Skýrsla utanrrh. um niðurstöður samninga um Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Miðvikudaginn 23. október 1991, kl. 19:01:00 (404)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Ég beindi tilmælum og fyrirspurn til hæstv. utanrrh. og mér finnst afar merkilegt að hann kýs að svara þeim ekki. Fyrirspurnin og tilmælin voru á þá leið hvort honum fyndist eðlilegt að þingið héldi áfram þeirri umræðu sem hér hefur staðið þegar hann hefur kosið að tilkynna þjóðinni að Evrópskt efnahagssvæði sé orðið að veruleika og ætlar að fara til fundar við borgara Reykjavíkur eftir eina og hálfa klukkustund til þess að ræða þann boðskap. Það er vel hugsanlegt að hæstv. utanrrh. hafi ekki sjálfur ákveðið orðalagið á þessum auglýsingum. Ég er alveg tilbúinn að trúa því að einhver ákafamaður í ráðuneytinu hafi ákveðið þetta orðalag. Ef aftur á móti þögn ráðherrans áðan felur það í sér að þetta sé hans orðalag er illt í efni. Ég vil þess vegna spyrja ráðherrann: Er hann ekki reiðubúinn að skýra þinginu frá því hvernig þessi auglýsing er tilkomin og draga ályktun hennar til baka hér í þingsalnum? Ef þetta á að vera forsenda umfjöllunar úti í þjóðfélaginu, að Evrópskt efnahagssvæði sé orðið að veruleika, en þingið og utanrmn. eiga svo að standa í einhverjum þykjustuleik næstu vikur og mánuði, þá er þetta stærsta utanríkismál Íslendinga komið í svo erfiðan farveg að nánast er verið að hafa þingið eða þjóðina að fífli.
    Ég vil þess vegna ítreka tilmæli mín til ráðherrans og spyrja forsetann hvort hann vilji ekki beita sér fyrir því að gert verði smáhlé. Ef ráðherrann vill ekki tjá sig óska ég eftir því við forsetann að aftur verði gert smáhlé svo að þingmenn geti borið saman bækur sínar, hvað skuli gera í ljósi þess sem heyrst hefur á öldum ljósvakans síðustu mínúturnar.