Fjárlög 1992

12. fundur
Þriðjudaginn 22. október 1991, kl. 22:00:00 (380)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson):
     Virðulegi forseti. Ég vildi gjarnan að hv. 9. þm. Reykv. yrði gert viðvart. Hann beindi nokkrum spurningum til mín og ég held að réttara væri að hann væri sjálfur í salnum þegar þeim er svarað. Vildi ég biðja hæstv. forseta að sjá til þess að þingmanninum verði gert viðvart, og ég ætla þá að bíða með mál mitt þangað til hann er genginn í salinn. --- Þá er hv. þm. kominn og er það gott því það var mjög ánægjulegt að heyra hans ræðu hér áðan. Hún var að flestu leyti mun málefnalegri og á lægri nótunum en það sem hann og flokksbræður hans hafa tíðkað fram að þessu. Vissulega er ánægjulegt að eiga orðastað við hv. þm. þegar hægt er að ræða við hann með þeim hætti.
    Í fyrsta lagi almennt um það sem hann sagði í sinni ræðu áður en hann kom að spurningunum sem hann beindi til mín. Að sjálfsögðu er það mikill misskilningur hjá hv. þm. ef hann heldur að forsendur fjárlagafrumvarpa séu einvörðungu þær sem við Íslendingar ákveðum sjálfir. Svo er auðvitað ekki því að við erum ekki einir í heiminum hvað sem líður viðskiptasamstarfi okkar við aðrar þjóðir. Einn stærsti útgjaldaliður í fjárlagafrv., bæði nú og áður, er t.d. vaxtagreiðslur ríkissjóðs. Að nokkru leyti má með sanni segja að það séu forsendur sem við ákveðum sjálf, að vísu ekki á þeim tíma þegar fjárlagaafgreiðsla fer fram heldur á árunum áður. Þetta ákváðum við að nokkru leyti sjálf með því að undanfarandi ríkisstjórnir, allar, ekkert ein frekar en önnur, hafa tekið þá ákvörðun að mæta ekki útgjaldaþörf ríkisins með samsvarandi tekjuöflun, heldur ýta vandanum á undan sér með því að taka lán, aðallega erlendis, til þess að greiða útgjöld sem tekjur hrökkva ekki fyrir og safna þannig erlendum skuldum sem þjóðin verður að greiða af bæði vexti og afborganir. Við Íslendingar ráðum hins vegar ekki sjálfir þessum vaxtakjörum. Við réðum því á sínum tíma að við tókum þessi lán. Við ráðum hins vegar ekki vaxtakjörunum sjálf.
    Í fjárlagafrv. yfirstandandi árs er, ef mig minnir rétt, gert ráð fyrir að við þurfum að borga vegna A-hluta ríkissjóðs eins á tíunda milljarð króna í vaxtagreiðslur. Verulegur hluti af þessum vaxtagreiðslum fer til erlendra lánveitenda þar sem vaxtakjörin ráðast af aðstæðum á erlendum lánsfjármarkaði. Þetta eru aðstæður og forsendur sem við ákveðum ekki sjálf. Með sama hætti eru framlög til fjárfestingarlánasjóða sem koma úr ríkissjóði að verulegu leyti til þess að greiða kostnað vegna lántöku fjárfestingarsjóðanna sem ríkisstjórnir á hverjum tíma hafa ákveðið að taka til þess að framlána síðan atvinnuvegum og einstaklingum eftir atvikum. Mér er nær að halda að ef allar vaxtagreiðslur A-hluta ríkissjóðs og opinberra sjóða væru teknar saman mundi láta nærri að um 17 milljarðar kr. færu í vaxtagreiðslur samtals til erlendra og innlendra aðila. Þetta eru ekki nema að mjög takmörkuðu leyti forsendur sem við ákveðum sjálf.
    Ein af meginforsendum í sérhverju fjárlagafrumvarpi er þær gengisforsendur sem lagðar eru til grundvallar því mati sem ríkisstjórn vill hafa í þeirri áætlun sem fjárlagafrv. er. Við ráðum ekki þróun gengismála á alþjóðlegum mörkuðum. Við ráðum ekki stöðu gengis íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum nema að takmörkuðu leyti. Með sama hætti eru viðskiptakjör mikilvæg forsenda fjárlagagerðar. Við Íslendingar ráðum þeim ekki nema að takmörkuðu leyti. Söluhorfur á erlendum mörkuðum fyrir framleiðsluafurðir okkar eru líka mikilvæg forsenda fjárlagagerðar. Ekki ákveðum við það einir, Íslendingar. Með sama hætti eru veiðar og sjávarafli veruleg forsenda fjárlagagerðar. Ekki erum við einráðir um það. Það er þess vegna afskaplega mikill misskilningur hjá hv. þm. að halda að við Íslendingar séum einir í heiminum þó að við höfum ekki enn þá tengst Evrópsku efnahagssvæði eins og til stendur. Auðvitað eru aðstæður sem ráða mjög miklu um forsendur fjárlagagerðar aðrar en þær aðstæður sem við ráðum sjálf. Umheimurinn hefur talsverð áhrif á forsendur fjárlaga. Það er ekkert nýtt. Það mun verða svo hvað sem líður tengslum okkar við Evrópskt efnahagssvæði eða öðrum viðskiptasamningum sem við gerum.
