Fjárlög 1992

12. fundur
Þriðjudaginn 22. október 1991, kl. 22:56:00 (381)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
     Virðulegi forseti. Það er farið að líða á kvöld þó nóttin sé enn þá ung og ráðherrar hressir og málglaðir. Ég ætla ekki að tala lengi. Það sem mig langar að taka fyrir er í fyrsta lagi forsendur fjárlagafrv., síðan ætla ég að koma inn á mennta- og menningarmál og í lokin tala aðeins um Lánasjóð ísl. námsmanna og Evrópska efnahagssvæðið.
    Mig langar til að byrja á að þakka fjmrh. fyrir að hafa ekki verið að leggja hornsteina því sá steinn hefði lent í þeirri hrúgu sem liggur eftir fyrri fjmrh. og ráðherrana sem komu á undan honum. Að mínum dómi er þetta frv. sem hér liggur fyrir ekki á traustari grunni byggt en þau frv. sem við höfum séð undanfarin ár.
    En margt má læra af reynslunni og eitt af því sem hæstv. fjmrh. mætti læra af forvera sínum er það að fara ekki svona geyst af stað eins og við höfum hér dæmi um. Fyrrv. hæstv. fjmrh. hætti að mestu erlendum lántökum og kveikti þar með mikið samkeppnisbál á íslenska lánamarkaðnum. Ég held að hæstv. fjmrh. ætti að læra af þessu og að skynsamlegra væri að ná ríkishallanum niður í áföngum, skref fyrir skref, því að snöggar og vanhugsaðar aðgerðir geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Til eru aðrar leiðir til að ná hallanum niður.
    Svo ég víki aðeins að forsendum frv. þá er það einkum tvennt sem veldur áhyggjum. Annars vegar það að inn í forsendur frv. er reiknað eitt stykki álver. Það er ljóst að ef af álversframkvæmdum verður mun það hafa töluverð áhrif á íslenskt efnahagslíf. En hvað gerist ef þær framkvæmdir fara ekki í gang? Ég hef verið að reyna að spyrja þá sérfræðinga sem við höfum fengið í heimsókn í efh.- og viðskn. og mönnum er svarafátt. Hitt atriðið er að í þessu frv. er ekki reiknað með neinum launahækkunum. Ég held að þetta sé mikið óraunsæi, enda er þetta spurning um samninga. Þetta er spurning um samninga við opinbera starfsmenn og ýmsa þá sem vinna fyrir ríkið. Og ég spyr aftur: Hvað gerist ef samið verður um einhverjar launahækkanir? Hvaða áhrif mundi það hafa á ríkisfjármálin?
    Ríkisstjórnin boðar það að hún ætli að endurskoða sína starfsmannastefnu og ráða fólk án þeirra lífeyrisréttinda sem opinberir starfsmenn njóta nú. Þetta er líka samningsatriði. Og ég vona að hæstv. ráðherra geri sér grein fyrir því að þegar samningar fara í hönd þá verða menn að mætast einhvers staðar á miðri leið.
    Ríkisstjórnin boðar ýmsar aðferðir til að ná niður ríkisútgjöldum og á bls. 244 í fjárlagafrv. segir að við hafi blasað þrjár leiðir. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Í fyrsta lagi að hækka skatta. Annar möguleiki var að beita hefðbundnum niðurskurði og skerða þjónustu til dæmis með því að loka í stórum stíl sjúkrahúsdeildum og skólum. Þriðji möguleikinn var að fjármagna hluta starfseminnar með þjónustugjöldum.`` Og það var síðasta leiðin sem valin var.
    Þessi ríkisstjórn valdi þá leið að hækka ekki beina tekjuskatta. Hún ætlar ekki að leggja á hátekjuskatt, hún ætlar ekki að leggja á lúxusskatta og mér heyrðust vera miklar vöflur á hæstv. heilbrrh. hér áðan varðandi skatt á fjármagnstekjur þó ég voni svo sannarlega að það verði reynt að leggja á slíkan skatt því að það er algert einsdæmi að hér skuli fólk geta haft milljóna tekjur af fjármagni án þess að borga af því nokkurn skatt.
