Ráðning erlendra sjómanna á íslensk kaupskip

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 10:45:00 (413)

     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka samgrh. hans svar. Mér þykir þó rétt að fram komi að bæði Norðmenn og Danir hafa farið út í hina svokölluðu alþjóðaskráningu, en þar er nokkur munur á, einkum ef litið er til þess að á norska flotanum eru núna rétt um 29% starfandi Norðmanna. Hinir eru annarra þjóða menn og einkum þá og sér í lagi frá þriðja heiminum. En það er líka athyglisvert að þar eru bara fáein prósent af undirmönnum sem vissulega veldur mönnum miklum áhyggjum, einkum þegar litið er til þess að í stýrimannaskólana koma þeir menn sem hafa fengið undirstöðu í sjómannafræðum, þ.e. undirmenn.
    Hins vegar er þessi þróun allt önnur í Danmörku --- 80% Danir, 20% útlendingar --- og þar hafa stjórnvöld haft veruleg áhrif á og það er annað heldur en hæstv. samgrh. sagði hér um að það væri ekki stjórnvalda að skipta sér af þessu, þetta væri fyrst og fremst málefni útgerðar og sjómanna. Það kann að vera rétt að einhverju leyti en ég vil benda hæstv. samgrh. á það að varðandi skatthlunnindi og ívilnanir til danskrar útgerðar, þá er hún eingöngu veitt ef viðkomandi útgerð hefur ráðið innlenda menn til þjónustu sinnar en ráðning erlendra sjómanna á dönskum skipum gerir það að verkum að skattaívilnanir til útgerðar eru ekki með sama hætti.
    Þá vildi ég taka undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði hér um varðandi áhyggjur verkalýðshreyfingarinnar af EES. Það er vissulega rétt að auðvitað hefur íslensk verkalýðshreyfing áhyggjur af því hvernig muni til takast varðandi vinnumarkaðinn. En ég get ekki tekið undir orð hv. 8. þm. Reykn. hvar hann sagði í fréttum fyrir líklega um tveim dögum síðan að þetta væri slík hætta fyrir íslenska verkalýðshreyfingu að hún mætti búast við því að hingað mundu streyma milljónir manna til starfa. Þar er nokkuð stórt tiltekið. Ég hef það hins vegar á tilfinningunni, og við höfum orðið varir við það í verkalýðshreyfingunni, að vegna gagnkvæmra samninga við

Norðurlöndin hafa mál þróast þannig að fleiri Íslendingar hafa farið á vinnumarkaðinn þar ytra og skipta þar nokkrum þúsundum. Vegna þess samnings sem við höfum gert við hin Norðurlöndin, þá er atvinnuleysi hér á Íslandi minna en ella væri.
    En ég endurtek þakkir mínar til hæstv. samgrh. og ég vænti þess að það sé litið til margra átta varðandi mál þetta og ekki eingöngu ætlað sjómönnum og útgerðarmönnum að leysa þetta mál vegna þess að málið er ekki sjómanna og útgerðarmanna einna heldur þjóðarinnar allrar.