    Hv. þm. varð mjög tíðrætt um mannúðarsjónarmiðin. Er það mannúð að keppast, eins og stjórnarandstaðan hefur gert, við að gera þá sem höllustum fæti standa í þjóðfélaginu yfir sig hrædda við þær aðgerðir sem stjórnvöld grípa til til að lækka ríkisútgjöld þegar því er lýst yfir, og þegar reynslan sýnir það svo ekki verður undan þeim dómi vikist, að það er markmið og hefur verið markmið ríkisstjórnarinnar að hlífa fyrst og fremst smælingjunum við áhrifum þeirra breytinga sem gerðar hafa verið? Stjórnarandstaðan hefur hins vegar miðað starfsaðferðir sínar, eins og í lyfjamálinu, við að gera þetta vesalings fólk hrætt, gera það óttaslegið við þær breytingar með því að þyrla upp ósannindum og moldviðri og éta fullyrðingar hver eftir öðrum sem aldrei hefur verið hægt að heimfæra upp á veruleikann. Eru það mannúðarsjónarmið að leggja sig fram um að hærða lítilmagnann, gamla fólkið, sjúklingana og aðra slíka, og nota til þess staðlausa stafi og ósannar fullyrðingar sem hver étur upp eftir öðrum? Það eru ekki mannúðarsjónarmið að mínu mati.
    Auðvitað er rétt að ræða til hlítar hvaða aðgerðir eru tiltækar þegar við stöndum frammi fyrir vandamálum eins og þeim sem við þekkjum og stjórnarandstaðan viðurkennir, a.m.k. hv. 9. þm. Reykv. þegar hann talaði hér áðan. Það er ekki tilviljun eða að ástæðulausu að við eigum nú að baki lengsta samfellda skeið stöðnunar og afturfarar í íslenskum þjóðarbúskap frá lokum heimsstyrjaldarinnar síðari. Allt frá árinu 1988 hefur hér ríkt stöðnun, ýmist stöðnun eða afturför í þjóðartekjum og landsframleiðslu. Á sama tíma og hagvöxtur annarra ríkja í kringum okkur hefur verið 3,5% og allt upp í 4% hefur hér á Íslandi annaðhvort ríkt stöðnun í þjóðartekjum og landsframleiðslu eða þjóðartekjur og landsframleiðsla hafa farið minnkandi. Við Íslendingar, sem vorum vön því, a.m.k. í sl. 15--20 ár fyrir árið 1988, að búa við stöðugan vöxt þjóðartekna og landsframleiðslu upp á allt að 6% á ári, erum nú að festast í fari stöðnunar og við sjáum ekki fram á að mjög miklar breytingar verði þar á í nánustu framtíð. Þá er mjög eðlilegt að stjórnvöld íhugi með hvaða hætti eigi að bregðast við.
    Hvernig höfum við brugðist við þessari stöðu á undanförnum árum? Við höfum ekki brugðist við þessu eins og hyggin húsmóðir mundi gera sem stjórnaði heimili þar sem útgjöldin væru þriðjungi meiri en tekjurnar eins og verið hefur hjá ríkissjóði. Við höfum ekki brugðist við með þeim hætti að reyna að samræma útgjöld okkar þeim tekjum sem þjóðin hefur til skiptanna, heldur höfum við mætt þessum tekjuvanda, eða öllu heldur útgjaldavanda, með því að slá lán erlendis, ekki bara fyrir fjárfestingum þjóðarinnar, ekki bara fyrir kaupum hennar á vélum og tækjum, skipum og flugvélum, byggingu hafna og annarra mannvirkja, vega, flugvalla. Við höfum líka slegið erlend lán fyrir daglegri neyslu þjóðarinnar, hvort heldur um er að ræða neyslu á sviði mennta- og menningarmála, heilbrigðismála eða félagsmála. Það segir sig auðvitað sjálft að hægt er að grípa til slíks úrræðis tímabundið ef þjóð er í skammvinnum öldudal og sér fram á það að innan skamms muni fjárhagurinn og afkoman aftur fara að rísa. En það er ekki hægt fyrir þjóð sem hefur lifað samfellt stöðnunarskeið frá árinu 1988 að ástunda þannig búskap til eilífðarnóns. Ástæðan er mjög einföld. Ástæðan er sú að þjóð sem þannig hegðar sér mun fljótlega missa lánstraust sitt erlendis og þegar lánstraustið er farið er sjálfsforræðið fyrir efnahagsmálum viðkomandi þjóðar um leið farið. Og ef hún missir stjórn á efnahagsmálum sínum þá er mjög skammt í það að sú hin sama þjóð missi sitt stjórnmálalega sjálfstæði. Þess eru mörg dæmi, og sum þeirra nýleg, að þannig hafi farið fyrir þjóðríkjum, vel menntuðum þjóðríkjum, eins og þjóðríkið Ísland er.
    Það er því mjög eðlilegt að menn spyrni við fótum og hugleiði það hvernig taka eigi á slíkum vanda. Það hefði þurft að gerast miklu fyrr. Þá hefðum við ekki þurft að gera ráð fyrir að borga á tíunda milljarð króna á árinu 1992 í vaxtagreiðslur af lánum ríkissjóðs eins og við þurfum að gera. Ef menn hefðu brugðist við þessum vanda þegar á árinu 1988, svo að ég tali nú ekki um ef menn hefðu farið svolítið hægar á tveimur eða þremur árunum þar á undan sem eru síðustu góðærin sem við höfum þekkt í íslenskum þjóðarbúskap fram til þeirra daga er við lifum nú.
    Töluð orð verða hins vegar ekki aftur tekin. Afgreidd fjárlög verða ekki afgreidd upp á ný. Þess vegna verðum við að horfast í augu við að þurfa á næsta ári að greiða á tíunda milljarð króna í vexti af slíkum neyslu- og eyðslulánum. Þessir rúmlega 9 milljarðar kr. hefðu verið betur komnir í velferðarkerfinu en í höndunum á innlendum og erlendum lánveitendum ríkissjóðs.