    En það eru ýmsar fleiri leiðir til og ég vil enn og aftur benda hæstv. heilbrrh. á það að ef menn vilja ná niður útgjöldum í heilbrigðiskerfinu þá tel ég að besta leiðin til þess sé að leggja áherslu á fyrirbyggjandi heilsugæslu. Það tekur tíma en það skilar miklum árangri.
    Ríkið fer ýmsar leiðir í öflun tekna og eitt af því sem boðað er er sala ríkisfyrirtækja. Ég tel að þetta sé mjög ótrygg tekjuöflun. Ef ég man rétt þá er í frv. reiknað með að þetta skili u.þ.b. milljarði. En þarna hlýtur að vera um býsna ótryggan tekjustofn að ræða. Það hafa komið fram listar um það hvaða fyrirtæki á að selja og það er

nefndur ýmiss konar vandi sem við er að glíma. Ég vil af því tilefni spyrja hæstv. fjmrh. hvort honum hafi ekki komið til hugar að selja bara þetta vandamál, flugstöðina. ( Fjmrh.: Viltu kaupa?) Ég vil ekki kaupa, en þið hafið svo mikla trú á því að menn vilji kaupa ríkisfyrirtæki. Ég legg til að þið reynið að selja flugstöðina.
    Það er boðað að stjórnin ætli ekki að auka skatta og menn geta deilt um það hvað eru skattar og hvað eru ekki skattar. En svo mikið er víst að með þessu frv. er verið að auka álögur á fólk, almenning í landinu, og það er fyrst og fremst gert með þjónustugjöldum og skólagjöldum, og síðan með því að stofnanir afli sér sértekna. Enn og aftur hef ég miklar efasemdir varðandi sértekjur. Þegar við vorum að ræða fjáraukalögin þá nefndi ég Þjóðskjalasafnið og hæstv. fjmrh. upplýsti það að þeirri stofnun væri ætlað að selja þjónustu. Ég lét mér ekki til hugar koma að þessi ríkisstjórn ætlaði að fara að beina ríkisfyrirtækjum út í samkeppni við fyrirtæki á frjálsum markaði, enda eru þetta nú ekki miklar tekjur sem Þjóðskjalasafnið á að afla sér. En ég hef grun um að það gildi svipað um ýmsar aðrar stofnanir, að þeim sé ætlað að afla sér meiri sértekna en raunhæft er. Þar vil ég nefna t.d. Tilraunastöðina á Keldum.
    Einn liður í þessum niðurskurði ríkisins er sá að tekjutengja, tekjutengja barnabætur, tekjutengja vaxtabætur enn meira en orðið er og að skoða sjómannaafsláttinn. Mig langar aðeins að koma nánar inn á þetta fyrirbæri tekjutengingu. Eftir því sem ég best veit leituðu menn til Bretlands þegar var verið að byggja upp íslenska tryggingakerfið. Ég held að ég fari rétt með að það hafi verið byggt á svokallaðri Beverage-áætlun sem var kynnt á stríðsárunum í Bretlandi og vakti gífurlega athygli. Hún gekk út á það að koma á mörgum tegundum trygginga sem náðu til fólks alveg frá vöggu til grafar. Það var m.a. styrkur til greftrunar, sem var nú aldrei komið á hér. En þetta kerfi byggðist á því að fólk átti að borga ákveðin iðgjöld. Slíku kerfi var komið á hér en síðan gerðist það að þessi iðgjöld voru innlimuð í skattkerfið og í rauninni erum við enn að borga okkar