frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1992 þegar það kemur fram. Þá eru horfur á peningamarkaðnum næsta ár mjög óvissar. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að lánsfjárþörf ríkisins minnki milli ára úr 12 millj. á yfirstandandi ári í 4 milljarða á næsta ári. En þá er fjárþörf húsnæðiskerfisins ekki meðtalin. Eins og nú horfir er lánsfjárþörfin 24 milljarðar og þar af á að taka 15 milljarða á innlendum lánamarkaði. Það verður því áfram keppt um sparifé landsmanna, sem heldur vaxtastiginu uppi. Samkvæmt áætlunum um nýjar erlendar lántökur á næsta ári mun skuldastaðan versna og hlutfall hreinna skulda af landsframleiðslu hækka úr 48,5% á þessu ári í 52% á næsta ári. Miklar umræður eru í gangi um tengingu íslensku krónunnar við ECU. Seðlabankinn hefur þó lýst því yfir að það sé ekki tímabært. Jafnframt eru ýmsar blikur á lofti sem benda til þess að haldið sé opnu fyrir hugsanlega gengisfellingu í vetur. Og á meðan svo er kemur tenging við ECU tæplega til greina.
    Í byggðamálum eru markmiðin ekki háleit. En í hvítbókinni segir svo, með leyfi forseta: ,,Ríkisstjórnin mun með almennum aðgerðum styðja viðleitni til að byggja upp iðnað og þjónustu á vaxtarsvæðum landsbyggðarinnar.`` Enn fremur: ,,Ríkisstjórnin mun starfa í anda sátta milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis.`` Í höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins á að taka ákvörðun um það hver séu vaxtarsvæði landsbyggðarinnar. Þar á að taka ákvörðun um hvaða byggðir eigi að vaxa. Og svokallaðar óhagkvæmar rekstrareiningar eiga að leggjast af. Hvað varðar það ákvæði að ríkisstjórnin ætli að starfa í anda sátta milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis er rétt að minna á ummæli hæstv. forsrh. á flokksráðsfundi Sjálfstfl. nú um helgina. En þau urðu tilefni til utandagskrárumræðu hér í þinginu í gær. Fannst mönnum það vera til að auka sátt milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar? Ef framhaldið verður í þeim dúr er ekki á góðu von og það mun enn breikka það bil sem nú þegar er milli íbúa þessa lands eftir búsetu.
    Einn ljós punktur er þó í byggðamálum samkvæmt þessu fjárlagafrv. en það eru þær áætlanir sem gera ráð fyrir 340 millj. til niðurgreiðslna á rafhitun til íbúðarhúsnæðis. Það felur í sér að húshitunarkostnaður lækkar um u.þ.b. 10 þús. kr. á ári fyrir meðal íbúðarhús á svokölluðum köldum svæðum, þ.e. þar sem ekki er hitaveita. Það er vissulega spor í rétta átt en þó er engan veginn stigið það skref sem þarf til að jafna húshitunarkostnað á landinu. Það er stór hluti af þeim byggðavanda sem við er að glíma hversu mikill munur hefur verið á þessum kostnaðarlið heimilanna eftir landshlutum og innan svæða. Furðu gegnir hve seint menn hafa áttað sig á því og leitað leiða til úrbóta. Þessum aðgerðum þarf að fylgja eftir og hefur fjárln. beðið um skýrslu um það hvernig þau mál séu hugsuð í framkvæmd.
    Málefni fatlaðra eru einn sá málaflokkur sem vel er gert við í þessu fjárlagafrv. Þar er gert ráð fyrir að störfum fjölgi um 61 og fjárveitingar til rekstrar allra stofnana fatlaðra hækka um 190 millj. kr. Þetta er málaflokkur sem fyrirsjáanlega mun fara vaxandi á næstu árum enda er verið að gera stóra hluti í uppbyggingu þeirra mála um allt land. Lög um málefni fatlaðra eru í endurskoðun og mun bráðlega verða lagt fram frv. í þinginu.
    Þegar hin nýju lög um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga tóku gildi var gengið frá kostnaðaruppgjöri milli ríkis og sveitarfélaga sem þá var óuppgert. Ekki hefur þó enn verið gengið frá öllum endum í því sambandi. En framlag til þeirra mála er 400 millj. kr. á næsta ári. Er þar farið eftir vinnureglum sem mótaðar voru við afgreiðslu fjárlaga 1990. Áætlað er að lokauppgjör geti farið fram á árinu 1993. Það er von mín að þær áætlanir standist því það skiptir sveitarfélögin mjög miklu máli í sínum rekstri.
    Um önnur einstök mál væri hægt að fjalla frekar í þessum umræðum, en eins og ég sagði í upphafi sé ég ekki ástæðu til þess á þessu stigi málsins. Næstu vikur fer fram vinna í fjárln. um einstakar greinar frv. og þar verða mótaðar tillögur um breytingar.
    Ég tel þó ástæðu til að ítreka þá skoðun mína að þetta fjárlagafrv. boðar ekki bjarta framtíð fyrir hina íslensku þjóð. Einkenni þess eru aukin skattheimta, niðurskurður og skuldasöfnun. Það boðar vaxtahækkanir og versnandi afkomu atvinnuveganna. Það boðar aukin umsvif skrifstofubáknsins í Reykjavík. Þessi ríkisstjórn er haldin frjálshyggjuofstæki sem vonandi kemur henni sjálfri í koll sem allra fyrst.