    Miklar breytingar til bóta hafa orðið á fjárlagagerð á undanförnum árum. Ein af þeim breytingum var undirbúin af fyrrv. fjmrh. og framkvæmd af núv. fjmrh. Það var að byggja gerð fjárlaga á svokölluðum fjárlagarömmum, þ.e. að samkynja viðfangsefni eru flokkuð saman, búinn til rammi, og ráðherrum síðan uppálagt að gera sínar tillögur miðað við, eins og nú var gert, óbreytta útgjaldaramma frá fyrra ári, að vísu með þeim möguleikum að hreyfa til útgjöld milli einstakra viðfangsefna innan rammans en að menn yrðu að binda sig við það að hafa

útgjöldin í heild innan viðkomandi ramma óbreytt frá árinu áður. Og einasta viðbótin sem til kæmi væri vegna nýrra laga sem Alþingi hefði sett og ekki væru komin til framkvæmda. Þetta undirbjó hæstv. fyrrv. fjmrh. og gerði það ágætlega. Þannig voru tillögur í fjárlagafrv. unnar að þessu sinni. Þegar tillögur í fjárlagafrv. voru lagðar fram af hálfu hinna einstöku fagráðherra var því miðað við óbreytta útgjaldaramma frá árinu áður, að viðbættum þeim nýju viðfangsefnum um útgjöld sem Alþingi hafði samþykkt og ekki áttu að koma til framkvæmda fyrr en á árinu 1992. Þau fjárlög sem þannig voru unnin, við þessar aðstæður, voru þess vegna allt öðruvísi en þau hefðbundnu fjárlög sem við þekkjum og lýsa sér í óskalistum einstakra ráðherra. Slík fjárlög voru ekki unnin nú heldur voru unnin rammafjárlög eins og fyrrv. fjmrh. hafði lagt grundvöllinn að. Hér var ekki um óskalista að ræða, heldur óbreytt útgjöld frá fyrra ári innan viðkomandi ramma að því einu viðbættu sem nýjar ákvarðanir Alþingis um ný útgjaldaviðfangsefni gerðu ráð fyrir.
    Þegar uppgjörið fór síðan fram milli tekna, miðað við óbreytta gjaldstofna, og útgjalda unninna samkvæmt þessum fyrirmælum og samþykktum ríkisstjórnarinnar varð niðurstaðan sú að það munaði um 20 milljörðum kr. á útgjöldum annars vegar og tekjuöflunarmöguleikum hins vegar. Slíkum mismun sópa menn ekkert undir teppið hjá sér. Því miður er það svo að í þeim mismun, í þeirri útgjaldaþörf ríkisins, er ekki tekið tillit til þeirra skuldbindinga sem á ríkissjóð hefur verið hlaðið á undanförnum árum vegna þess að það er ekki aðeins að ríkt hafi kyrrstaða í íslenskum þjóðarbúskap frá árinu 1988, þjóðarkakan hafði ekki stækkað heldur minnkað á þeim tíma. Ef svo væri, þá væri vel. En það er ekki einu sinni að svo sé vegna þess að á þessum árum hafa stjórnvöld gert tilraunir með ný atvinnuviðfangsefni sem áttu að þoka íslenskum þjóðarbúskap á veginn fram en hafa reynst myllusteinn um háls þessarar þjóðar. Er ég þá auðvitað að tala um loðdýrarækt og fiskeldi. Þann reikning erum við Íslendingar ekki enn farnir að greiða þó að við vitum nokkurn veginn hversu hár hann er. Það var ekki tekið tillit til þeirra skuldbindinga í þeim fjárhagsvanda ríkissjóðs sem ég var að lýsa áðan. Það var ekki heldur tekið tillit til annarra skuldbindinga, svo sem skuldbindinga ríkisins vegna Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna. Í Þýskalandi greiða menn 18% af launum til lífeyrissjóða. Þar greiðir viðkomandi einstaklingur 9% af launum sínum og atvinnuveitandi hans greiðir 9% á móti. Það er talið að til þess að hægt væri að standa undir skuldbindingum Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna um greiðslu verðtryggðs lífeyris með iðgjöldum þyrftu iðgjaldagreiðslur í sjóðinn að nema u.þ.b. 25% af launum viðkomandi einstaklings í staðinn fyrir 10%, þ.e. 4% frá launþega og 6% frá vinnuveitanda eins og nú. Þetta þýðir að um 70% af lífeyrisgreiðslum til lífeyrisþega sem eru félagsmenn í sjóðnum þurfa að koma beint úr ríkissjóði á hverju ári umfram það sem sjóðurinn getur. Ef Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna væri gerður upp um næstu áramót þannig að ákvörðun yrði tekin um það hér á hinu háa Alþingi að íþyngja ekki sjóðnum, eða öllu heldur ríkissjóði, með frekari skuldbindingum en þegar er búið að taka á ríkissjóð vegna Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna og sjóðurinn yrði síðan gerður upp þar sem annars vegar væru skoðaðar skuldbindingar Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna til lífeyrisgreiðslna og hins vegar eignir sjóðsins, miðað við að þær innheimtist allar og standi fyrir sínu, mundi vanta 54 milljarða kr. til þess að jafna skuldbindingar sjóðsins við eignir hans. Með öðrum orðum, ríkissjóður verður að taka á sig 54 milljarða kr. til þess að jafna annars vegar skuldbindingar og hins vegar eignir Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna miðað við næstu áramót. Árleg greiðslubyrði til þess að halda þessum skuldbindingum óbreyttum er um 4,5 milljarðar kr. Menn hafa ekki heldur tekið tillit til þessara skuldbindinga við áætlun um ríkisfjármálaútkomuna á árinu 1992. Þannig að ef menn ætluðu að horfast í augu við vandann eins og hann raunverulega er, eins og búið er að skilja hann eftir í höndunum á okkur alþingismönnum öllum, sama í hvaða flokki við sitjum, þá værum við að tala um fjárþörf á næsta ári umfram tekjur ríkissjóðs upp á 30 milljarða kr. eða um 1 / 3 hluta af samanlögðum tekjum sem við getum gert ráð fyrir að innheimta á næsta ári.
