Fjárlög 1992

12. fundur
Miðvikudaginn 23. október 1991, kl. 00:28:00 (384)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Ég held ég verði að biðja forseta að kanna hvort hæstv. heilbr.- og trmrh. gæti komið hingað og hlýtt á mál mitt og sömuleiðis hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður þingflokks Alþfl., og gera ráðstafanir til að kalla þá hingað í umræðuna þannig að hún geti haldið áfram með eðlilegum hætti og hér megi verða skoðanaskipti og upplýsingaskipti sem óhjákvæmileg eru í umræðum sem byggjast á lýðræði og þingræði og forsendum þess. ( Forseti: Forseti mun gera ráðstafanir til þess að hæstv. heilbrrh. komi í salinn, hann mun vera hérna í húsinu. Hins vegar er hv. þm. Össur Skarphéðinsson ekki í húsinu.) Ég þakka hæstv. forseta fyrir að gera

ráðstafanir til þess að kalla hingað hæstv. heilbr.- og trmrh. og jafnframt að láta í ljósi djúpan harm yfir því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson skuli ekki vera í húsinu og finnst mér það satt að segja nokkuð slök frammistaða hjá þingmanni á sínu fyrsta þingi og auk þess leiðtogi annars stjórnarflokksins að nenna ekki að vera hérna aðeins fram yfir miðnætti þegar verið er að tala um fjárlagafrv. Ég er hræddur um að það verði orðið feyskið og þreytt stjórnarliðið þegar líður á kjörtímabilið ef menn eru þegar farnir að leggja upp tærnar í fyrstu fjárlagaumræðunni sem þeir taka þátt í. Greinilegt er að menn hafa ekki gert sér grein fyrir því áður en þeir tóku á sig það mikilvæga trúnaðarstarf að vera formenn í þingflokkum að það þýðir að menn þurfa að vinna fyrir kaupinu sínu og vaka þó að taxtinn sé örugglega lægri en hjá Reykvískri endurtryggingu eða hvað það nú hét fyrirtækið sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson vann hjá um skeið við að leggja ráð um tryggingar á löxum. Þar hafa taxtarnir örugglega verið betri en hjá hv. þm. Geir Haarde, formanni þingflokks Sjálfstfl., sem af hetjuskap vakir enn og er kominn endurnærður úr Suður-Ameríku og getur örugglega frætt okkur eitt og annað um fjárlagaástandið í Chile, svo lengi sem við höfum nóttina hér til umræðu. ( Forseti: Því miður verður forseti að tilkynna hv. 9. þm. Reykv. að hæstv. heilbrrh. er ekki í húsinu.) Ég vil inna forseta eftir því hvort það væri hugsanlegt að óska eftir því að ráðherrann kæmi hingað á staðinn til að taka þátt í þessum umræðum vegna þess að það er bersýnilega talsvert eftir af umræðunum. En ég vil biðja forseta um að íhuga það mjög alvarlega og það er auðvitað satt að segja ekki nokkur hemja að ráðherrar komi hér upp og þenji sig á annan klukkutíma með almennar umvandanir og skæting í garð þingmanna, eins og hæstv. heilbr.- og trmrh., og hlaupi svo á dyr þegar það er yfirvofandi að þeim verði svarað. Það er nú ekki mikill hetjuskapur. Þeim hefði ekki þótt það Vestfirðingum, forfeðrum hans, sem héngu á hvönninni lengi og létu það ekki á sig fá. ( Gripið fram í: Er ekki óhætt að fá sér kaffisopa á meðan hann kemur úr Breiðholtinu?) Mér finnst þetta góð ábending, það er spurning hvort hæstv. forseti er tilbúinn að gera hlé meðan . . . ( Fjmrh: Það var enginn á mælendaskrá þegar ég fór í stólinn, hann hefur haldið að ég væri síðastur.) Nei, hæstv. ráðherra vissi vel að ég mundi tala á eftir hæstv. fjmrh. og hafði meira að segja sagt mér að hann mundi biðja um orðið til þess að gera grein sérstaklega fyrir sparnaðaráformum sjúkrahúsanna í Reykjavík, sem ég hafði gert að umtalsefni í ræðu minni, en hann hafði gleymt að taka til meðferðar. Ég er út af fyrir sig tilbúinn að gera hlé á ræðu minni meðan menn ná í hæstv. heilbr.