Fjárlög 1992

12. fundur
Þriðjudaginn 22. október 1991, kl. 18:18:00 (377)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns bendi ég á þá nýbreytni, sem samkvæmt nýjum þingskapalögum er tekin upp við afgreiðslu fjárlaga, að efh.- og viðskn., sem áður hét fjh.- og viðskn., fjallar nú um tekjuhlið frv. þó að hún sé ekki beint til umræðu. Og í hinu breytta nafni nefndarinnar, efnahags- og viðskiptanefnd, felst að hún fjallar um efnahagslegan þátt ríkisfjármálanna. Þess vegna fagna ég því að hæstv. fjmrh. skyldi verja svo miklum tíma af sinni ræðu einmitt í hinn efnahagslega þátt ríkisfjármálanna og efh.- og viðskn. hefur nú þegar hafið umfjöllun sína um þessi mál.
    Ég get að mörgu leyti tekið undir umfjöllun hæstv. fjmrh. um efnahagslíf okkar Íslendinga síðustu ár og þá miklu breytingu sem við höfum gengið í gegnum á leið okkar frá þjóðfélagi niðurgreiddra vaxta til þess sem við ætluðum til þjóðfélags þar sem menn greiddu hóflega vexti af því fjármagni sem menn höfðu að láni þó svo að það hafi nú farið að nokkru úr böndunum. Hins vegar fannst mér hæstv. fjmrh. taka djúpt í árinni áðan þegar hann vildi líkja núverandi ástandi við það sem væri austan við járntjald eftir að það féll. Þessi ummæli eru svo út í hött, í það minnsta fyrir mig sem nýlega hef átt þess kost að ferðast um austantjaldslöndin, að þau gera allt annað ómerkt. Það er svo erfitt að taka mark á máli ræðumanna sem slá um sig með svo röngum og algjörlega órökstuddum fullyrðingum.
    Ég geri mér líka fulla grein fyrir að ríkisbúskapurinn skiptir mjög miklu máli í efnahagslífi einnar þjóðar og ég er tilbúinn til að taka þátt í þeirri vinnu sem nauðsynleg er til þess að stuðla að frekara jafnvægi. Það er alveg rétt að þar eigum við við fortíðarvanda að etja. Og ég veit að í máli hæstv. fjmrh. hefur ekkert komið fram annað en að þetta sé sameiginlegur fortíðarvandi þeirra stjórnmálaflokka sem hér hafa verið við völd á undanförnum árum og áratugum. Eðli málsins samkvæmt, ef við tökum bara þann tíma sem ríkisstjórnir og stjórnmálaflokkar hafa setið við völd, bera væntanlega engir stjórnmálaflokkar meiri ábyrgð en minn flokkur og flokkur hæstv. fjmrh. Því miður er hins vegar ekki svo farið um alla talsmenn núv. ríkisstjórnar. Og fortíðarvandatal hæstv. forsrh. er í hæsta máta ósæmilegt að mínu mati. Nægir þar að nefna úttekt Morgunblaðsins um síðustu helgi þar sem farið var í gegnum það sem mistekist hefur í fjármálastjórn ríkis og sveitarfélaga. Ef ég man rétt var sú grein myndskreytt með helstu skrautfjöðrum fráfarandi borgarstjóra og núverandi forsrh. Íslands. Þessi umræða hans um fortíðarvandann finnst mér þess vegna því miður vera að nokkru leyti úr glerhúsi komin og gott ef það glerhús er ekki með snúningsgólfi líka.
    Ég ætla síðan að koma örfáum orðum að því hvernig núv. ríkisstjórn hefur tekið á þessum málum. Í framhjáhlaupi í upphafi er full ástæða til að líta á hvaða fordæmi þeir ráðherrar sem hæst töluðu um sparnað á sl. sumri höfðu fyrir þjóðinni. Og í ljósi þessa, þó að ég vilji yfirleitt ekki fara út í slíkan sparðatíning, er sú umræða sem orðið hefur um bílakaup ráðherra fullkomlega réttlætanleg. Í öðru lagi langar mig að nefna að það vekur nokkra athygli, ef ástandið er eins alvarlegt og ráðherrar lýsa yfir, að nú skuli fjarvistir ráðherra og utanlandsferðir vera sem aldrei fyrr. Ekki meira um það.