    Þetta er vandinn eins og hann er ef úttekt á skuldbindingum og útgjaldaþörf ríkissjóðs væri gerð miðað við það að hann stæði í járnum á næsta ári og bætti ekki við skuldbindingar umfram það sem á honum hvílir nú. Þetta er að kenna mörgum stjórnmálamönnum úr öllum flokkum, mörgum ríkisstjórnum skipuðum ráðherrum úr því nær öllum þingflokkunum nema þeim þingflokki sem hefur gefist kostur á stjórnaraðild a.m.k. þrisvar sinnum en hefur hafnað henni.
    Það er mjög eðlilegt að gera eins og hv. 9. þm. Reykv. gerði hér áðan að reyna að skoða hvaða möguleika menn hafa til þess að mæta slíkum vanda. Ríkisstjórnin gerir tillögur um það í fjárlagafrv. að leysa hann að nokkru en þó takmörkuðu leyti með lækkun ríkisútgjalda. Hv. þm. nefndi aðrar leiðir í þessu sambandi. Hann nefndi leiðir skattahækkana og það er sjálfsagt að skoða það. Hann nefndi þar tvö dæmi. Hann nefndi hátekjuskatt. Fyrrv. fjmrh. gerði tillögu um hátekjuskatt. Hvað skyldi tekjuskattur einstaklinga skila ríkissjóði nettó? Allur tekjuskattur einstaklinga að frádregnum barnabótum og öðrum endurgreiðslum á þeim skatti? Ætli hann gefi ekki ríkissjóði samtals um 10 milljarða kr. Ef menn eru að tala um að fjármagna alla tekjuþörf ríkissjóðs með tekjuskatti, þá þyrfti að þrefalda hann frá því sem nú er ef ætti að fara þá leiðina. Hæstv. fyrrv. fjmrh. gerði tillögur um hátekjuskatt. Sá skattur mundi hafa skilað 200--400 millj. kr. til ríkissjóðs upp í fjárvöntun, ef allt er til talið, upp á um 30 þús. millj. kr.
    Ég held að menn hljóti að sjá, hvað svo sem menn segja um þá aðferð að stórspilla núverandi einföldu staðgreiðslukerfi skatta með því að taka upp tvö þrep sem við íslenskar aðstæður mundi þýða það að menn væru að verulegu leyti horfnir frá staðgreiðslunni og farnir í eftirágreidda skatta vegna þess að svo margir Íslendingar taka laun sín frá fleiri en einum vinnuveitanda, að hátekjuþrepi er ekki hægt að koma á fót nema með eftirálagningu

skatta fyrir mjög marga einstaklinga. En jafnvel þó að menn stórspilltu núverandi staðgreiðslukerfi með slíku mundi það ekki skila nema nokkur hundruð millj. kr. upp í fjárvöntun ríkissjóðs miðað við þau áform sem menn hafa lýst um innheimtu slíks hátekjuskatts.
    Hv. 9. þm. Reykv. minntist á fjármagnstekjuskatt. Nýlega kom út skýrsla eftir efnahagsráðgjafa fyrrv. fjmrh. um álagningu fjármagnstekjuskatta. Ég minnist þess ekki að í þeirri skýrslu sé gert ráð fyrir því að fjármagnstekjuskattur, miðað við þær breytingar sem nefndin undir forustu efnahagsráðgjafa fyrrv. fjmrh. gerði ráð fyrir að gera þyrfti á eignarsköttum jafnframt, skilaði einni einustu viðbótarkrónu til ríkissjóðs. Það er ekki minnst á það í úttekt Más og nefndar hans að fjármagnstekjuskattur eigi að skila ríkissjóði einni krónu til viðbótar eftir að búið er að taka tillit til þeirra breytinga sem gera þyrfti á eignarskatti með upptöku fjármagnstekjuskatts. Þannig að ekki gerði efnahagsráðgjafi hæstv. fyrrv. fjmrh. í þeirri úttekt sinni ráð fyrir því að fjármagnstekjuskatturinn ásamt þeim breytingum sem samfara yrðu gerðar yrði veruleg tekjulind fyrir ríkissjóð.
    Hins vegar er, eins og hv. þm. væntanlega vita, gert ráð fyrir því í stjórnarsáttmála að leggja slíkan fjármagnstekjuskatt á og er stefnt að því að frv. um það efni verði unnið á árinu 1992 og slíkur skattur geti tekið gildi á árinu 1993. En ef menn ætla að fá einhverja umtalsverða fjármuni út úr slíkum fjármagnstekjuskatti skulu menn gera sér fulla grein fyrir því að það fæst ekki öðruvísi en allar vaxtatekjur séu notaðar sem álagningargrundvöllur. Ef menn fara að undanþiggja þar einhverjar tilteknar vaxtatekjur, svo sem af almennum sparnaði, sem menn taka sér gjarnan í munn og ekki er skilgreint frekar hvað er, þá eru menn jafnframt að undanþiggja svo til allt innlánsfé í bönkum og sparisjóðum landsins, því að meginuppistöðu er allt það innlánsfé almennur sparnaður. Það eru mjög fáir sem eiga mjög háa fjármuni inni á bankareikningum. Meginhlutinn af innlánsfé banka og sparisjóða er í formi almenns sparnaðar launafólks. Ef menn ætla að undanþiggja slíkan almennan sparnað fjármagnstekjuskatti þá eru menn að undanþiggja allt innlánsfé bankanna slíkum skatti.
    Menn hafa talað um að undanþiggja líka frá slíkum fjármagnstekjuskatti fjármagnstekjur lífeyrissjóðanna sem eru voldugustu peningastofnanir landsins. Ef menn undanþiggja bæði vaxtatekjur lífeyrissjóðanna og vaxtatekjur af almennum sparnaði slíkum skatti þá stendur orðið harla lítið eftir sem álagningarstofn fyrir fjármagnstekjuskatt. Og ekki afla menn mikils fjár með því.
