Fjárlög 1992

12. fundur
Miðvikudaginn 23. október 1991, kl. 01:45:00 (387)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
     Virðulegi forseti. Það er ýmsum spurningum ósvarað af því sem fram hefur komið hér í dag og í kvöld. Mig langar til þess að ítreka spurningar til hæstv. fjmrh. og auk þess taka hér upp atriði sem ég gleymdi sjálf í fyrri ræðu minni í kvöld. Fyrsta spurningin varðar aðstöðugjaldið, þ.e. aðstöðugjaldið sem sveitarfélögin leggja á. Í fjárlagafrv. kemur fram að það eigi að endurskoða aðstöðugjaldið og ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvar það mál er statt og hvernig ríkisstjórnin hugsar sér að standa að breytingu á aðstöðugjaldinu.
    Það kom fram í svarræðu hæstv. fjmrh. þar sem rætt var um einkavæðingu að þar væri ekki eingöngu um það að ræða að selja ríkisfyrirtæki heldur einnig um útboð á rekstrarþáttum ríkisins og ég vildi gjarnan fá upplýst hvaða rekstrarþætti hæstv. ráðherra hefur í huga. Getur hann nefnt okkur dæmi um það að hverju menn eru að stefna í þessu efni?
    Síðan vil ég líka vera góð við hæstv. fjmrh., eins og síðasti ræðumaður, og benda á leiðir til að afla aukinna tekna. Það er þá annars vegar það að bæta innheimtu. Eftir því sem mér skilst eru býsna mikil vanskil á opinberum gjöldum og ég vildi gjarnan fá það upplýst hversu mikil þau vanskil eru, þ.e. hversu miklu væri hægt að ná inn með bættri innheimtu og hvað hugsar ráðherra sér í þeim efnum?
    Síðast en ekki síst þá vitum við það að hér á landi er því miður töluverð starfsemi sem kölluð er svört starfsemi eða svarti markaðurinn. Formaður Vinnuveitendasambandsins hefur gert þetta fyrirbæri að umræðuefni og lýst yfir vandlætingu sinni á þessum svarta markaði. Þarna held ég að sé fyrirbæri sem stjórnvöld ættu virkilega að snúa sér að því þarna er auðvitað verið að stinga undan virðisaukaskatti, fyrir utan það hvað þetta dregur úr siðgæðinu í landinu.
    Það voru sem sagt þessi atriði sem ég vildi koma hér á framfæri og það mundi gleðja mig ef hæstv. fjmrh. gæti svarað þessu.