- og trmrh. eða ræða um það að öðru leyti hvernig umræðunni verður fram haldið. Í sjálfu sér er hugsanlegt að ræða þessi mál síðar, t.d. á morgun, og hæstv. fjmrh. er nú ekki forseti þannig að hann getur sparað sér höfuðhreyfingarnar. En þeir eru farnir að tíðka það hérna hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. að vera endalaust að reyna að stjórna þessum vesalings forsetum úr hinni einlitu forsætisnefnd. Það er komið kerfi eins og það var í Sovétríkjunum í gamla daga. ( Fjmrh.: Það þekkir hv. ræðumaður.) Ég þekki það ekki neitt. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvað hann vill gera í þessum vanda sem þingið stendur frammi fyrir núna. ( Forseti: Forseti vill geta þess að það er verið að kanna aðstæður hæstv. heilbrrh. og ég fæ innan tíðar upplýsingar um það, ef hv. 9. þm. gæti haldið áfram ræðu sinni á meðan.)
    Ég þakka hæstv. forseta fyrir liðlegheitin og aðeins víkja hér að einu atriði sem fram kom í máli hæstv. heilbr.- og trmrh. en að öðru leyti geyma það og síðan víkja mér aðeins að því sem fram kom í máli hæstv. fjmrh.
    Hæstv. heilbrrh. lagði megináherslu á það í ræðu sinni að við værum nú að upplifa lengsta samdráttarskeið sem komið hefði yfir þjóðina síðan í stríðslok. Í sjálfu sér er það ljóst að við stöndum frammi fyrir því að um er að ræða verulegan vanda í þjóðarbúi okkar. Hitt er hins vegar vitað og liggur fyrir af opinberum gögnum að samdráttarskeiðið var miklu lengra á árunum fyrir 1950 og rétt fram yfir 1950. Við skulum líka velta því fyrir okkur af hverju þetta samdráttarskeið er sem við búum núna við. Er það eingöngu vegna þess að það sé nokkur tregða á aflabrögðum? Eða eru einhverjar aðrar ástæður til þess að þjóðin stendur núna frammi fyrir mjög verulegum vanda? Ég tel að meginástæður þess að um er að ræða samdrátt í efnahagslífinu um þessar mundir séu eftirfarandi:
    Ástæða númer eitt er vaxtaokur sem var innleitt af ríkisstjórninni 1984, ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, að kröfu Sjálfstfl. þá í ágúst 1984. Vaxtaokrið hefur haft það í för með sér að atvinnuvegirnir og einstaklingarnir hafa orðið að leggja til hliðar stærri hluta fjármuna sinna í vexti en ella hefði verið og þetta hefur haft í för með sér að minni fjármunir hafa verið til almennrar uppbyggingar í íslensku atvinnu- og efnahagslífi. Í þessu sambandi er mjög merkilegt að íhuga það að spyrji maður opinberar stofnanir, eins og t.d. Þjóðhagsstofnun, hvernig raunvaxtagjöld hafa þróast á tilteknu árabili þá kemur í ljós að það eru engar upplýsingar að hafa um þau mál. Ég er sannfærður um ef væri þetta skoðað ofan í kjölinn þá kæmi í ljós að íslenskir einstaklingar og atvinnuvegir hafa verið að borga vexti sem eru langt umfram það sem gerist með öðrum siðuðum þjóðum. Þetta er í raun og veru meginástæða þeirrar stöðnunar í hagvexti og framþróun sem við stöndum frammi fyrir hér á Íslandi. Það er vaxtaokurstefnan sem Sjálfstfl. ber höfuðábyrgð á.