    Menn hafa líka talað um, og það er sjálfsagt að huga að því, að spara í ríkisrekstri. Við erum að tala hér um áform ríkisstjórnar um að reyna að lækka útgjöld um 15 milljarða kr. Menn horfa mikið í því sambandi, virðulegi forseti, á Alþingi, ríkisstjórn og aðrar æðstu stofnanir þjóðfélagsins. Kostnaðurinn samtals við allar þessar stofnanir, Alþingi, ríkisstjórn, Hæstarétt, forsetaembætti, er röskur 1 milljarður kr. Við erum að tala um tilraunir til þess að lækka ríkisútgjöld á næsta ári um fimmtánfalda þá upphæð. Við erum að tala um að gera tilraun til þess að lækka ríkisútgjöld á næsta ári um jafnháa fjárhæð og varið er til allra menntamála og menningarmála á Íslandi. Menn skulu gera sér það fyllilega ljóst að menn takast ekki á við svo erfitt viðfangsefni með einhverjum óljósum yfirlýsingum um almennan sparnað og ráðdeild í ríkisrekstri. Þetta er miklu stærra viðfangsefni en svo. Menn skulu líka gera sér fulla grein fyrir því að ekki er hægt að ná árangri sem menn mæla í 10--15 milljörðum, hvað þá heldur meira, öðruvísi en að takast á við fjárfrekustu útgjaldaviðfangsefni í ríkisrekstrinum.
    Meginatriðið í því sambandi er að sjálfsögðu að varðveita kjarna velferðarkerfisins. Kjarni velferðarkerfisins er ekki sá að allir fái allt fyrir ekki neitt, heldur að þeir hafi forgang til velferðarhjálpar samfélagsins sem mest þurfa á henni að halda, þeir komist að, en aðrir sem eru betur megandi og geta bjargað sér sjálfir standi ekki í vegi fyrir þeim í biðröðinni eftir aðstoð frá opinberu velferðarkerfi.
    Það er því alveg sama hvernig menn reyna að koma sér undan því, sem Íslendingar eru meistarar í, að horfast í augu við það viðfangsefni sem við þurfum að takast á hendur. Það er alveg sama hversu menn berja oft höfðinu við steininn, hversu oft menn fara niður í fjöru að flengja sjóinn, menn breyta því ekki að það er kominn sá tími og raunar löngu kominn að íslenska þjóðin verður að horfast í augu við þá örðugleika sem að verulegu leyti eru orðnir að sjálfskaparvíti hennar. Hún verður að takast á við þau vandamál sem hún hefur að verulegu leyti búið til sjálf vegna þess að fram til þessa hefur þjóðin ekki verið reiðubúin til að takast á við þau vandamál sem við hafa blasað, heldur hefur ýtt þeim á undan sér, frestað því að takast á við viðfangsefni sitt, valið heldur léttu leiðina ljúfu, sem sé þá leið að láta erlendar lánastofnanir fjármagna fyrir sig ekki bara framkvæmdir heldur almenna neyslu.
    Hv. 9. þm. Reykv. varpaði fram nokkrum spurningum í þessu sambandi. Hann spurðist fyrir um hvernig ætti að standa að því áformi sem boðað er í fjárlagafrv. að lækka útgjöld ríkisins til greiðslu ellilífeyris. Þau mál eru nú í skoðun í heilbrrn. og er þess skammt að bíða að tillögur ráðuneytisins verði lagðar fram, vissulega fyrst í ríkisstjórn og stjórnarflokkum og síðan, ef samstaða tekst um þær tillögur, á Alþingi. Auðvitað hegða menn sér þannig eins og hæstv. fyrrv. ráðherra, hv. 9. þm. Reykv., veit. Menn ná auðvitað samstöðu um skipulagsbreytingar fyrst meðal þeirra flokka sem ætla sér að bera ábyrgð á þeim á Alþingi og leggja síðan tillögur ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna fyrir Alþingi þar sem þær eru afgreiddar. Það er ekki hygginna manna háttur að ríkisstjórn sem Alþb. á ekki aðild að leggi tillögur sínar fyrst fyrir Alþb. áður en hún fer að fjalla um þær sjálf, enda mundi vera skrítin útkoma úr slíkri tillögusmíð.
    Hv. þm. verður því að hafa biðlund eftir því að ríkisstjórnin leggi sínar tillögur fram á Alþingi. Þær munu koma fram. Þær munu hafa í för með sér einföldun á lífeyrisbótakerfinu. Þær munu hafa það í för með sér að lífeyrisbótakerfi almannatrygginga verður skoðað í samhengi við lífeyristryggingakerfi lífeyrissjóðanna þannig að

það verði fullt samspil milli þeirra réttinda sem almenningi eru tryggð, annars vegar í almannatryggingakerfinu og hins vegar í kerfi hinna frjálsu lífeyrissjóða og eytt þeirri mismunun sem þar á sér stað um greiðslur vegna ýmissa bótaflokka. Eins og kemur fram í stefnuyfirlýsingu ríkistjórnarinnar verður jafnframt miðað við að það verði meira aðlaðandi fyrir fólk að spara í lífeyrissjóðum en núgildandi kerfi gerir ráð fyrir.
    Hv. þm. spurði um sjúkratryggingar. Þar hefur ríkisstjórnin ýmis áform, svo sem að draga úr kostnaði vegna hjálpartækja, vegna tannviðgerða, vegna komu til sérfræðinga og vegna lyfjakostnaðar. Kostnaður vegna hjálpartækja hefur vaxið mjög ört á mjög skömmum tíma og mikið af þeirri kostnaðarviðbót hefur ekki orðið vegna aðstoðar við fólk sem við í daglegu tali mundum kalla sjúklinga eða fatlað fólk. Hér er um að ræða mikinn útgjaldavöxt vegna dýrra einnota hjálpartækja, svo sem þeirra sem íþróttamenn nota sem hafa brákað sig eða skaddað í leik og þurfa á slíkum einnota búnaði að halda til þess að geta tekið þátt í næsta leik sem fram fer. Þetta eru mjög dýr hjálpartæki og kosta miklar fjárhæðir sem ríkissjóður hefur alfarið greitt. Það er mjög eðlilegt ef menn athuga það hversu mikið, það skiptir hundruðum prósenta, þessi útgjaldaliður hefur hækkað á fáum árum, að menn skoði hvort eðlilegt sé að ríkissjóður greiði slíkan tækjabúnað að fullu og hvort ekki sé jafnframt eðlilegt að leitað sé leiða til þess að fá ódýrari einnota búnað með útboðum. Það verður gert og það er verið að skoða.