    Lítum svo aðeins á hið efnahagslega samhengi í dag. Ég ætla að byrja á að vitna í hvítbókina, sem að vísu er ansi mikið lengri og umfangsmeiri en lofað var í vor, en þar segir um markmið ríkisstjórnarinnar, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórnin vill tryggja stöðugleika í efnahagslífinu og stuðla þannig að því að sættir takist um sanngjörn kjör. Hún mun í þessu skyni beita sér fyrir aðgerðum í skatta- og félagsmálum, sem koma hinum tekjulægstu til góða.`` Ég mun koma að þessu síðar í ræðu minni.
    En hvert er þá hið efnahagslega samhengi sem við búum við í dag? Hver er sú umgjörð sem atvinnulífið og einstaklingarnir í landinu búa við þetta missiri? Að mínu mati, í þeirri þröngu stöðu sem okkar þjóðfélag er í í dag, er ekkert eitt atriði sem er eins ráðandi varðandi tekjuskiptingu í landinu, varðandi afkomu yngra fólksins, varðandi afkomu fyrirtækjanna, en vaxtastigið. Bent var á það fyrr í dag að á síðasta ársfjórðungi þessa árs spáir Seðlabankinn því að raunvextir á innlendu fjármagni verði 15,8%. Það eina sem ríkisstjórnin hefur nefnt til þess að draga úr þessu er að stuðla að samdrætti í ríkisbúskapnum og skapa þannig atvinnulífinu svigrúm, draga þannig úr spennunni, og þá muni vextirnir lækka.
    Hæstv. fjmrh. lýsti því vel í sinni ræðu að þessi markmið, um samdrátt í ríkisbúskapnum, eru í eðli sínu langtímamarkmið. Þar næst ekki árangur nema með mikilli vinnu og á löngum tíma. Því verður að grípa inn í þessi atriði fyrr, og að mínu mati er ekkert eins mikilvægt núna og að taka á húsbréfakerfinu. Nú stefnir útgáfa húsbréfa á þessu ári í 15 milljarða. Þarna væri hægt að taka á svo um munaði og gera að fljótt. Og ég verð, virðulegur forseti, að leyfa mér að segja að það er engan veginn hægt að kalla þetta fortíðarvanda því ef ég man rétt

er þetta vandamál enn í núv. ríkisstjórn.
    Hvaða áhrif hefur þessi spenna í húsbréfakerfinu? Hún hefur réttilega þær afleiðingar að vextirnir eru spenntir upp, í gangi er óeðlileg þensla, í gangi er uppbygging á húsnæðiskerfinu sem ekki er innstæða fyrir. Þetta þýðir í öðru lagi að svigrúm atvinnuveganna til nýrrar uppbyggingar er verulega skert.
    Ég ætla að setja þetta í byggðalegt samhengi líka af því að ég hef um margra ára bil haldið því fram að ekkert eitt atriði sé eins mikilvægt fyrir heilbrigða byggðastefnu og að mönnum takist að hafa eðlilega stjórn á efnahagsmálum. Þeir peningar sem m.a. hæstv. forsrh. hefur lýst yfir að sé dælt í vonlaus fyrirtæki úti á landsbyggðinni eru ekki nema brot, og ég endurtek, eru ekki nema brot af þeim fjármunum sem hafa runnið af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins í gegnum slæma stjórn efnahagsmála á umliðnum áratugum. Og ég bendi á, til viðbótar við það sem ég hef lýst, hvernig hæstv. núv. ríkisstjórn hefur tekist að skapa þennan ramma, að allt þetta sem ég nefndi áðan setur aukna pressu á gengismálin, það skekkir gengismyndina og á þann hátt er það enn til þess að gera fyrirtækjunum í landinu erfiðara fyrir.
