Ráðning erlendra sjómanna á íslensk kaupskip

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 10:49:00 (414)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
     Hæstv. forseti. Vegna ummæla hv. 9. þm. Reykv. þá vil ég aðeins undirstrika það sem raunar hefur áður komið fram hjá ýmsum aðilum að íslensk kaupskipaútgerð á í erfiðri samkeppni við erlenda aðila, bæði í siglingum og flutningum til og frá Íslandi og eins hefur það færst í vöxt að íslensk útgerðarfélög hafa tekið að sér að annast farmflutninga erlendis. Það getur því ekki verið nema til þess að bæta aðstöðu þeirrar samkeppnisstöðu að við gerumst með þessum hætti aðilar að Evrópsku efnahagssvæði og má raunar segja hið sama um Flugleiðir og hagsmuni þess félags. Það hefur af því margs konar ávinning að geta komið inn í þann samkeppnismarkað sem er innan Evrópubandalagsins. Þetta hvort tveggja á að geta orðið til þess að treysta atvinnugrundvöll bæði íslenskra farmanna og flugmanna um leið og það treystir samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem vinna á alþjóðlegum flutningaleiðum.
    Ég vil svo aðeins ítreka það sem ég sagði áðan að vitaskuld koma stjórnvöld inn í þetta mál og af þeim sökum er verið að vinna að þessum málum í samgrn. en það dugir ekki til. Bæði útgerðarmenn, farmenn og stjórnvöld verða að sameinast um að snúa þessari þróun við.