iðgjöld í gegnum skattkerfið. Þess vegna er ég ákaflega ósátt við það þegar ráðherrar, sérstaklega ráðherrar Alþfl., sem ættu nú að þekkja sögu trygginganna öðrum betur, eru sífellt að tala hér um ókeypis þjónustu. Hæstv. heilbrrh. sagði hér áðan að allir fái allt fyrir ekki neitt. Ég mótmæli svona málflutningi. Það er ekki hægt að segja þetta við fólk sem er búið að borga sín gjöld áratugum saman og á þar af leiðandi inni, það á inni hjá ríkinu upphæðir, sínar tryggingabætur, og rétt á því að fá hina svokölluðu ókeypis þjónustu, þ.e. að þurfa ekki að greiða fyrir sjúkrahúsvist og að greiða takmarkaðan lyfjakostnað. Þess vegna finnst mér þetta villandi ummæli. Tekjutenging getur vissulega átt rétt á sér í vissum tilvikum. En spurningin er: Er verið að greiða fólki eða er verið að taka tillit til þess að fólk hafi borgað inn í kerfið eða er verið að tala þarna um einhvers konar tekjujöfnun? Þetta er hlutur sem þarf að skoða mjög rækilega. Tekjutenging má ekki bitna á þeim sem hafa borgað sín gjöld áratugum saman.
    Enn og aftur langar mig að nefna það sem ég kom að hér í upphafi, að menn fari ekki of hratt í svona miklar breytingar. Þar má minna á hugmyndir hagfræðingsins Keynes um hlutverk ríkisvaldsins í því að halda uppi vinnu því að allar svona --- ja, ég vil ekki kalla þetta róttækar aðgerðir en allar mikilvirkar aðgerðir geta haft afleiðingar sem enginn sér fyrir. Þess vegna eiga menn að vanda sig vel og taka eitt skref í einu. Þegar við horfum á ástandið í dag, hæstv. heilbrrh., þá er það sem mér finnst skipta öllu máli það að halda uppi vinnu í landinu. Það er algjört grundvallaratriði að við höldum uppi vinnu í landinu og að ríkið gangi ekki á undan með aðgerðum sem geta orðið til þess að skapa atvinnuleysi.
    Ég ætla aðeins að víkja að skólamálum og koma þar inn á skólagjöld sem hér voru rædd áðan. Mér finnst gæta mikils misskilnings í umræðunni um skólagjöld. Það eru innheimt gjöld í skólum landsins að upphæð u.þ.b. 300 milljónir. En megnið af þessum gjöldum fer til félagsstarfa nemenda. Það er aðeins lítið brot sem rennur til skólanna og það eru undantekningar að þessi gjöld standi undir rekstri skóla. Það gildir að vísu annað um svokallaða sérskóla, einkaskóla og fullorðinsfræðslu. Þannig eru þau skólagjöld sem nú er verið að tala um algjör nýlunda. Þau eru nýlunda að því leyti að nú eiga nemendur að fara að standa undir rekstri skólanna. Samkvæmt fjárlagafrv. er áætlað að innheimta 128 millj. kr. í framhaldsskólum landsins og síðan allt að 17.000 kr. á nemanda í háskólum. Svona hugmyndum hafna ég algjörlega. En ég ítreka þá spurningu sem fram kom hér fyrr í dag um það hvernig skiptingu þessara gjalda skuli háttað og hvernig innheimtan á að fara fram. Hvernig á að framkvæma þetta?