    Í öðru lagi er ástæðan sú að menn hafa ekki mannað sig upp í það á undanförnum árum, hvorki í þeirri síðustu ríkisstjórn sem ég var í eða þessari eða þar áður, að taka á því máli sem við höfum kallað fiskvinnslustefnu, þ.e. stefnu sem hefur það að markmiði að stuðla að auknum verðmætum með beinum hætti úr hinu íslenska sjávarfangi. Í þeim efnum hefur hv. þm. Jóhann Ársælsson flutt mál í þinginu að undanförnu og það er augljóst að það getur verið um að ræða mjög stórfellda aukningu á þeim verðmætum sem þjóðarbúið hefur.
    Þriðja ástæðan er sú að --- ég nenni nú ekki að hafa ekki einu sinni fjmrh. hérna. ( Forseti: Fjmrh. mun koma innan stundar.) ( Fjmrh.: Ég er hér.) Nei, sko minn. --- Fyrsta ástæðan er vaxtaokur. Önnur ástæða er sú að hér hefur ekki verið rekin markviss fiskvinnslustefna. Þriðja ástæðan er sú að patentlausnaaðferðirnar í uppbyggingu iðnaðar- og atvinnulífs hér á landi hafa sett allt of mikinn svip á atvinnuþróun hér á landi á undanförnum árum. Ég er að tala um þessar sífelldu álvers- og stóriðjuáherslur þar sem menn hafa aldrei fengist til þess að horfa á nein önnur atvinnutækifæri en þau sem felast í álverksmiðjum og stóriðjufyrirtækjum.
    Fjórða meginástæðan er sú að menn hafa ekki fengist til þess að leggja þá fjármuni í rannsóknir, vísindi og þróunarstarfsemi sem er óhjákvæmileg með þjóð sem vill byggja upp sín framtíðarlífskjör. Sú ríkisstjórn sem nú situr er auðvitað sérstaklega fjandsamleg rannsóknum, vísindum og þróunarstarfsemi og birtist það m.a. í því að framlögin til rannsókna á næstu árum munu samkvæmt fjárlagafrv. lækka um 1 / 4 frá því sem er á árinu 1991. Þessi afstaða ríkisstjórnarinnar til rannsókna, mennta og þróunar kemur líka fram í ákvörðunum og stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi Lánasjóð ísl. námsmanna, hún kemur líka fram í framkomu menntmrn. við Kennaraháskóla Íslands. Hún kemur líka fram í þeim ákvörðunum að leggja á skólagjöld. Allt þetta er sönnun þess að ríkisstjórnin hefur ekki snefil af skilningi á því að rannsóknir, vísindastarf og þróunarverkefni eru undirstaða góðra lífskjara í framtíðinni.
    Allt þetta hefur valdið því að við stöndum núna frammi fyrir stöðnun. Það er meginatriðið. Og það þýðir ekkert fyrir hæstv. heilbrrh. að ætla sér að fara í hlutina eins og hann gerði án þess að benda á þennan veruleika.
    Hæstv. heilbrrh. hugðist svara nokkru því sem fram kom í máli mínu í sambandi við Evrópskt efnahagssvæði. Sagði að það væri þannig að við mundum auðvitað á næsta ári og hefðum á undanförnum árum orðið að búa við áhrif af ytri kringumstæðum. Það er rétt. Að sjálfsögðu búum við við áhrif af ytri kringumstæðum. Það vita allir. En það var eins og heilbrrh. teldi það mikla uppgötvun. Mér finnst það ekki meðmæli með honum, ég verð að segja það alveg eins og er. Hitt er alveg ljóst að þegar og ef Íslendingar verða aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði verða áhrif hinna erlendu samninga sem við höfum gert meiri en þau eru núna. Hæstv. fjmrh. benti í svarræðu sinni áðan á eitt atriði í tekjuöflun ríkissjóðs 1992 þar sem við erum í raun og veru að taka tillit til erlendra samninga. Það er niðurfelling jöfnunargjaldsins. Ég segi: Svona dæmi verða hundrað sinnum fleiri í fjárlögum ársins 1993, 1994 og 1995 ef Íslendingar gerast aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Ég tala nú ekki um ef menn ganga með þjóðina inn í Evrópubandalagið.
