Fjárlög 1992

12. fundur
Þriðjudaginn 22. október 1991, kl. 21:47:00 (379)

     Sturla Böðvarsson :
     Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið við þessa 1. umr. um frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 er fjárlagagerð með öðru sniði en áður hefur verið. Hæstv. fjmrh. hefur beitt sér fyrir margháttuðum umbótum sem koma fram í frv. Er þess að vænta að fjárlög næsta árs geti orðið raunhæfari umgjörð um efnahagsstjórn okkar en fjárlög hafa verið og það takist að hafa traustari stjórn á útgjöldum á vegum einstakra ráðuneyta en verið hefur.
    Þeir þættir frv. sem ég vil gera að umtalsefni hér við 1. umr. eru þau atriði sem lúta að almennum efnahagsmarkmiðum, stefnu í skattamálum, nokkrir þættir varðandi mennta- og menningarmál, landbúnaðarmál, málefni Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, heilbrigðismál og samgöngumál.
    Öllum hv. þm. má vera ljóst að vegna versnandi ytri skilyrða og mistaka við atvinnuuppbyggingu eru efnahagslegar forsendur fjárlagagerðarinnar mjög erfiðar. Minnkandi þjóðartekjur og skuldsettir og gjaldþrota atvinnuvegasjóðir setja okkur í mikinn vanda. Það markmið stjórnarflokkanna, og þá ekki síst Sjálfstfl., að lækka skatta til þess að örva frumkvæði einstaklinga til uppbyggingar og aukinnar verðmætasköpunar eru fjær en vonir stóðu til.
    Við afgreiðslu þessa frv. til fjárlaga verður reynt að koma í veg fyrir hækkun skatta, m.a. með samdrætti og tilfærslum í skattkerfinu. Skattalækkanir verða því miður að bíða betri tíma. Við núverandi aðstæður í efnahagsmálum skiptir miklu, ekki síst fyrir atvinnuvegina, að takmarka ríkisumsvif og halda niðri verðbólgu. Þannig og því aðeins næst það mikilvæga markmið að tryggja atvinnu og auka kaupmátt þegar til lengri tíma er litið og ekki síst að treysta velferðarkerfið fyrir þá sem vegna efnahags þurfa einkum á því að halda. En til þess að markmið efnahagsstefnunnar verði að veruleika verður að fylgja þeirri stefnu sem hæstv. fjmrh. boðar í frv. um minnkandi ríkissjóðshalla, samdrátt í lánsfjárþörf ríkisins án þess að hækka skattana. Að þessum meginmarkmiðum verður þingið að stefna til þess að vinna okkur út úr þeim vanda og snúa vörn í sókn.
    Mennta- og menningarmál eru stór hluti ríkisútgjalda. Þau útgjöld skipta miklu máli fyrir vöxt og framfarir í þjóðfélaginu og menningarlega reisn okkar. Tvennt vil ég nefna af mjög mörgum þáttum í þessum málaflokki sem mætti gera að umtalsefni við þessa umræðu. Það fyrra eru framhaldsskólarnir en það síðara varðar þjóðminjavernd.
    Uppbygging framhaldsskólanna hefur verið mjög hröð og út um allt land hafa risið mjög merkilegar skólastofnanir sem þjóna byggðunum á sama hátt og þeir grónu skólar sem hér í höfuðborginni hafa starfað í áratugi. Það er mitt mat að ásamt bættum samgöngum séu málefni framhaldsskóla þau málefni sem mestu skipta við að treysta byggðina í landinu. Menntaskólar, fjölbrautaskólar og framhaldsdeildir í tengslum við grunnskóla eru víða hornsteinar byggðanna og því þarf að hlúa að þessum skólum, ekki síst hinum smæstu einingum. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að framlög til framhaldsskóla aukist um 11% á milli ára.
    Þjóðminjasafn Íslands er án efa mikilvæg menningarstofnun sem hefur staðið í skugga í umróti og hraða þjóðfélagsbreytinga. Á grundvelli þjóðminjalaga þarf að efla þessa stofnun, ekki síst þann hluta hennar sem á að vinna að varðveislu íslenskrar byggingarlistar að fornu og nýju. Það er ekki vansalaust að menningarminjar drabbist niður og glatist. Um leið og við byggjum upp nýjar, glæsilegar stofnanir þurfum við að huga að því að varðveita eldri byggingar með vönduðu viðhaldi. Má benda á Viðeyjarstofu og Hóladómkirkju sem dæmi um glæsilega endurreisn menningarminja. Við afgreiðslu fjárlaga þarf að líta til þess að eðlileg framlög séu til viðhalds og endurgerðar mannvirkja, ekki síður en framlög til nýbygginga sem oftast hafa í för með sér mikinn kostnað við rekstur.
    Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 400 millj. til þess að gera upp við sveitarfélög samkvæmt samningum í tengslum við verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sem í einhverjum tilvikum liggja ekki enn fyrir. Leggja verður áherslu á að ljúka uppgjöri við sveitarfélögin og tryggja að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fái það fjármagn sem lög gera ráð fyrir, svo sem frv. gerir ráð fyrir reyndar. Það varðar miklu, ekki síst vegna mikilvægra áforma um að sameina sveitarfélög og efla þannig og leggja grundvöll að nýrri sókn á landsbyggðinni og efla vaxtarsvæði.