    Varðandi skólana kom það í ljós á síðasta ári að útgjöld framhaldsskólanna voru stórlega vanáætluð og sem sést á síðasta frv. til fjáraukalaga, sem nú er til skoðunar hér í þinginu. Þá þurfti að sækja um 150 millj. kr. aukafjárveitingu eingöngu vegna kennslu. Ég hef aðeins verið að skoða nokkra skóla samkvæmt þessu fjárlagafrv. og ég get ekki betur séð en að það sé verið að framreikna rangar áætlanir. Mig langar að biðja fjmrh. að skoða þetta svolítið betur. Ég óttast að þarna sé verið að leika sama leikinn, að þessi útgjöld til framhaldsskólanna standist ekki og að það verði farið fram úr sem verður þá að bjarga með aukafjárveitingu á næsta ári nema sá varnagli dugi sem sleginn er í frv., sem segir að ef menn ekki ná þessum tekjum inn, sértekjum, þá skuli verða samdráttur í kennslu. Ég hefði gaman af að sjá hvernig sá samdráttur á að fara fram í yfirfullum framhaldsskólum landsins.
    Mig langar aðeins að nefna nokkrar menningarstofnanir. Það hefur lítið verið talað um menningu hér í dag, það var reyndar minnst á Þjóðminjasafnið rétt áðan. Hús Þjóðminjasafnsins er ákaflega illa á sig komið og þar hafa nokkrar viðgerðir verið í gangi. En samkvæmt þessum fjárlögum er áætlað að Þjóðminjasafnið fái 10 millj. kr. til viðgerða. Það er augljóst mál að þetta dugar hvorki til eins né neins. Fjárveiting til Þjóðminjasafnsins er lækkuð um 8%. Ég verð að lýsa því hér sem minni skoðun, og hef af því reynslu sem kennari að hafa oft og iðulega heimsótt þessa stofnun, að mér finnst Þjóðminjasafnið orðið forngripur, algjör forngripur. Þetta er svo gamaldags og úrelt safn að það er sorglegt. Þeir sem hafa heimsótt þjóðminjasöfn í öðrum löndum þar sem dregin er fram saga og menning þjóða á mjög lifandi og skemmtilegan hátt, tárast þegar þeir koma inn í þessa stofnun sem á svo sannarlega skilið að hún verði endurskoðuð og endurskipulögð. Og ég skora á hæstv. fjmrh. að skoða Þjóðminjasafnið alveg sérstaklega.
    En það má líka geta þess sem gott er og ég fanga því alveg sérstaklega að loksins á að fara að setja kraft í það að ljúka Þjóðarbókhlöðunni og var löngu orðið tímabært, enda búið að nota það fé sem til hennar átti að fara í allt annað, sem náttúrlega er hneyksli.
    Hins vegar verð ég líka að nefna það að ýmsar sjálfstæðar listastofnanir fara mjög illa út úr fjárlögum þessa árs. Þar er sérstaklega að nefna Listasafn Sigurjóns Ólafssonar en fjárveiting til þess er skorin niður um 62%. Svo vil ég nefna þá merku stofnun Kvennasögusafnið sem er skorin niður um 33%. Ég verð að segja það að mér finnst það merka framtak ekki eiga þessa meðferð skilið. Það má líka nefna byggðasöfnin í landinu. Framlög til þeirra eru skorin niður um 18%. Í tengslum við þetta vil ég sérstaklega nefna það að mér hefur verið sagt að byggðasafn og hús sem er í vörslu byggðasafnanna og ýmsir gamlir bæir eins og t.d. Glaumbær í Skagafirði, sem er ómetanlegt safn og merkilegt, þarfnist viðgerðar og safnmenn eru mjög áhyggjufullir vegna ástandsins þar og víðar.
    Menningarsjóður er skorinn niður um 58%. Ég vildi gjarnan spyrja hæstv. fjmrh.: Hvað er þar á ferð? Það kemur fram að það eigi að endurskoða lögin um Menningarsjóð. Ég vil nefna það að Menningarsjóður hefur gegnt ákveðnu hlutverki, hann hefur gefið út m.a. fræðibækur sem seljast á löngum tíma og hafa kannski ekki þótt spennandi fyrir hinn harða markað. Þar af leiðandi óttast ég um sérstakar fræðibækur sem hægt hefur verið að koma út í gegnum þessa ríkisútgáfu. Varðandi Menningarsjóð þá er þar dæmi að finna um enn einn tekjustofninn sem hefur verið notaður í eitthvað annað og það gildir um ýmsar aðrar stofnanir sem hafa orðið að sjá af sínum fjárframlögum til annarra hluta. Virðist yfirleitt vera lítið mark tekið á því þegar tekjustofnar eru markaðir ákveðnum verkefnum.
