Fjárlög 1992

12. fundur
Miðvikudaginn 23. október 1991, kl. 02:09:00 (389)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Það er talsvert liðið á þann fundartíma sem talist getur hæfilegur og eðlilegur við 1. umr. fjárlaga enda klukkan nokkuð gengin í þrjú að nóttu. Ég tel ástæðu til þess að gera tilraun til að svara fyrirspurnum sem til mín hefur verið beint. Mun ég þá fyrst og fremst beina máli mínu til þeirra sem ekki höfðu áður talað í umræðunni en töluðu hins vegar eftir að ég talaði í annað sinnið.
    Hv. 5. þm. Vestf. varpaði til mín nokkrum spurningum. Fyrst um Byggingarsjóð verkamanna og þær breytingar sem boðaðar eru á útlánareglum sjóðsins. Nú er það svo að þær reglur eru ekki endanlega tilbúnar, enda gildir frv. sem hér er verið ræða frá næstu áramótum. Hins vegar er nú þegar ljóst í megindráttum út á hvað breytingarnar ganga.

    Í fyrsta lagi vil ég geta þess að áætlað er að talsverður hluti, líklega u.þ.b. fimmtungur, af útlánsfjármagninu gangi til almenna leiguíbúðakerfisins en lán til þess bera hærri vexti en önnur lán úr Byggingarsjóði verkamanna. (Gripið fram í.) Já, það eru almennu kaupleiguíbúðirnar.
    Í öðru lagi vil ég minna á að núna á haustmánuðum gengur í gildi í fyrsta skipti það ákvæði sem fjallar um að vextir skuli hækka eftir tiltekinn eignarhaldstíma þeirra sem tóku lán fyrir sex árum síðan, svokölluð sexáraregla. Ekki er enn ljóst hve margir íbúðaeigendur, sem tekið hafa lán úr Byggingarsjóði verkamanna, þurfa að sætta sig við hærri vexti á lánum sínum vegna þess að um tekjubreytingar hefur verið að ræða. Þó er gert ráð fyrir að það gerist í allmögum tilvikum.
    Í hugmyndum sem liggja fyrir er í þriðja lagi gert ráð fyrir að lækka lánshlutfallið, m.a. gerist það með því að útlánum úr sjóðnum verði beint til kaupa á eldri íbúðum í stærri stíl en verið hefur. Allt þetta gerir það að verkum að gera má ráð fyrir að nýting á fjármununum verði betri en hingað til hefur verið.
    Þá vil ég geta þess að um það hefur verið rætt að hækka vexti en vextir af lánum Byggingarsjóðs verkamanna eru nú 1% og útlánatíminn 43 ár. Þar sem vaxtaupphæðin er afgangsstærð er ekki hægt að segja til um hverjir vextirnir verða og hvort um vaxtahækkun verður að ræða almennt í þessu kerfi. En það hefur verið rætt að vextir gætu hækkað um 1,5--1,75% og gætu þess vegna orðið á milli 2,5 og 3% eftir að breyting hefur átt sér stað. Það sem ég segi um þessi atriði er sagt með þeim fyrirvara að reglurnar liggja ekki endanlega fyrir og þeir aðilar sem semja þær reglur er að sjálfsögðu stjórn sjóðsins og félmrn.
    Hv. 5. þm. Vestf. spurði um kostnað sveitarfélaganna vegna Byggingarsjóðs verkamanna. Það er rétt að gert er ráð fyrir því að sveitarfélögin taki þátt í uppbyggingu félagslega íbúðakerfisins hvert á sínum stað. Nefnt hefur verið í því sambandi að sveitarfélögin gefi eftir gatnagerðargjöld.