    Framlög til landbúnaðarmála hafa verið einhver allra viðkvæmasti hluti fjárlagagerðarinnar. Vegna mikils samdráttar og breytinga í þessari atvinnugrein er nauðsynlegt að huga rækilega að framlögum til landbúnaðarins, að hverri stofnun, og gæta þess að þær róttæku samdráttar- og skipulagsbreytingar gangi ekki of nærri eða of harkalega að þessari mikilvægu atvinnugrein okkar landsmanna.
    Heilbrigðismálin taka til sín langstærstan hluta ríkisútgjalda. Það er því ekki óeðlilegt að þar leiti menn eftir hagræðingu og sparnaði í rekstri. Með hverju ári hafa kröfur um bætta og háþróaða heilbrigðisþjónustu aukist. Stofnanir hafa verið byggðar, allt samkvæmt gildandi löggjöf og eftir leiðsögn og góðum ráðum þeirra sem best þekkja til og eftir stefnumótun heimamanna.
    Miklar umræður hafa orðið um hugmyndir heilbrrh. er lúta að róttækum breytingum á rekstri nokkurra sjúkrahúsa. Er þar um að ræða nokkur minni sjúkrahús, m.a. utan höfuðborgarsvæðisins. Það má öllum ljóst vera að miklar breytingar á rekstri slíkra stofnana verða ekki gerðar í einu vetfangi né heldur í fullri andstöðu við eigendur eða sveitarstjórnir. Ljóst er að fjárln. og heilbrrh. verða að finna lausn gagnvart þessum sjúkrahúsum sem er ásættanleg og Alþingi samþykkir. Það er ekki hægt að sætta sig við vinnubrögð sem tíðkuðust hjá fyrri ríkisstjórn sem rauf áratuga gamla samninga og færði sjálfseignarstofnanir á föst fjárlög án þess að gefa viðkomandi færi á að semja eða verjast. Hversu sterka stöðu sem ríkisvald hefur í krafti fjárlaga gagnvart sjálfseignarstofnunum er óverjandi að slíta áralöng samskipti einhliða án samninga. Slík vinnubrögð standast hvorki lög né siðareglur í viðskiptum opinberra aðila sem fjalla um heilbrigðismál.
    Í umræðum um heilbrigðismál verður engu að síður að nálgast það erfiða viðfangsefni að ná útgjöldum niður og að takmarka eins og hægt er að útgjöld streymi fram án þess að stjórnendur fái rönd við reist. Erfiðast í þessu sambandi er það að oft er unnið undir miklum þrýstingi þeirra sem stjórna stofnunum og ráða þeim.
    Heilbrrh. hefur sýnt það að hann hefur fullan vilja til þess að takast á við þessi mál og standa að endurskipulagningu heilbrigðiskerfisins og hagræða þar. Ég hef ástæðu til þess að trúa því og treysta að honum takist að ná þar árangri.
    Samgöngumálaþáttur fjárlagafrv. getur gefið tilefni til langrar umræðu hér við þessa 1. umr. um fjárlagafrv. Ég mun þó við þessa umræðu stytta mjög mál mitt, en vegamál og hafnamál eru útgjaldaþættir í fjárlagafrv. sem varða landsbyggðina mjög miklu. Í þeirri kröppu stöðu sem þjóðarbúið er í verður að telja það mikilvægan árangur að auka framlög til vegamála um 15% frá því sem er í fjárlögum þessa árs og framlög til hafnamála um 35%. Með þessum framlögum er lögð áhersla á þessa tvo mikilvægu þætti. Þess ber þó að geta að framlög til hafnamála munu fara að verulega miklu leyti til þess að gera upp skuldir ríkisins við hafnirnar. Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri frá Hafnamálastofnun er skuld ríkissjóðs nú við hafnirnar um 600 millj. kr.
    Á undanförnum árum hefur dregið úr framlögum til hafnanna á sama tíma og framkvæmdaþörf hefur aukist verulega vegna stærri skipa og vegna nauðsynlegrar endurnýjunar á hafnarmannvirkjum. Árið 1988 var fjárveiting um 75% af framkvæmdum þess árs. Árið 1989 var fjárveitingin um 62% af framkvæmdum og árið 1990 68%. Í ár stefnir í það að fjárveiting til hafnarmála verði einungis um 43% af þeim framkvæmdum sem lokið verður við á þessu ári. En í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir og kynnt að endurskoðun fari fram á hafnalögunum með það meginmarkmið í huga að tryggja rekstur hafnanna, sameina hafnir og ná sem mestri hagræðingu í rekstri þeirra.
    Virðulegi forseti. Ég vænti þess að markmið þessa frv. sem hér er til umræðu nái fram að ganga, okkur takist að ná valdi á ríkisfjármálum með þeim hætti að það styrki framvindu efnahagsmála. Takist það verður öðrum markmiðum náð svo sem þeim að styrkja og efla byggðina í landinu.