Skýrsla utanrrh. um niðurstöður samninga um Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Miðvikudaginn 23. október 1991, kl. 18:22:00 (399)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
     Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þá skýrslu sem hér hefur verið gefin í dag um þetta samningsuppkast sem nú liggur fyrir. Uppkast er þetta auðvitað og ekkert annað því að enn hefur það ekki hlotið náð fyrir augum utanrmn. og ekki Alþingis þannig að ekkert getur þetta annað verið. Um leið og ég þakka þessa skýrslu þá vil ég líka leggja áherslu á það að ég tel mjög mikilvægt að við fáum skriflega skýrslu upp í hendurnar vegna þess að það er mjög erfitt að henda reiður á því þegar menn tala héðan úr pontu og mikilvægt að fá skýrsluna og fá hana á íslensku. Það má kannski benda fólki á það að í þessari skýrslu eins og hún er núna er bæði notuð enska og franska þannig að menn þurfa að geta talað tungur til þess að geta tileinkað sér innihald skýrslunnar.
    Ég vil ítreka það sem kom fram hér í máli Kristínar Einarsdóttur, 15. þm. Reykv. Mér fannst hún hreyfa mjög mikilvægu máli þegar hún talaði um kynninguna á þessum samningi. Við erum búin að sjá það auglýst að fyrsti kynningarfundur utanrrh. er í kvöld. Það er borgarafundur og það hefur engum verið boðið þar til að mæta til andsvara og það skiptir máli að vita hvort þetta er upphafið að kynningunni. Hvort hún eigi að fara svona fram um landið allt, að ráðherra fari í yfirreið og kynni samninginn og kynni kosti hans en ekki galla, því að það hefur hann ekki gert, og hinir verði síðan að sjá til þess að koma sér sjálfir, eða hvort hann ætlar að bjóða upp á ,,debatt`` um þennan samning þegar þar að kemur. En lokalotunni er sem sagt lokið í þessum samningaviðræðum um Evrópskt efnahagssvæði og fyrir liggur þetta uppkast. Niðurstaða er fengin úr erfiðustu deilumálunum sem auðvitað voru eins og ráðherra orðaði það, hin vanheilaga þrenning, flutningar, fiskur og sjóður.
    Fiskurinn sér í lagi er auðvitað mál sem er okkur mjög mikilvægt og því skiptir okkur miklu efnisleg niðurstaða á því máli og orðalag á öllum hlutum sem hann varðar. Engu að síður er fiskurinn og það sem hann snertir ekki nema brot af þessum samningi og ekki þarf neinum blöðum um það að fletta að þetta er mjög mikið smáatriði í augum þeirra ríkja sem við höfum verið að semja við. Aðalatriðið í þessum samningi fyrir alla aðila er auðvitað það að þarna er verið að búa til eitt markaðssvæði með tæplega 400 millj. íbúa. Og fyrir aðgang að þeim markaði sem við fáum í gegnum þennan samning að flestu leyti, nema náttúrlega ekki hindrunarlausan aðgang með sjávarafurðir því að sú meginkrafa náðist ekki fram, þurfum við að greiða með því að takmarka löggjafaravaldið. Við getum líka kallað það löggjafarrétt eins og hér var sagt, en það er í sjálfu sér ekki aðalatriðið. Við verðum að takmarka löggjafarrétt aðildarríkja á sviðum sem samningurinn nær til eða löggjafarvald Alþingis.
    Utanrrh. lagði áherslu á það strax að lokinni þessari samningsgerð að það mikilvægasta við hana væri að við værum þarna að verða aðilar að samrunaþróuninni í Evrópu. Ég hef sagt það áður og spurt um það áður héðan úr þessari pontu hvernig menn sjái framtíðina fyrir sér. Íslenskir ráðamenn segja að samningurinn komi í staðinn fyrir aðild að Evrópubandalaginu. Aðrir segja að þetta sé millibilsástand og fréttir blaðanna í dag sýna okkur svart á hvítu að það eru ansi margir sem líta þannig á málin. Ég hef beðið hér um framtíðarsýn manna og ég hef gert það ekki bara hér á þingi heldur á fundum sem ég hef verið á. Ég var á fundi sl. laugardag með aðstoðarmanni utanrrh. og þá sagði hann mér sína skoðun á því máli hver yrði framtíð Efnahagssvæðisins og framtíð Íslands á þessu svæði. Skoðun hans var sú að þetta mundi breytast í tvíhliða samning og í rauninni kemur mér skoðun hans afskaplega lítið við vegna þess að ég vil fá þau svör frá ráðherrum sem stefnumarkandi aðilum hvort þeir hafa sett niður fyrir sér þær líkur sem eru í þróuninni. Ég spurði hæstv. forsrh. að því um daginn og þá sagðist hann að hann líta svo á að EB hlyti að telja sig skuldbundið til þess að sýna velvilja og sjá réttindum Íslands borgið í viðskiptum ef flest aðildarríki EFTA gengju inn í Evrópubandalagið. Sem sagt, við áttum að vera upp á náð og miskunn EB komin. Og nú ætla ég að spyrja utanrrh. þessarar sömu spurningar. Ég hef gert það áður og hef ekki fengið svar. Hvernig sér hann fyrir sér stöðu Íslands og stöðu Evrópska efnahagssvæðisins eftir nokkur ár? Og mér finnst mjög mikilvægt að þessari spurningu sé svarað.