    Þá er einnig, eins og hv. þm. vita, búið að standa marga mánuði og mörg missiri í samningum við tannlækna og tannréttingarlækna sem ekki hafa skilað tilætluðum árangri. Það kom fram í svari við fsp. í dag að tannréttingarlæknar hafa með því að neita að skila Tryggingastofnun ríkisins vottorði yfir vinnu sína komið í veg fyrir það að stórir hópar sjúklinga geti leitað þess réttar um endurgreiðslu sem þeir eiga lögum og reglugerðum samkvæmt. Auðvitað verður ekki búið við þess konar ástand til langframa. Ríkisstjórnin mun því endurskoða þessar reglur í þeim tilgangi að tryggja að þeir sem aðstoðarinnar þurfa fyrst og fremst við geti fengið að njóta hennar og að þar verði forgangshópunum gefinn sá forgangur sem eðlilegt er að þeir hafi.
    Hv. þm. spurði sérstaklega um lyfjakostnaðinn og það er sjálfsagt að veita honum nokkur svör við því. Í fjárlögum yfirstandandi árs er gert ráð fyrir að greiddir séu 2,3 milljarðar vegna útgjalda sjúkratrygginga við lyfjakostnað. Það er 300 millj. kr. lægri fjárhæð en greidd var samkvæmt ríkisreikningi fyrir árið 1990 vegna þessa kostnaðar. Í grg. með fjárlagfrv. fyrir yfirstandandi ár er m.a. sagt að þessari lækkun eigi að ná fram með breyttum reglum um hlutdeild sjúklinga í lyfjakostnaði. Það var ein af þremur aðferðum sem upp var talin að fráfarandi ríkisstjórn ætlaði að beita sér fyrir. Hún gerði það hins vegar ekki. Þegar stjórnarskipti urðu og ég lét gera athugun á því í heilbrrn. hverjar horfur væru með útgjöld sjúkratrygginga vegna lyfjakostnaðar kom í ljós að útgjöld vegna lyfjakostnaðar stefndu í 2,8--3,1 milljarð króna á árinu 1991. Eða 500--800 millj. kr. fram yfir það sem fjárlög gerðu ráð fyrir.
    Þann 1. okt. sl. var hins vegar búið að greiða í Tryggingastofnun ríkisins 1 milljarð 733 millj. kr. vegna lyfjakaupa. Um mitt ár, þann 1. júní, var búið að greiða rúmlega 1,4 milljarða vegna lyfjakostnaðar hjá sjúkratryggingum og þá stefndi kostnaðurinn í, eins og ég sagði áðan, 2,8--3,1 milljarð. Um síðustu mánaðamót var búið að greiða 1 milljarð 733 millj. kr. og ekki nema þrír mánuðir eftir af árinu. Þær aðgerðir sem gripið var til um mitt árið virðast því ætla að tryggja það að útgjöld sjúkratrygginga vegna lyfjakostnaðar fari ekki mikið umfram það, þó ég vilji ekki fullyrða meira á þessu stigi, sem fjárlög síðustu ríkisstjórnarinnar heimiluðu þáv. hæstv. heilbrrh. að greiða vegna lyfjaútgjalda sjúkratrygginga. Það væri því frekar ástæða fyrir fráfarandi ráðherra að lýsa ánægju sinni með það að fjárlögin sem þeir báru ábyrgð á skyldu vera nálægt því að standast að þessu leyti og væri betra að svo væri um fleiri útgjaldaviðfangsefni.
    Útgjöld sjúkratrygginga vegna lyfjakostnaðar fyrir mánuðina júlí, ágúst og september eru á þriðja hundrað millj. kr. lægri en þau voru fyrir sömu mánuði í fyrra. Í heilbrrn. var áætlað að þær aðgerðir sem gripið var til með útgáfu reglugerðarinnar sem gildi tók þann 1. júlí gætu skilað á heilu ári 300--350 millj. kr. í lækkuð útgjöld vegna sjúkratrygginga. Á þremur mánuðum er árangurinn orðinn nokkuð yfir 200 millj. kr. og virðist niðurstaðan ætli að verða sú sama og ráð var fyrir gert í afgreiddum fjárlögum.
    Auðvitað má gera ráð fyrir því þegar menn leggja af stað með svo róttækar aðgerðir að menn séu undirbúnir undir það að gera einhverjar leiðréttingar á leiðinni að hinu endanlega markmiði í ljósi reynslunnar. Það höfum við gert í heilbrrn. og ég skammast mín ekkert fyrir það. Það hefði hins vegar verið ástæða til að átelja heilbrrh. sem ekki hefði framkvæmt slíkar leiðréttingar í ljósi reynslunnar. En til allrar hamingju voru þær leiðréttingar sem við þurftum að gera á reglugerðinni minni háttar leiðréttingar samkvæmt ábendingum lækna og stöfuðu þær fyrst og fremst af flokkun lyfja, þ.e. að í stað lyfja sem notuð voru við tilteknum ofnæmissjúkdómum eða vegna óþols gegn þeim lyfjum sem almennt voru notuð tóku menn í einstaka tilvikum önnur lyf sem höfðu sambærilega verkun en voru gefin við öðrum sjúkdómum en þau lyf voru gefin við sem t.d. voru undanþegin greiðsluskyldu. Í nokkrum tilvikum komu upp slíkar ábendingar frá læknum sem tillit var tekið til. Í öðrum atriðum komu upp ábendingar, t.d. þær sem má segja að séu mistök og kannski hefði mátt sjá fyrir. Eins og hv. 9. þm. Reykv. sagði áðan voru nokkur ofnæmislyf gefin sem neflyf en ekki flokkuð undir sama flokk og sambærileg ofnæmislyf sem gefin voru sem munnlyf. Það var ósköp eðlilegt að slík mistök gætu átt sér stað. Þau voru leiðrétt örfáum dögum eftir að reglugerðin var gefin út. Mér finnst ekkert óeðlilegt að heilbrrh. grípi til slíkra aðgerða til að leiðrétta ráðstafanir sem hafa verið undirbúnar af hans ráðuneyti. Mér hefði fundist óeðlilegt ef hann hefði ekki gert það.