    Þetta mál, eins og ég hef sagt áður, heyrir undir félmrn. og það sem ég segi hér verður að takast með þeim fyrirvara að vera kann að fyrirhugaðar breytingar verði ekki nákvæmlega eins og ég hef hér lýst. Mér finnst þó ástæða til að fram komi að það hafa verið uppi sjónarmið, ekki síst frá ýmsum stöðum á landsbyggðinni, að svo gæti verið að félagslega íbúðakerfið hefði öfug áhrif á byggðastefnuna. Meira að segja hafa sumir gengið svo langt að halda því fram að of mikil uppbygging félagslega kerfisins, nýbyggingar á þess vegum, hafi verðfellt eignir manna úti á landsbyggðinni. Af þessum ástæðum m.a. hafa augu manna beinst að því hvort ekki sé ástæða til að nýta fjármagn sjóðsins fremur til kaupa á eldra húsnæði en að nýbyggingar séu stundaðar í eins stórum stíl og verið hefur.
    Fleiri atriði koma til skjalanna, t.d. þau að sveitarfélög fái aðgang að fjármagni með nokkurra ára millibili þannig að íbúðabyggingar séu af hentugri stærð en verið hefur. Skal ég svo ekki fjölyrða meira um þessar breytingar sem fyrirhugaðar eru en klykkja út með því að hækkun á framlagi ríkisins til sjóðsins á að nægja til þess að ekki myndist munur á innlánum og útlánum sjóðsins sem ýtt verður til framtíðar og ætlað skattgreiðendum framtíðarinnar að greiða. Með öðrum orðum eiga þær 1.100 millj. sem ganga til Byggingarsjóðs verkamanna að standa undir vaxtamuninum vegna útlána á næsta ári.
    Hv. þm. ræddi næst um vegáætlun og spurðist fyrir um hvort ætlunin væri að breyta henni þar sem ljóst væri að tölurnar í fjárlagafrv. svöruðu ekki til talna í vegáætlun þeirri sem samþykkt var á Alþingi fyrr á þessu ári. Ég hygg að svo sé. Það er rétt sem hv. þm. sagði að sé miðað við vegáætlun er um skerðingu að ræða. Sé hins vegar miðað við framlög til vegagerðar á yfirstandandi ári og reyndar síðustu árum er um aukningu á fjárframlagi að ræða til vegagerðar á næsta ári. Það er enn fremur rétt að ríkisstjórnin hætti við að taka lán til framkvæmda við göng á Vestfjörðum. Og ég verð að segja að ég tel það ríkisstjórninni til hróss að hafa gert það vegna þess að það hlýtur að vera eitt meginmarkmiðið, og ég held að enginn hafi talað gegn því í þessari umræðu, að draga úr lántökum. Ef menn vilja framkvæmdir samt sem áður verður auðvitað að greiða þær af einhverjum fjármunum sem fyrir liggja og það hlýtur þá að bitna á einhverju öðru í staðinn. Svo einfalt er það mál.
    Ég tel hins vegar fulla ástæðu til þess fyrir ríkisstjórnina að vekja athygli á því að fjármunir til samgöngumála, sérstaklega til vegamála, vaxa á næsta ári sé miðað við yfirstandandi ár. Að vísu má segja að sumar þær framkvæmdir sem vegaféð gengur til hafi þegar átt sér stað, þar á meðal má minna á að ætlunin er að greiða Reykjavíkurborg vegna samnings sem borgin gerði á sínum tíma við þáv. fjmrh. og samgrh. og ljóst var allan tímann að greiða þyrfti af því skuldabréfi sem var vegna gamalla framkvæmda hér á höfuðborgarsvæðinu. Eigi að síður eru það að sjálfsögðu framkvæmdir þó það séu ekki framkvæmdir sem eiga sér stað á næsta ári.
    Varðandi þriðja atriðið um biskupinn og sjóðina þá verður mér heldur svarafátt. Ég hygg þó að hér sé átt við Kirkjubyggingasjóð og Kristnisjóð sem eru sjóðir sem tilheyra biskupsembættinu.
    Um skólann Í Reykjanesi get ég verið stuttorður. Þær tölur sem eru í frv. koma úr menntmrn. Ég hygg að tölurnar séu ekki endanlegri en aðrar tölur í frv. Fari svo að nægilegur nemendafjöldi fáist í Reykjanesskóla á næsta skólaári, sem hefst haustið 1992, er ég viss um að fjármagn fæst til skólahaldsins. Verði hins vegar skortur á nemendum, eins og gerðist á sl. hausti, tel ég ekki ástæðu til að endurvekja skólastarf á þessum stað.
