Skýrsla utanrrh. um niðurstöður samninga um Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Miðvikudaginn 23. október 1991, kl. 18:35:00 (401)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
     Herra forseti. Ég hef átt viðræður við starfandi þingflokksformann Framsfl. og hann kannast ekki við að hafa samið um eitt eða neitt varðandi tímalengd. Hins vegar hafði sú ósk komið fram. Að mínu viti er ekki ólíklegt að margir líti svo á að þessi umræða hljóti að flokkast undir það málfrelsi sem gert er ráð fyrir þegar um mikilvæg mál er að ræða og tími þess vegna hafður rúmur, ekki 30 mínútna umræða heldur mun rýmri. Ég minni á

það að þegar menn tóku ákvörðun um að tala við þessar þjóðir á sínum tíma fór hér fram umræða sem stóð mjög lengi og engum datt í hug annað en málið væri það stórt að það yrði málfrelsi við þá umræðu. Ég vil undirstrika það að hitinn var svo mikill að menn vildu fella starfandi ríkisstjórn. Ég fæ ekki séð að þegar niðurstaðan liggur fyrir hafi málið smækkað svo að matmálstími manna sé meira virði en umræða um það hér í þingsölum og virðist þá eitthvað hafa farið úr skorðum í þeim miklu umræðum sem átt hafa sér stað um mikilvægi þessa máls. Ég vil því lýsa því yfir að ég lít svo á að ég sé óbundinn af því að tala hér í 15 mínútur, eins og minn réttur hljóðar upp á, og sé ekki að svipta aðra þingmenn Framsfl. rétti til að tala hér í ræðustól á eftir.