    Hv. þm. tók dæmi um dýr sýrubindandi lyf á lausakaupalista sem eru dýrari en sýruhemjandi lyf sem eru

veitt gegn lyfjaskírteini. Ódýrasta sýrubindandi lyfið er nú gamla Gelusilið, sem er svo ódýrt að það er hætt að selja það í mörgum apótekum, meira að segja í mörgum stórum apótekum, því menn telja það varla borga sig að versla með svo ódýrt lyf. Menn geta því fengið mjög ódýr lyf, hv. 9. þm. Reykv., sem gera það gagn sem hv. þm. var að lýsa hér áðan. Menn geta náttúrlega líka fundið mjög dýr lyf með sambærilegri verkan.
    Tilgangur reglugerðarinnar var að ýta frekar undir neyslu ódýrra lyfja en dýrra þar sem ódýru lyfin gerðu sama gagn. Það kemur m.a. fram í því að verð á hverri lyfjaávísun hefur lækkað úr 2.400--2.600 kr. í 2.200--2.300 kr. og lækkunin er eingöngu vegna þess að menn eru nú farnir að ávísa á ódýr lyf fremur en dýr þar sem ódýru lyfin koma að sama gagni. Er það af hinu illa? Er það af hinu illa að lyfjaneyslan skuli á þremur mánuðum falla um á milli 22 og 25% án þess að það sé merkjanlegt að neinn bíði skaða af?
    Á Íslandi var lyfjaneysla á einstakling kominn í yfir 20 þús. kr. á ári á sama tíma og í Danmörku, þar sem lyf kosta álíka mikið og á Íslandi --- Danmörk er eina landið í Vestur-Evrópu þar sem lyf eru álíka dýr og á Íslandi --- var lyfjaneysla um 13.600 ísl. kr. á mannsbarn á ári. Er það einhver goðgá að huga að því að lækka lyfjareikning íslensku þjóðarinnar til móts við það sem gerist og gengur í nágrannalöndunum? Ég tel svo ekki vera.
    Hæstv. fyrrv. ráðherra beitti sér hins vegar fyrir því í sinni ráðherratíð í heilbrrn. að gera aðra tilraun. Hann vildi gera það meira aðlaðandi að menn neyttu frekar innlendra lyfja en erlendra þar sem bæði gerðu sama gagn. Hvernig fór hæstv. þáv. ráðherra að því? Ég er viss um að þingmenn eru forvitnir að heyra það. Hann heimilaði apótekurunum að hafa hærri álagningu á innlendu lyfin en þau erlendu vegna þess að hann taldi að þá mundu apótekararnir frekar selja neytendum lyfin. Þannig að hæstv. þáv. ráðherra heimilaði apótekurum að leggja á innlend lyf yfir 80% í smásölu. ( Gripið fram í: Hvaða ráðherra var þetta?) Þetta var hv. 9. þm. Reykv. þegar hann var ráðherra. Þá heimilaði hv. 9. þm. Reykv., sem þá var að mig best minnir formaður Alþb. eða um það bil að verða formaður Alþb., apótekurum að leggja yfir 80% meira á lyf framleidd innan lands en erlend því að þannig taldi hann líklegast að auka --- hvað sagði hann áðan þegar hann var að vitna í hinn erlenda fræðimann, markaðsaðgengi íslenskra lyfja á kostnað þeirra erlendu með því að leyfa apótekurunum að fá meira fyrir að selja þau en innfluttu lyfin.
    Þetta var markaðsfræðin hjá hv. 9. þm. Reykv. þegar hann sat í heilbrrn. Hann var þá ekkert að hugsa um neytendurna. Hann var ekkert að hugsa um að hvetja til neyslu innlendra lyfja með lægra vöruverði. Honum datt ekki í hug að taka tillit til sjónarmiða þeirra sem áttu að neyta lyfjanna. Nei, hans markaðslausn fólst í því að heimila apótekurum að hafa meiri tekjur af því að selja innlend lyf en erlend. Ef apótekararnir myndu fá meira í vasann þá mundu þeir sjá til þess að sjúklingarnir tækju frekar innlendu lyfin en þau erlendu. Þess vegna var sú furðulega staða um nokkurt árabil í verðlagningu og álagningarmálum lyfja sem hv. þm. Guðmundur Bjarnason afnam, eigi hann heiður fyrir það. En þess vegna var sá háttur hafður á nokkuð lengi að apótekarar máttu leggja yfir 80% í smásölu á innlend lyf á sama tíma og þeir máttu ekki leggja nema um 70% á lyf ef þau voru keypt erlendis frá. Þetta var gert til þess að auka söluna á innlendum lyfjum.