    Það hefur verið talað um hræðsluáróður. Það hafa kannski gengið ásakanir hér á báða bóga um hræðsluáróður og músarholusjónarmið. Utanrrh. hefur nú verið nokkuð tamt að nota þetta hugtak en það má líka heimfæra það upp á þá sem tala hvað harðast fyrir þessum samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Stundum tala menn sem mjög erfitt er fyrir leikmenn að sjá við eða etja kappi við um þætti í þessum samningi sem ekki hafa við nein rök að styðjast. Talsvert mikill hræðsluáróður kemur m.a. frá sumum samtökum atvinnurekenda. Undanfarna daga höfum við bæði lesið í blöðum og séð í sjónvarpi viðtöl við menn sem starfa í atvinnulífinu sem beinlínis halda fram villandi upplýsingum um Evrópska efnahagssvæðið. Þeir halda því m.a. fram að ef þetta Evrópska efnahagssvæði verði ekki að veruleika þá þurfum við Íslendingar að aðlaga okkur þýskum stöðlum og kröfum, frönskum stöðlum og kröfum, hollenskum stöðlum og kröfum o.s.frv. Það vita auðvitað allir sem eitthvað þekkja til að innri markaður Evrópubandalagsins verður að veruleika hvort sem Evrópskt efnahagssvæði kemur til eða ekki. Þjóðir, sem verða á þessum innri markaði, munu samræma staðla sína þannig að það verður einn EB-staðall og það verða EB-kröfur, en hvorki þýskar né franskar kröfur, um allt sem varðar vörur og viðskipti.
    Því hefur líka verið haldið hér á lofti að menntun okkar yrði utan garðs ef ekki kæmi til Evrópskt efnahagssvæði og það kom m.a. skýrt fram hér í utandagskrárumræðunni að við mundum þurfa að gjalda nokkuð fyrir það í menntamálum. En ég held að þeir sem hlustuðu á aðalsamningamann Íslendinga í morgun á fundi utanrmn. séu varla í nokkrum vafa um að menntamál eru ekki á samningssviði Evrópubandalagsins nema þá í mjög takmörkuðum mæli. Það kom mjög skýrt fram hjá aðalsamninganefndarmanni Íslands að það væri ekki á valdi framkvæmdanefndar að semja um þau mál.
    Nú stakk það mig dálítið hér í framsögu utanrrh. að hann sagði að samningur um Evrópskt efnahagssvæði tryggði jafnan aðgang að menntastofnunum á svæðinu. Hann orðaði það þannig. Ef maður lítur hins vegar á ákvæðið eins og það stendur í samningnum, ákvæði um starfsmenntun, þá er það mjög almennt orðað og þar er ekkert talað um jafnrétti. Það er talað um að bæta aðstæður námsmanna frá einstökum EES-ríkjum í öðrum EES-ríkjum. Öðruvísi er þetta nú ekki orðað og það er ekkert talað um jafnrétti innan svæðisins. Það sem meira er, og hefur auðvitað komið hér fram, að það næst ekki niður nein niðurfelling á skólagjöldum einfaldlega vegna þess að þetta er mál einstakra þjóðríkja.