    Varðandi sértekjur í sýslumannsembættum get ég ekki upplýst hv. þm. Það er ljóst að um verulegar breytingar er að ræða í dómskerfinu. Sýslumannsembættin skiljast frá dómaraembættunum, en ég tel mig þó geta svarað því að ekki er um það að ræða að misjafnt verð eigi að gilda í mismunandi umdæmum fyrir sams konar þjónustu. Ég hygg að munurinn á sértekjum milli embætta sé til kominn vegna þess að útseld þjónusta sem fer um embættin er mismunandi mikil. Því miður kann ég ekki að gefa frekari skýringar á því hvað veldur og hvers vegna

sértekjurnar fylgja ekki hlutfallslega stærð sýslumannsembættanna.
    Hv. þm. upplýsti okkur um leigukjör embættismanna, sýslumanna og presta. Ég vil af því tilefni einungis segja það að leiga fyrir embættisbústaði heyrir undir mismunandi ráðuneyti. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar og hef lagt drög að því í mínu ráðuneyti að kalla eftir upplýsingum um embættisbústaði og kanna það rækilega hvort það kerfi sem við búum við sé ekki löngu úrelt orðið. Ég tel satt að segja að spurningin snúist ekki lengur um það hvort leigan sé 2 kr. eða 20.000 kr. heldur hvort yfir höfuð sé eðlilegt að íslenska ríkið greiði verulega niður húsnæðiskostnað fyrir suma embættismenn ríkisins á meðan allur almenningur verður að greiða sinn kostnað sjálfur. Mér finnst þess vegna vera kominn tími til að kanna hvort ekki sé hægt að breyta þessu kerfi þannig að um jafnræði sé að ræða milli fólks. Sjálfur veit ég til þess að það hefur skapast hróplegt ósamræmi á vissum stöðum. Þetta gildir ekki einungis í opinbera kerfinu, heldur einnig í bankakerfinu og ég þekki dæmi þess að þegar einstaklingur sem búsettur var á ákveðnum stað úti á landi var gerður að útibússtjóra þá fór hann úr sínu eigin húsnæði og yfir í leiguhúsnæði sem bankinn átti og borgaði aðeins hluta, lítinn hluta af þeirri leigu sem hann gat leigt sitt eigið hús á. Þarna er auðvitað um gífurleg fríðindi að ræða sem í vissum tilvikum a.m.k. sýnast óeðlileg.
    Hv. 18. þm. Reykv., sem reyndar hafði tekið þátt í umræðunni fyrr, varpaði til mín nokkrum fyrirspurnum. Í fyrsta lagi um aðstöðugjaldið. Ég bendi á að aðstöðugjald tilheyrir tekjustofnum sveitarfélaga og þar með heyrir málið undir félmrn. Fjmrn. hefur hins vegar komið að þeirri vinnu sem hefur verið unnin að undanförnu og allt frá því að fyrrv. ráðherrar félagsmála og fjármála úr síðustu ríkisstjórn settu á laggirnar nefnd til þess að kanna þetta mál. Nokkrir útreikningar hafa átt sér stað. Þeir sýna fyrst og fremst að ef um breytingar yrði að ræða mundu tekjur færast frá Reykjavík og til nágrannasveitarfélaganna, þ.e. þeirra sveitarfélaga sem stundum eru kölluð svefnbæir Reykjavíkur.
