Fjárlög 1992

12. fundur
Miðvikudaginn 23. október 1991, kl. 00:58:00 (385)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Nú hefur það gerst að svör hæstv. fjmrh. við ræðu hér í dag hafa verið þess eðlis að þau gefa tilefni til þess að umræðu sé haldið áfram. Vissulega erum við stjórnarandstæðingar tilbúnir til þess að taka þátt í viðræðum við hæstv. ráðherra þessarar ríkisstjórnar þó farið sé að halla fram yfir miðnætti.
    Þá er fyrst til að taka varðandi einkavæðingardeildina. Mér fannst það eiginlega mjög athyglisvert sem kom fram í ræðu hv. 14. þm. Reykv. í dag þegar hún talaði um ruglaða prófessorinn í Englandi sem stýrði einkavæðingunni hjá Thatcher. Mér flaug í hug hvort við gætum ekki átt upp í Háskóla einhverja sem gætu tekið þetta að sér. Ég held reyndar að það þyrfti ekki að fara lengra en upp í lektorsstigið til þess að finna hæfilegan kandídat. En ég vil ekki velja honum forskeyti varðandi gáfnafar eða annað slíkt líkt og gert var í dag varðandi prófessorinn enska. En ég kem þessari ábendingu á framfæri.
    Það sem fyrst og fremst gerði það að verkum að ég sá ástæðu til þess að koma hér aftur var umfjöllun hæstv. fjmrh. um vaxtamál. Hann sagði að það væri svo einfalt að það væri eftirspurnin sem réði vöxtunum. Undir það get ég tekið ef við værum komin með þróaðan fjármagnsmarkað. En að mínu mati er langt frá að svo sé orðið. Og varðandi þróun fjármagnsmarkaðar síðustu ár höfum við því miður farið allt of mikið eftir kennisetningum. Það er eiginlega bágt til þess að vita að með breyttum viðhorfum í stjónrmálum á alþjóðavettvangi sé svo komið uppi á litla Íslandi að þeir einu sem eru tilbúnir að stjórna blint eftir kennisetningum eru sjálfstæðismenn og síðan vissulega þeir hægri kratar sem manni finnst á stundum að séu kaþólskari en páfinn hvað þessi atriði snertir og er þar kannski hæstv. viðskrh. fremstur í flokki. Það er nú samt svo að þrátt fyrir þessi ummæli eru ekki gerðir alltaf í samræmi við það. Að mínu mati var það ekkert annað en handaflsaðgerð að hækka vaxti á ríkisvíxlum fyrr á þessu ári því einmitt á þeim tímapunkti var vaxtamunur ríkisvíxla og almennra víxla á því stigi sem menn telja eðlilegt með tilliti til mismunandi áhættu á þróuðum fjármagnsmarkaði. En þá voru ríkisvíxlarnir rifnir upp með þeim árangri sem sést á þessu línuriti hér. Aðrir vextir fóru stig af stigi á undan. Og ef þetta eru ekki handaflsaðgerðir þá veit ég ekki hvar þær er að finna.
    Í öðru lagi varðandi vaxtamálin og ræðu hæstv. fjmrn. áðan. Hann bendir réttilega á að það háa raunvaxtastig sem ég nefndi að væri spáð á síðasta ársfjórðungi byggðist á lækkandi verðbólgu. Og við getum alveg rætt hvernig stendur á þessari lækkandi verðbólgu, hverjir lögðu grunninn að henni. Það var ekki núv. ríkisstjórn. Það er arfur frá þjóðarsáttarsamningunum sem, eins og ég sagði fyrr í dag, fyrrv. ríkisstjórnin studdi á allan þann hátt sem farið var fram á. Hitt er það að ég óttast að ekki verði gripið til róttækra aðgerða til að þrýsta nafnvöxtunum niður á eftir verðbólgunni. Ég veit að sá aðili sem samkvæmt okkar stjórnkerfi á að fylgjast með þessu skoðar hvert raunvaxtastig ársins er. Og Seðlabankinn segir ósköp rólega: Við eigum ekkert að gera annað en bera það saman við raunvexti í nágrannalöndunumum, viðskiptalöndunum, og hefur komist að þeirri niðurstöðu að út frá þessu háa vaxtastigi síðasta ársfjórðunginn verði raunvextir hér að meðaltali 10,2% sem sé líklegast allt í lagi. Enn um sinn verða atvinnuvegirnir og einstaklingarnir sem skulda að búa við raunvaxtastig sem er fáheyrt í hinum vestræna heimi.