    Hið almenna öryggisákvæði hefur hér komið til umræðu og það er varðandi vinnuafl aðallega og fjárfestingu í landi. Þetta svokallaða öryggisákvæði, þ.e. túlkun Íslendinga á þessu öryggisákvæði, er ekki inni í þeim texta sem kallast samantekt á niðurstöðum samninga um EES og við fengum í morgun, þ.e. yfirlýsing Íslendinga er ekki inni í sjálfri samantektinni heldur fylgir hún sem einhliða yfirlýsing um það hvernig Íslendingar hyggist beita öryggisákvæðinu. Þetta er fylgiskjal sem er yfirlýsing Íslendinga. Og orðalagið í þessari yfirlýsingu er þess eðlis að ég held að maður verði að gera það hér að umtalsefni. Þar segir nefnilega, svo að því sé snarað á íslensku, að það verði að eiga sér stað stórfelldur tilflutningur á vinnuafli til tiltekinna svæða, innan ákveðinna starfa eða starfsgreina til þess að gripið sé til öryggisákvæðisins. Líka er talað um að ef um er að ræða alvarlegt ójafnvægi á fasteignamarkaði, og þá er ég að tala um fasteignamarkað í víðum skilningi, þá geti Íslendingar gripið til þessa ákvæðis, þannig að verið er að tryggja ákveðinn neyðarrétt og þá hlýtur maður að spyrja: Hvenær hefur jafnvægið raskast? Er það þegar Vestmanneyingum finnst jafnvægið hafa raskast hjá sér? Þegar Ísfirðingum finnst það hafa raskast hjá sér? Patreksfirðingum? Akureyringum? Hvernig geta menn túlkað þetta ákvæði? (Gripið fram í.) Já, þú skýrir þetta væntanlega betur út fyrir okkur hér á eftir.
    Eitt sem mig langar líka til þess að minnast á varðandi Evrópskt efnahagssvæði er stjórnkerfið sem er á svæðinu. Stjórnkerfinu er kannski best lýst sem völundarhúsi. Breskur íhaldsmaður var hér á þingmannafundi EFTA og EB í sumar, og ef ég man rétt, þá er hann fornvinur forsrh. Hann lýsti þessu stjórnkerfi sem kafkaískri höll og sagðist ekki skilja í því hvernig nokkurn einasta mann langaði inn á þetta svæði. Þetta er alveg rétt hjá manninum og ef við lítum bara til okkar Íslendinga þá er ljóst að við höfum ekki sjálfstæða rödd í stjórnkerfi EES. Við höfum sjálfstæða rödd innan EFTA en ekki í stjórnkerfi EES. Við höfum það ekki í EES-ráðinu og ekki í eftirlitsstofnuninni vegna þess að EFTA á að tala einum rómi. EB á að tala einum rómi og EFTA einum rómi þannig að það verður málamiðlun á málamiðlun ofan. Ég held að það blandist engum hugur um það sem hefur skoðað þessi mál að þarna er um að ræða bæði mjög flókið boð- og ákvörðunarkerfi innan Evrópska efnahagssvæðisins og það er einmitt þess vegna sem t.d. Svisslendingar eru að sækja um aðild að Evrópubandalaginu.
    Mér hefur heyrst að þeir menn sem sitja núna á ráðherrastóli hafi helst það mottó að allt eigi að vera afskaplega einfalt og skilvirkt en það er svo sannarlega ekki einfalt og skilvirkt kerfi sem þeir eru að leiða þjóðina inn í með þessum samningi ef af verður.
    Lokalotan er afstaðin í samningagerðinni og ég held að það sé mikilvægt að við höfum öll í huga að ráðherra var í Lúxemborg ekki að ganga frá samningi um fisk, ekki bara frá samningi um þessi ágreiningsatriði, heldur var hann að ganga frá samningi um Evrópska efnahagssvæðið í heild sinni. Þó að fiskurinn sé mikilvægur verða menn að hafa allt undir þegar þeir vega og meta samninginn, ekki bara sjávarútvegshagsmuni okkar. Þingmenn verða að skoða þennan samning ofan í kjölinn og það verða allir þingmenn að gera, ekki bara nokkrir. Eins og hér hefur komið fram eru þetta einhverjir mikilvægustu samningar sem íslenska lýðveldið hefur gert. Sú skylda hvílir á okkur öllum að skoða þennan samning ofan í kjölinn. Það verða auðvitað fleiri að gera. Það verða hagsmunasamtök ýmiss konar að gera, það verða samtök í atvinnulífinu að gera, það verður verkalýðshreyfingin og það verða fleiri að gera. Ég vona svo sannarlega að sú umræða sem kemur í kjölfar alls þessa eigi eftir að verða málefnaleg og góð þannig að hlutirnir skýrist fremur en það sé reynt að hylja þá móðu eins og mér finnst of mikið hafa verið tíðkað.