    Ég ætla að koma að einu efnisatriði varðandi útgjaldalið fjárlagafrv. Það snertir landbúnaðarmál. Ég vísa til búvörusamnings sem gerður var á síðasta vori þar sem tókst samkomulag milli forustu bænda og ríkisvaldsins um ákveðna málsmeðferð gagnvart landbúnaðarmálum, stýringu landbúnaðarframleiðslu og framlögum ríkisins til þessa málaflokks. Þetta samkomulag gengur m.a. út á það að stórlækka á næstu árum framlög til landbúnaðarmála á þann hátt, sem m.a. hefur komið fram í viðtölum okkar í efh.- og viðskn. við starfsfólk fjmrn., að strax á árinu 1993 muni þessi útgjöld lækka um 1 milljarð. (Gripið fram í.) Meira, segir hæstv. fjmrh. og er vonandi að það sé rétt. En þetta samkomulag byggðist á ákveðnum forsendum. Ein af þeim forsendum var sú að stuðningur ríkisvaldsins við hinar hefðbundnu búgreinar í gegnum niðurgreiðslur yrði að raungildi óbreyttur þannig að breytingar á niðurgreiðslustigi ríkisins á þessar búvörur þyrftu ekki að koma fram í breyttu vöruverði. Á móti þessu skuldbundu bændur sig, og það er búið að ganga frá þeim samningi í sauðfjárrækt, til að lækka verð framleiðslu sinnar í ákveðnum áföngum til þess að tryggja lægra vöruverð til neytenda. Nú hefur það komið fram í umfjöllun m.a. landbn. um þessi mál og þeim viðtölum sem við höfum þar óskað eftir að í sauðfjárframleiðslunni lækkar niðurgreiðslustigið um fjögur prósentustig þegar hið nýja kerfi, bein greiðsla, tekur við. Ef aðilar vinnumarkaðarins halda og knýja ákveðið á um, sem ég efa ekki að þeir geri, að ákvæði þessa samkomulags um vöruverðslækkun verði haldið til streitu þá rústar það launalið sauðfjárbóndans á næstu árum. Í öðru lagi kemur fram í fjárlagafrv. að niðurgreiðslur á mjólkurvöruverð verði óbreyttar í krónutölu frá því sem er nú, sem þýðir lækkun sem nemur verðlagshækkunum á tímabilinu. Og ég vil beina því til fjmrh. hvort ekki verði staðið við þennan samning af hálfu ríkisins varðandi þessi atriði eins og önnur eins og hæstv. landbrh. hefur reyndar marglýst yfir að gert verði.
    Það eru hér nokkur atriði að lokum. Í ræðu hæstv. fjmrh. segir að ekkert hafi verið gert af hálfu fyrri stjórnvalda til þess að ná niður verðbólgunni og skapa eðlilegan rekstrargrundvöll í okkar þjóðfélagi. Ég vil nú minna hæstv. ráðherra á þjóðarsáttina sem gerð var í tíð fyrrv. ríkisstjórnar. Þar vil ég sérstaklega geta ummæla formanns Vinnuveitendasambands Íslands á síðasta aðalfundi þess þar sem hann lýsti því yfir að ríkisstjórnin hefði staðið í einu og öllu við það sem að henni sneri varðandi þá samningsgerð. Það er svo aftur annað mál að það var feikileg vinna óunnin til þess að skapa þann grundvöll sem við þurfum og ég hef lýst í fyrri ræðu minni hvernig núv. ríkisstjórn hefur staðið að þeirri vinnu og hvernig rekstrarumhverfi atvinnuveganna er í dag.