    Þá vil ég loks nefna það að sú breyting er gerð að styrkjum til frjálsrar leikstarfsemi er safnað í einn sjóð en það þýðir að frjálsir leikhópar verða nú að hljóta náð fyrir augum nefndar sem úthlutar þessum peningum. Leikarar Alþýðuleikhússins hafa lýst yfir miklum áhyggjum vegna þessa og sjá ekki fram á annað en að verða að hætta sinni rótgrónu starfsemi.
    Þá vil ég aðeins fara nokkrum orðum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Umræða um hann mun fara fram hér innan skamms þannig að ég ætla ekki að fara út í þær breytingar sem þar er von á. En það verður ekki annað sagt en það séu fyrst og fremst stjórnvöld sjálf sem hafa búið til vanda í kringum Lánasjóðinn með því að gera sjóðnum að taka lán á vöxtum en hann lánar síðan fé út vaxtalaust. Þetta er enn eitt dæmið um vanda sem hefur verið búinn til. Þetta er svipaður vandi og Byggingarsjóður ríkisins stóð frammi fyrir og Byggingarsjóður verkamanna stendur frammi fyrir núna. Þetta ástand hefði ekki komið upp ef ríkið hefði staðið við sitt. Ég verð að lýsa því sem minni skoðun að menntun þjóðarinnar er svo mikilvæg að framlög til hennar á ekki að skerða. Að mínum dómi er það fyrst og fremst ríkisins að sjá til þess að Lánasjóður ísl. námsmanna fái það fjármagn sem hann þarf á að halda, en það þýðir ekki að það megi ekki breyta úthlutunarreglum og skilgreina hlutverk sjóðsins upp á nýtt.
    Hér í dag spurði ég hæstv. forsrh. um það hvort einhverjar áætlanir lægju fyrir um þann kostnað sem fylgja mun samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Það var fátt um svör. Ég verð að segja það að ég er ákaflega ósátt við svona stjórnarhætti, ef menn eru að undirbúa samninga sem fela í sér miklar breytingar að þeir reyni þá ekki á nokkurn hátt að gera sér grein fyrir því hvaða breytingar og hvaða kostnað slíkir samningar hafa í för með sér. Ég ætla að nefna það að á fundi landbn. í morgun kom það fram hjá fulltrúum landbrn., sem voru í heimsókn hjá nefndinni, að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði mundi kalla á mikla vinnu í ráðuneytinu. Þess vegna vil ég ítreka þessa spurningu og beini henni nú til hæstv. fjmrh.: Er í þessu fjárlagafrv. reiknað með kostnaði vegna samninganna um Evrópskt efnahagssvæði? Og þarf ekki að gera ráð fyrir þeim kostnaði og jafnvel auknum kostnaði í því frv. sem hér liggur fyrir og jafnvel leggja þá fram viðaukatillögur um það? Stjórnarhættir eins og þessir, að menn séu að gera svona mikla og ítarlega samninga án þess að reikna út kostnaðinn, kunna ekki góðri lukku að stýra.
    Það eru mín lokaorð til ríkisstjórnarinnar að menn reyni að temja sér það í framtíðinni að horfa meira á samfélagið og hlutverk ríkisins í samhengi. Að spyrja um orsakir og afleiðingar. Því að við erum svo oft búin að lenda í því að taka ákvarðanir, samþykkja breytingar, án þess að gera okkur grein fyrir því hvaða afleiðingar þær breytingar hafa. Slíkt sýnir ekki mikla stjórnvisku.