    Ég er hins vegar alveg sammála hv. þm. í því að það hefði mátt skoða það betur þegar ýmis verkefni á sviði heilbrigðismála voru flutt frá sveitarfélögum alfarið yfir til ríkisins. Eins og nú standa sakir hafa heilsugæslustöðvar og sjúkrahús undir stjórn þar sem heilbrrn. og ríkisvaldið greiða reikninginn ekki nema tiltölulega lítið svigrúm til að hafa áhrif á þær ákvarðanir sem teknar eru af viðkomandi stjórnum. Það er líka búið að undanþiggja svokallaða fulltrúa sveitarstjórna ábyrgð á rekstri þessara stofnana gagnvart sínum sveitarstjórnum vegna þess að sveitarstjórnirnar eiga ekki lengur beina aðild að umræddum rekstri. Niðurstaðan hefur því miður orðið sú að stjórnir margra þessara stofnana hafa verið að taka ákvarðanir um viðfangsefni, um samninga við einstaka aðila, um kaup, um ráðstöfun fjármuna, án þess að starfa þar, hvorki á ábyrgð sveitarfélaganna né ríkisins sem reikninginn borgar. Og auðvitað er það ekki besta fyrirkomulag sem hægt er að hugsa sér að aðrir taki ákvarðanir um útgjöldin en þeir sem eiga að greiða reikninginn.
    Þá hefur einnig komið í ljós að, að minnsta kosti síðustu missirin áður en verkaskiptingin gekk í gildi, héldu sveitarstjórnir vissulega að sér höndum í sambandi við mannaráðningar á heilsugæslustöðvar þannig að þrátt fyrir að hæstv. fyrrv. ráðherra hafi verið mjög rýmilegur þegar flutningurinn varð á heilsugæsluviðfangsefnunum frá sveitarfélögum til ríkisins í sambandi við mannaráðningar komu upp óskir á þessu sumri um á milli 80 og 90 ný stöðugildi í heilsugæslu.
    Það er alveg ljóst að útgjaldaþrýstingurinn á ríkissjóð vegna heilsugæslunnar og annarra viðfangsefna sem ríkissjóður fjármagnar nú einn í heilsugæslunni verður mjög mikill. Það er vissulega full ástæða til að huga að því að gera þær breytingar á stjórnun sjúkrahúsa og heilsugæslustofnana og ýmsum viðfangsefnum að þeir sem eiga að greiða reikninginn hafi jafnframt aðstöðu til þess að hafa úrslitaáhrif um þær ákvarðanir sem teknar eru. Það er líka mjög eðlilegt að sveitarfélögin verði gerð samábyrg um þessa útgjaldaþætti með einhverjum hætti. Ég er alveg sammála hv. 9. og 13. þm. Reykv. um þessi efni.
    Virðulegi forseti. Ég tel að ég hafi svarað flestu því sem hv. 9. þm. Reykv. spurði að. Við munum eiga kost á því að koma að þeim málum aftur síðar, ekki einu sinni heldur oft, vegna þess að það verður að sjálfsögðu að leggja fram ýmis lagafrv. tengd þeim breytingum sem ríkisstjórnin áformar og gerir grein fyrir í grg. fjárlaga. Mönnum mun þá gefast kostur á að ræða þessi mál hvert fyrir sig. Ég tel að ég sé búinn að svara öllum spurningum hv. 9. þm. Reykv., utan tveggja atriða sem hann minntist á.
    Hann spurði m.a. um skólagjöldin, hvernig ríkisstjórnin hygðist standa að töku skólagjalda. Ég spyr hæstv. ráðherrann á móti: Hvernig fór hann að því? Í valdatíð hans í menntmrn. voru tekin skólagjöld sem samsvöruðu, ef mig minnir rétt, um 300 millj. á ári. Þessi skólagjöld voru afskaplega misjöfn eftir skólum. Í hans ráðherratíð fengu sumir skólar leyfi hans til að taka mjög há skólagjöld. Aðrir fengu leyfi til að taka lægri. Sumum skólum var látið eftir átölulaust af hans hálfu að taka gjöld af nemendum fyrir ýmsa þjónustu, svo sem pappírskaup, ljósritun o.fl., sem öðrum heimilaðist ekki. Ég held að það væri mjög ákjósanlegt að spyrja hv. 9. þm. Reykv. fyrst: Hvernig var þetta heimilað í hans ráðherratíð? Hvaða afskipti hafði hæstv. ráðherra af því? Ég trúi því ekki að hæstv. ráðherra hafi verið ókunnugt um þetta. ( SvG: Ég mun svara þessu.) Ég trúi því að hæstv. fyrrv. ráðherra hafi gert sér það fyllilega ljóst að ýmsir sérskólar voru að verulegu leyti kostaðir af skólagjöldum. ( SvG: Nóg er nóttin.) Með heimild hæstv. ráðherra fyrrv. sjálfs. ( SvG: Við ræðum þetta í nótt.)
    Um einkavæðinguna. Það vill svo til að hún stendur nærri hv. 9. þm. Reykv. um þessar mundir. Hann hefur skýrt okkur frá því í viðtölum í blöðum og sjónvarpi að nú standi yfir einkavæðing á sjálfu höfuðmálgagni Alþb., Þjóðviljanum og tilgangurinn sé sá að auka, nú skulum við enn nota sérfræðimálið, markaðsaðgengi Þjóðviljans og gera hann þannig úr garði að hann verði eftirsóknarverður til kaupa á almennum markaði. ( SvG: Hvernig er ungbarnaeftirlitið?) Nú stendur það til af hæstv. fyrrv. ráðherra, hv. 9. þm. Reykv., að einkavæða Þjóðviljann. Ég segi alveg eins og er að ef sú tilraun hans ber árangur og hann getur einkavætt Þjóðviljann þannig að hann öðlist gott markaðsaðgengi og verði aðlaðandi vara til kaupa á íslenskum fjölmiðlamarkaði, þá held ég að þar með sé fundinn sá deildarstjóri einkavæðingardeildar ríkisstjórnarinnar sem hv. 9. þm. Reykv. var að lýsa eftir. Því það er sannkallaður kraftaverkamaður sem getur áorkað því að einkavæða Þjóðviljann með þeim hætti að hann öðlist af sjálfsdáðum 20.000 kaupendur á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Þá þurfum við, virðulegi forseti, ekki að leita lengra. Þá er hv. 9. þm. Reykv. sjálfsagður deildarstjóri einkavæðingardeildar ríkisstjórnarinnar.