    Við skulum víkja aðeins að ríkisfjármálunum. Talsmönnum ríkisstjórnarinnar, m.a. síðast hæstv. fjmrn. í svarræðu sinni áðan, er tíðrætt um að það verði að draga úr ríkisútgjöldum og skapa þannig atvinnulífinu og heimilunum í landinu aukið svigrúm. Ég sagði fyrr í dag að undir þetta gæti ég tekið. En það er hins vegar talnaleikur og langt frá því að draga úr ríkisútgjöldum að færa hluta af þessum gjöldum yfir á þjónustugjöld vegna þess að eftir stendur að ríkið tekur á næsta ári örlítið hærra hlutfall af landsframleiðslu en í ár. Og samkvæmt þeirri hagfræði sem ég kann að minnsta kosti þá eru þeir peningar alveg jafnbundnir í þeirri þjónustu sem ríkið veitir hvort sem þeir koma að hluta til í gegnum þjónustugjöld eða ekki. Þessi aðgerð sem slík skapar ekki svigrúm fyrir aðrar efnahagsstærðir í okkar efnahagslífi. Þetta eru þær bláköldu staðreyndir sem liggja fyrir í fjárlagafrv.
    Ég kallaði fram í fyrir hæstv. fjmrn. áðan, sem auðvitað er ósiður að gera, að hann gleymdi að nefna eina leið enn til að bregðast við vaxandi ríkisútgjöldum og það er sparnaður. Með þjónustugjaldaleið hefur ríkisstjórnin gefist upp á að beita sparnaði. Hæstv. fjmrh. sagði að sparnaðarleiðin hefði verið reynd. Hún þýddi í heilbrigðisþjónustunni lokun deilda og minni þjónustu. En hæstv. fjmrn. sagði örskömmu seinna í sinni ræðu að hann tæki heils hugar undir það sjónarmið 1. þm. Norðurl. e. og fyrrv. heilbrrh. að það mætti með hagræðingu og sparnaði spara svo sem 1 milljarð í rekstri sjúkrahúsanna í Reykjavík. Þarna stangast því eilítið á.
    Það sem ég vildi hins vegar leggja áherslu á í ræðu minni í dag varðandi þjónustugjöldin er að það er langur vegur frá hugmyndum um þjónustugjöld til þess að auka aðhald í ríkisrekstri til þeirra hugmynda sem við höfum þráfaldlega heyrt frá ýmsum talsmönnum núv. stjórnarflokka um mjög róttækar aðgerðir í ríkisfjármálum í þeim velferðargrunni sem við höfum búið við. Og það kom ekkert það fram í ræðu hæstv. fjmrh. áðan sem eyðir þeirri óvissu sem hér er um að ræða. Þær hugmyndir sem m.a. hæstv. menntmrh. hefur viðrað varðandi Lánasjóð ísl. námsmanna ganga svo langt í þessa átt að ef þær næðu fram að ganga yrði framhaldsmenntun forréttindi þeirra sem annaðhvort ættu peninga eða aðgang að þeim sem væru tilbúnir til að veita styrki til framhaldsnáms. Þetta er það kerfi sem er við lýði í fyrirheitna landinu, í Bandaríkjunum, þar sem þeir sem hvorki eiga peninga né njóta styrkja eiga ekki aðra leið til að afla sér menntunar en að ganga í herinn. Við höfum að vísu engan her á Íslandi og vonandi verður svo ekki en svona liggur málið fyrir.
    Ég get nefnt það líka að áhrifamenn innan stjórnmálaflokkanna sem nú eru við völd hafa varpað fram þeirri hugmynd að það sé ekkert óeðlilegt að þeir sem eiga peninga geti keypt sér forgang að heilbrigðisþjónustunni. Meðan þessar hugmyndir eru uppi þá tek ég öllum tilburðum um þjónustugjöld eða innheimtu fyrir þessa þjónustu út frá þeim. Þá get ég ekki annað en reiknað með því að þetta sé fyrsta skrefið að því kerfi sem ég var að nefna áðan. Má ég þá frekar biðja um að við leggjum þessi gjöld á þá sem hafa burði til að bera þau og við búum við það félagslega öryggi sem okkar velferðarkerfi er, kerfi sem var byggt upp á tímum þegar þjóðartekjur okkar voru mun minni en þær eru í dag en enginn sá eftir því að það væri borið uppi af samfélaginu.
    Þetta hins vegar kemur því ekkert við að varðandi okkar peningamál og atvinnulíf hljótum við að horfa til meira frjálsræðis og meiri þátttöku einstaklinganna. Þetta hafa sumir menn kallað félagslega markaðshyggju. Það er himinn og haf á milli slíkra hugmynda og peningahyggju þeirrar sem mönnum er tíðrætt um og réð ríkjum á Tatchertímanum í Bretlandi. Því miður sé ég engar líkur til þess að núv. ríkisstjórn hafi burði eða vilja til þess að feta þá leið sem ég nefndi áðan.
    Það væri hægt að hafa langt mál enn um þá þætti sem komu fram í svarræðu hæstv. fjmrn. en ég mun láta staðar numið hér.