    Hæstv. heilbr.- og trmrh. fullyrti að allar ríkisstjórnir hefðu skilið eftir stórkostlegan halla á ríkisbúskapnum og þar með safnað skuldum. Það er rangt. Ég bendi á að þau ár sem Ragnar Arnalds fór með fjrmn. var um að ræða mjög góða stöðu hjá ríkissjóði. Mjög góða stöðu.
    Hæstv. heilbrrh. lagði mikla áherslu á það að ríkisstjórnin væri að hlífa smælingjunum með stefnu sinni. Smælingjunum. Þetta var jafnaðarmannslegt orðbragð eða hitt þó heldur. Ég hef gert það upp við mig, virðulegi forseti, af því að ekki er hægt að draga hæstv. heilbrrh. upp úr rúminu að hlífa honum og láta ekki ræsa hann út. Ég kalla hann ekki smælingja þó hann kjósi að vera undir dúnsænginni uppi í Breiðholti. En sú afstaða sem fram kom í máli hæstv. heilbrrh. með því að nota orðið smælingi sýndi í raun og veru betur en flest annað hvernig hann lítur á verkefni sín. Með hvaða augum hins hrokafulla valdsmanns hann horfir niður til smælingjanna.
    Hæstv. heilbr.- og trmrh. sagði að hann teldi út af fyrir sig eðlilegt að skoða skattahækkanir. Hann rakti síðan nokkur dæmi um þær skattahækkanir sem ég nefndi sem dæmi í minni ræðu fyrr í dag. Hann taldi að þar væri lítið að hafa. Öðruvísi mér áður brá. Áður kunni Alþfl. ráð við öllum hlutum í þessum efnum. Nú er hann farinn að sofa og kýs að vera undir sæng þegar á að tala við hann.
    Fyrir nokkrum árum fluttu þingmenn Alþfl. tillögu um stighækkandi eignarskattsauka. Sú tillaga gerði ráð fyrir því að menn greiddu í sérstakan eignarskattsauka marga milljarða króna umfram það sem greitt er í eignarskatt í dag. Hverjir voru flm. þessarar tillögu á sínum tíma? Þar voru fremstir í flokki hæstv. núv. ráðherrar, Jón Baldvin Hannibalsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Eiður Guðnason. Alþfl. hefur hins vegar lært nýja lexíu í þeirri stjórn sem nú situr. Það er greinilegt. Og hefur lagt til hliðar þau stefnumál sín að reyna að draga úr ójöfnuði í þjóðfélaginu með því að leggja skatta á þá sem geta greitt.
    Hæstv. heilbrrh. og sömuleiðis hæstv. fjmrh. hafa rætt talsvert mikið um að nauðsynlegt sé að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Út af fyrir sig get ég verið sammála því markmiði. Ég held hins vegar að spurningin í þessu efni sé ekki um það hvort menn vilja ná þessu markmiði, heldur í fyrsta lagi um það hvernig á að ná markmiðinu, með hvaða aðferðum, og í öðru lagi á hve löngum tíma á að ná markmiðinu. Ég dreg í efa að það sé skynsamleg hagstjórn að fara endilega jafnbratt í þessa hluti og hæstv. ríkisstjórn segist ætla að gera. Ég á eftir að sjá að hún geri það. Á tímum samdráttar í þjóðartekjum og þjóðarbúskap er ekki víst að það sé skynsamlegt að fara í þessa hluti eins og hæstv. ríkisstjórn virðist ætla að gera, þar sem menn setja sér að ná tilteknum jöfnuði á árinu 1993, ef ég man rétt. Ég spái því að það verði mjög erfitt fyrir ríkisstjórnina að ná þessu og ég dreg í efa að það samrýmist hinum efnahagslega veruleika sem þjóðin býr við. Mér finnst varðandi atriði eins og jöfnuð á ríkisfjármálum, svo mikilvægt sem það er, þá eigi menn ekki að nálgast það út frá kreddusjónarmiðum, heldur með hliðsjón af aðstæðum eins og þær eru á hverjum tíma.