    Ég vil líka ítreka við hæstv. fjmrh. spurningar, sem hér hafa komið fram, um breytingar á aðstöðugjöldum sem eru að mínu mati einhver ranglátasta skattlagning sem er í gangi í dag og er þess eðlis að hún hefur á stundum riðið baggamuninn um það hvort fyrirtæki hafa lifað eða dáið. Það er hins vegar flókið mál hvernig á að leysa þetta því að þarna er um að ræða tekjustofn sveitarfélaga. Þess vegna vil ég beina eftirfarandi spurningu til fjmrh. og ég vil fá ákveðin svör: Hvaða áform eru uppi um breytingar á aðstöðugjaldi og á hvern hátt hefur ríkisstjórnin hugsað sér að bæta sveitarfélögunum upp tekjumissi sem af þessu hlýst?
    Það væri síðan hægt að halda langa ræðu um ummæli sumra stjórnarsinna um þjónustugjöldin og á hvern hátt umræðan hefur verið út og suður eftir því hver talar, hvort það er lektor við Háskólann eða hvort það er bóndi austan af landi, svo eitthvað sé nefnt. Þessari óvissu verður að eyða því ansi mikill munur er á því hvort menn eru að ræða um hóflega gjaldtöku til þess að auka kostnaðarvitund eða hvort, t.d. í menntamálum, menn eru að stíga fyrsta skrefið að m.a. einkavæðingu á skólakerfinu í þá átt að menntun, og þá kannski fyrst og fremst æðri menntun, verði forréttindi hinna efnameiri eða þeirra sem eiga aðgang að sjóðum sem úthluta til þeirra þátta. Það hefur nefnilega hvergi komið skýrt fram hver sé stefna núv. ríkisstjórnar í þessu. Í hvítbókinni er ýjað að öðrum hlutum. Og ýmsar yfirlýsingar stuðningsmanna og áhrifamanna innan vébanda núv. stjórnarsamstarfs benda í þá átt að hugmyndin sé að ganga þarna miklu lengra. Sé það gert er verið að hverfa frá þeim grundvallarhugmyndum sem hafa verið uppi varðandi velferðarkerfi okkar og hafa byggst á því að tryggja öllum jafnan rétt. Það verðum við að skoða mjög vel. Það er himinn og haf milli þeirrar stefnu og þess sem maður hefur heyrt meðal stuðningsmanna núv. ríkisstjórnar, þeirra sem lengst vilja ganga, m.a. á þá vegu að það sé eðlilegt að þeir sem eigi fjármuni geti keypt sér forgang að heilbrigðiskerfinu. Það er staðreynd, hæstv. fjmrh., að þetta eru hugmyndir sem maður hefur heyrt viðraðar meðal áhrifamanna innan núv. stjórnarflokka.
    Að lokum örfá orð um Evrópskt efnahagssvæði vegna þess að hæstv. fjmrh. nefndi það sérstaklega í sinni ræðu að þar gæti verið um að ræða atriði sem væri til mikilla hagsbóta fyrir okkar efnahag. Það var að skilja hann sem

svo að það væri eitthvað sem kæmi af himnum og líklegast bara í flugvélinni með hæstv. utanrrh. og sjútvrh. í dag þannig að við gætum farið að njóta þess strax á morgun. Það læðist hins vegar að mér sá grunur að sá hugsanlegi ábati sem menn gætu haft af þessum samningi sé ekkert sem sé í hendi alveg á næstunni. Og ég óttast það að eins og frá samningnum var gengið, þar sem nánast allir þeir fyrirvarar, sem settir voru á Óslóarfundinum í upphafi aðrir en þeir sem lúta að fjárfestingu í sjávarútvegi, eru í burtu, þá geti þessum samningi á næstu árum fylgt þær breytingar og margar hverjar sársaukafullar sem muni ekki auka hagvöxt í upphafi heldur jafnvel draga verulega úr honum. Þetta eigum við að vísu allt eftir að sjá og fylgjast með á næstu dögum og mánuðum. ---