    Það er ljóst að á undanförnum árum hefur aðstaða sveitarfélaganna breyst, aðstöðugjaldið er sveigjanlegra en áður. Þetta breytir þó ekki því að aðstöðugjald er ákaflega óheppilegur skattur á fyrirtæki og fyrst og fremst af þeirri ástæðu er verið að leita annarra lausna, annarra aðferða til að tryggja sveitarfélögunum eðlilegar tekjur. Ég kemst þó ekki hjá því að segja frá sjónarhóli ríkisins að fjárhagsstaða sveitarfélaga hefur almennt batnað mjög mikið á undanförnum árum og svo mikið að sú nýbreytni hefur átt sér stað að aðilar vinnumarkaðarins skjóta nú örvum sínum fremur til sveitarstjórnanna heldur en ríkisstjórnarinnar þegar rætt er um gjöld og skatta.
    Hv. 18. þm. Reykv. ræddi síðan um einkavæðingu og spurði til hvaða rekstrarþátta útboð gætu náð til. Í því sambandi vil ég minna á að á sínum tíma var samþykkt á Alþingi samhljóða þáltill. þar sem því var beint til fjmrh. á þeim tíma að hann léti kanna það rækilega hvar heppilegt væri að leita útboða. Þetta mál hefur verið kannað, fyrst og fremst með þeim hætti að skoða hvernig aðrar þjóðir fara að. Danir hafa náð nokkuð langt á þessu sviði. Útboð þeirra eru annars vegar til fólks og fyrirtækja sem starfa utan ráðuneytanna og hins vegar til aðila sem eru í raun opinberir starfsmenn.
    Rekstrarþættirnir sem hægt er að bjóða út eru mjög margir, miklu fleiri en ég býst við að komi upp í huga okkar hér á landi, en algengast er þó að þetta nái til þátta eins og ræstinga, mötuneytisþjónustu o.s.frv. En þar sem þjóðir eru lengra komnar hafa miklu stærri einingar verið boðnar út og nánast allt sem hugsast getur, þó man ég ekki eftir að hafa séð að lögregluþjónustan hafi verið boðin út með þessum hætti. Þó kann það vel að vera að einhvers staðar hafi slíkt verið gert. ( Gripið fram í: En tollgæslan?) Tollgæslan er hluti af löggæslunni og gilda því um hana sömu reglur.
    Um innheimtuna vil ég segja að hún hefur batnað mjög mikið. Í byrjun septembermánaðar var ljóst að heimst höfðu inn opinber gjöld, talsvert meira en ráð hafði verið fyrir gert, vegna sérstaks átaks sem fjmrn. efndi til í maí sl. Því miður get ég ekki hér og nú upplýst þingheim um tölur í þessu sambandi, en ég hygg að sá árangur sem þá náðist sé svo mikill að varla verði við því búist að á næsta ári verði hægt að ná slíkum árangri.
    Ég er sammála hv. þm. um að það sé skylda fjmrn. að ráðast gegn svokallaðri svartri atvinnustarfsemi. Ég bendi hins vegar á að það er afar erfitt um vik í mörgum tilvikum. Sum starfsemi er þannig að það er varla hægt að koma því við að nota tæki eins og sjóðskassa og fleira í þeim dúr sem forveri minn fann upp og kom á. Til að mynda fer ýmiss konar markaðsstarfsemi fram, þar á meðal hér í Reykjavík, í Kolaportinu, sem er ákaflega vinsæl starfsemi. Ég vil þó segja það að tryggasta ráðið til að koma í veg fyrir svarta atvinnustarfsemi og það ráð sem víðast hefur gefist best er að fækka og helst að útrýma undanþágum í skattkerfinu. Það tryggir til að mynda í virðisaukaskattskerfinu langbest að skattar skili sér í ríkissjóð.