    Hæstv. fjmrh. og hæstv. heilbrrh. viku að skólagjöldum og ég ætla aðeins að fara yfir það. Skv. 8. gr. framhaldsskólalaganna er heimilt að innheimta svokölluð námsefnisgjöld í skólum. Í 32. gr. framhaldsskólalaganna, 1. mgr., stendur hins vegar að ríkissjóður greiði laun og annan rekstrarkostnað framhaldsskólanna og síðan er það nákvæmlega talið upp hver þessi annar rekstrarkostnaður sé. Þau gjöld sem um er að ræða í 8. gr. framhaldsskólalaganna er ekki hægt að nota til að borga almennan rekstur skólanna. Það er ekki hægt. Þess vegna er það þannig að ef ríkisstjórnin ætlar sér að leggja á þessi skólagjöld þá verður hún að breyta framhaldsskólalögunum.
    Nú hefur það komið fram hjá einhverjum þingmönnum Alþfl. að þeir séu ekki tilbúnir til þess að breyta framhaldsskólalögunum með þeim hætti sem óhjákvæmilegt er. Ég hirði ekki um að blanda mér í umræður af þeim toga sem hæstv. heilbrrh. hóf fyrr í þessari umræðu að skólagjöldin yrðu lögð á í rauninni samkvæmt sömu ákvæðum laga og til þessa hafa verið notuð. Það gengur ekki. Það vita allir og það vita meira að segja embættismenn menntmrn. Það hefur komið fram að embættismenn menntmrn. telja óhjákvæmilegt að breyta lögum um framhaldsskóla eigi að taka gjöld í rekstur.
    Hæstv. heilbr.- og trmrh. ræddi nokkuð ítarlega um þessa hluti og mér fannst hann horfa fram hjá þessum veruleika og neita sér um að ræða þetta málefnalega, því miður. Það reyndi hins vegar hæstv. fjmrh. og ber að þakka honum fyrir það.
    Ég vek einnig athygli á því, virðulegi forseti, að í umræðunum í kvöld ræddi ég um sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík. Ég fullyrti að sú aðferð sem heilbrrh. ætlar að nota muni ekki skila árangri. Hann svaraði því engu. Ég vil einnig vekja athygli á því að í ræðu minni fyrr í kvöld óskaði ég eftir upplýsingum um hvaða jöfnunaraðgerðir það eru sem ríkisstjórnin er með í farteskinu sem krötunum var lofað að hafa samkvæmt ummælum hæstv. félmrh. Og ég verð að ítreka þá spurningu við hæstv. fjmrh. Hvaða jöfnunaraðgerðir eru það sem ríkisstjórnin hét Alþfl. en eru ekki í fjárlagafrv. eins og það lítur út núna?
    Ég ætla ekki að fara yfir einstök atriði eða svör hæstv. fjmrh., enda engin ástæða til, en hann sagði þó nokkra afar merkilega hluti. Eitt voru þau orð sem hann hafði um álver. Hæstv. ráðherra sagði: Bankarnir gera meiri kröfur til fyrirtækjanna um tryggingar. Það hlýtur að þýða það að fyrirtækin komi aftur og segi: Við þurfum að breyta samningsdrögunum sem fyrir liggja af því það getur ekki verið að tryggingarnar kosti ekki neitt. Það sem fjmrh. var að upplýsa okkur um hér áðan er þess vegna það að fyrirtækin sem menn hafa verið að ræða við ætli að koma og gera kröfur um einhverjar breytingar á samningsdrögunum þeim í vil. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þessar upplýsingar sem eru afar merkilegar vegna þess að það er búið að fullyrða við okkur aftur og aftur af hæstv. iðnrh. að þetta sé allt saman klappað og klárt og búið. Við höfum auðvitað aftur og aftur sagt: Það getur ekki verið að þetta sé búið fyrr en búið er að ganga frá ábyrgðum og tryggingum. Hæstv. iðnrh. hefur vísað því frá sér. En nú flettir hæstv. fjmrh. ofan af kollega sínum með þessum hætti og það er þakkarvert.
    Mér fannst það einnig afar athyglisvert, sem hæstv. fjmrh. sagði um launahækkanir, að það sé í raun og veru allt í lagi með launahækkanir frá sjónarmiði ríkisins. Allt í lagi, hann sagði það, vegna þess að tekjurnar hækka bara á móti. Þetta er fínt fyrir Ögmund og þá félaga að heyra þetta. Afar merkilegt.
    Út af fyrir sig hefði verið ástæða til þess að spyrja hæstv. fjmrh. hvernig hann ætlar að haga sinni kjaramálastefnu umfram það sem felst í fjárlagafrv. Hann er í sjálfu sér búinn að gefa vissa yfirlýsingu um það að menn geti svo sem sleppt fram af sér beislinu dálítið í kauphækkunun hjá opinberum starfsmönnum vegna þess að þetta komi allt inn í ríkissjóð aftur. Ég hygg að það sé sjaldgæft að fjmrh. gefi yfirlýsingar af þessu tagi. Ég veit ekki hvort þetta var fingurbrjótur hjá hæstv. ráðherra eða hvort hér er um að ræða mjög yfirvegaða yfirlýsingu af hans hálfu. Auðvitað snýr dæmið ekki þannig eins og hann lýsti því að það sé því betra fyrir ríkissjóð þeim mun verra sem það er úti í þjóðfélaginu. Það er ekki svo einfalt. Það er ekki algjört jafnaðarmerki þar á milli, ef allt er á hvolfi í þjóðfélaginu sé fínt ástand uppi í Arnarhvoli hjá ríkissjóði. Það er ekki alveg þannig. En hann orðaði þetta þannig að það var ekki nokkur leið að skilja hann öðruvísi en hann teldi að í rauninni þá væri það allt í besta lagi þó að menn slepptu aðeins fram af sér beislinu í sambandi við kauphækkanir.
    Það sem mér fannst líka afar merkilegt í ræðu hæstv. fjmrh. var um gjöldin á sjúkrahúsunum. Og sérstaklega fróðlegt þegar hann sagði frá því að læknar legðu menn inn á sjúkrahús til að spara þeim göngudeildargjöld upp á 900 kr. Ég segi: Það eru fátækir menn sem borga þann skemmtanaskatt eða sleppa við 900 kr. og leggjast í staðinn inn á spítala í nokkra daga. Það er afar sérkennileg túlkun. Hitt er þó enn þá athyglisverðara þegar hann sagði að það þyrfti að taka sérstaklega á vandamálum fólks sem væri hér til lækninga og byggi á hótelum og það væri þá alveg eins gott fyrir það að borga á spítölum og að vera á Hótel Sögu. Ég held að málið sé ekki svona einfalt. A.m.k. man ég ekki eftir því það fólk utan af landi sem ég þekki til hafi skráð sig mikið á Hótel Sögu þó það hafi verið hér syðra til lækninga.
    Það eru rök sem hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. hafa aftur og aftur notað að það sé alveg eins gott fyrir fólk að borga eitthvað smávegis á spítölum eins og að vera á hótelum. Þetta sýnir mér ekkert annað en það að þetta eru gjörsamlega lífsfirrtir menn sem láta sér detta í hug að bera svona rugl á borð fyrir þjóðina.