    Ég veit ekki hvort ætlast var til af hv. 3. þm. Vesturl. að ég tæki þátt í þeim hugleiðingum sem hann fór hér með í ræðustól sem margar hverjar voru athyglisverðar. Ég minni á að hækkun á gjaldskrá Landsvirkjunar fer eftir lögum, enda er Landsvirkjun ekki ríkisfyrirtæki í sama skilningi og önnur fyrirtæki sem veitir þjónustu til landsmanna. Mér finnst mjög eðlilegt að spurt sé hvort ekki sé ástæða til þess að verðlagsferillinn sé annar en Landsvirkjunarstjórnin hefur óskað eftir. Ég bendi á að þau fyrirtæki sem kaupa orku af Landsvirkjun til endursölu þurfa að hækka sína gjaldskrá um 2 / 3 af gjaldskrárhækkun Landsvirkjunar. Ég get ekki lagt dóm á þetta á þessari stundu en mér finnst að þetta sé mál sem hæstv. iðnrh. og ríkisstjórnin þurfi að skoða. Og þótt ríkisstjórnin geti ekki með beinum hætti hlutast til um gjaldskrá Landsvirkjunar þá er það nú svo að ríkisstjórnarflokkarnir eiga sæmilegan aðgang að ýmsum stjórnarmönnum Landsvirkjunar og gætu með þeim hætti haft áhrif á það hvernig Landsvirkjunarstjórn kýs að haga gjaldskrármálum fyrirtækisins á næstu árum og jafnvel áratugum.

    Ég ætla ekki að hefja hér umræður um vexti og gengi. Ég minni einungis á að frændur okkar á Norðurlöndum sem standa utan við Evrópubandalagið, Svíar, Norðmenn og Finnar, hafa allir tengt krónur sínar og reyndar mörk, af því að það eru mörk í Finnlandi, við ECU. Sú tenging hefur leitt til góðs, a.m.k. í Noregi og Svíþjóð, að sögn stjórnvalda þar. Hins vegar kann að vera ákaflega mikilvægt fyrir okkur að fylgjast rækilega með því hvað mun gerast í Finnlandi á næstunni því að svo hagar til í Finnlandi nú um stundir að efnahags- og atvinnulífið þar á í mjög svipuðum erfiðleikum og við eigum í hér á landi. Það var mjög víðtæk samstaða um þessa tengingu á sínum tíma. Síðan þegar í ljós kom að erfiðleikarnir voru meiri en menn áttuðu sig á þá byrjuðu áköll að koma, fyrst og fremst frá útflutningsgreinunum, sem eru tengdar skógarhöggi og pappírsframleiðslu í Finnlandi, ósk um að breyta genginu, fella gengið. Samningar voru lausir til skamms tíma, það var samið í gær eða fyrradag í Finnlandi og kjarasamningar sem gerðir voru voru með þeim hætti að þegar á heildina er litið þá er í raun og veru samið um óbreytt kjör.
    Finnar standa frammi fyrir miklum efnahagsvanda sem m.a. er til kominn vegna þess að Sovétviðskiptin hafa dottið út. Sömu sögu má segja um okkur. Og ég hygg að það væri skynsamlegt af Íslendingum, íslenskum stjórnvöldum, að fylgjast náið með þróuninni í Finnlandi og læra af því sem þeir eru að gera einmitt nú.
    Íslenska hagkerfið er ekkert lokað hagkerfi, það er að opnast smám saman og það er auðvitað hárrétt sem kom fram hjá hv. ræðumanni að innan tíðar geta íslenskir bankar og innlánsstofnanir ekki ákveðið vexti með sama hætti og þær hafa gert. Vextir munu ákvarðast með öðrum hætti og þá verður peningamálastjórnin hér á landi allt öðruvísi en hún hefur verið hingað til og tekur væntanlega mið af þeim stjórntækjum sem notuð eru víðast annars staðar í heiminum og byggjast á því að Seðlabankinn reynir að halda verðlagi krónunnar, genginu, stöðugu með því að kaupa og selja gjaldeyri eftir því hvernig framboð og eftirspurn er á hverjum tíma.
    Ég vona, virðulegi forseti, að ég hafi svarað svona nokkurn veginn þeim fyrirspurnum sem til mín var beint hér að lokum. Og í trausti þess að umræðunni sé að ljúka þá vil ég þakka öllum hv. þm. sem tóku þátt í umræðunni fyrir þolinmæði þeirra, að þeir skyldu sýna þann áhuga að vera hér með mér og okkur til að ræða þetta merkilega frv. allt til þess að klukkan er langt gengin í þrjú að nóttu.