    Það voru einnig athyglisverðar upplýsingar sem fram komu hjá hæstv. ráðherra í sambandi við einkavæðingardeildina. Það er þó árangur af þessum umræðum að það er búið að slíta það út úr ráðherranum hverjir eiga að vera í einkavæðingardeildinni. Það eru tveir starfsmenn sem starfa þegar í ráðuneytinu og þeir hafa hlotið framhaldsmenntun. Hann nefndi það alveg sérstaklega þeim til ágætis að þeir hefðu hlotið framhaldsmenntun. Það hefur ekki alltaf átt upp á pallborðið hjá hæstv. fjmrh. að menn hafi hlotið framhaldsmenntun. ( Gripið fram í: Í Ameríku.) Auk þess í Ameríku. Þannig að þetta eru bersýnilega efnismenn og ég sé að það er ástæðulaust fyrir mig að taka því tilboði sem hæstv. heilbrrh. gerði mér að ég tæki þetta að mér. Ég get út af fyrir sig alveg hugsað mér að fara yfir þessa hluti vegna þess að þessi mál eru ekki þannig að menn eigi að nálgast þau eftir einhverjum kreddu- og reglustikusjónarmiðum. En það finnst mér ríkisstjórnin gera. Mér finnst hún slegin blindu, haldin oftrú á það að hægt sé að leysa allt með þessu einkavæðingartali. Ég tel svo ekki vera. En ég útiloka ekki að það

séu margir þættir sem megi skoða og út af fyrir sig einkavæða. Þá verður náttúrlega um leið að tryggja að ekki skapist einokunaraðstaða tiltekinna aðila í þjóðfélaginu, eins og reyndar blasir þegar við á ýmsum sviðum.
    Rök hæstv. ráðherra fyrir því að taka upp skólagjöld voru fróðleg. Þau voru mjög athyglisverð. Það þarf að taka upp skólagjöld á Íslandi til þess að það sé hægt að lána fyrir þeim. Af því að það er lánað fyrir skólagjöldum í Bandaríkjunum verður endilega að taka upp skólagjöld á Íslandi til þess að hægt sé að lána fyrir þeim líka hér því það er ekkert réttlæti í því að ekki sé hægt að lána fyrir skólagjöldum á Íslandi eins og í Ameríku. Það er nú langt seilst eftir rökum, drottinn minn dýri, á þessari nóttu.
    Auðvitað er það alveg augljóst mál að þessi ákvörðun um skólagjöld er ákvörðun um grundvallaratriði sem getur staðið til mjög langs tíma. Mín skoðun er hins vegar sú að ríkisstjórn sem vill standa undir því nafni að heita félagshyggjustjórn eigi að afnema þessa skatta. Félagshyggjustjórn ætti að setja sér það meginmarkið að afnema hægri skattana, sjúklingaskattana og skólagjöldin. Og það verða kannski þau kaflaskil sem verða næst þegar skipt verður um stjórn, að hér taki við mannúðarstefna í stað þeirrar stefnu sem nú er fylgt.
    Ég er í sjálfu sér ekki að segja að núv. ríkisstjórn sé að hafna með öllu forsendum mannúðarstefnu og ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir að ræða þau mál með býsna alvarlegum hætti eins og hann gerði áðan. Ég er ekki að segja að ríkistjórnin sé að hafna með öllu forsendum mannúðarstefnu. Ég er að segja að ég óttast að ef lagt er inn á þessa braut á annað borð geti orðið mjög erfitt að snúa við og því fyrr sem það yrði gert þeim mun betra. Þess vegna má það ekki bíða lengur en til næstu stjórnar að afnema hægri skattana.
    Nú vill svo vel til að staðan er þannig, virðulegi forseti, að samkvæmt þeim niðurstöðum skoðanakannana sem liggja fyrir hafa stjórnarandstöðuflokkarnir meiri hlutann hjá þjóðinni. Það sem þarf auðvitað að gera sem fyrst er að það verði hægt að breyta þessum meiri hluta skoðanakannana í þingstyrk til þess að losna við þá ríkisstjórn sem nú situr.