Stefna ríkisstjórnarinnar varðandi ríkisjarðir

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 10:55:00 (419)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
     Hæstv. forseti. Jarðalög og ábúðarlög eru að stofni til frá 1976. Mér gafst að vísu ekki tækifæri til að upplýsa það í umræðum um hið Evrópska efnahagssvæði í gær, en landbrn. hefur ráðið Tryggva Gunnarsson hæstaréttarlögmann til þess að endurskoða í senn jarðalög og ábúðarlög, bæði auðvitað með breytta og kannski aðra nýtingu í huga, eins til þess að greiða fyrir viðskiptum með jarðir ríkissjóðs og síðast en ekki síst til þess að bæta úr því sinnuleysi sem áður var í landbrn. að huga ekki að því hvernig rétt væri að bregaðst við samningum um Evrópskt efnahagssvæði með hliðsjón af því hvernig við gætum gætt þess að jarðir væru sem mest í eigu íslenskra aðila.
    Ég vil minna á að síðasta ríkisstjórn flutti á síðasta þingi frv. um sölu fasteigna. Þar er kveðið á um það að íslenskur ríkisborgari eða erlendur maður sem búið hefur hér á landi í fimm ár hafi heimild til að kaupa fasteignir hér á landi þannig að sú hugmynd er auðvitað ekki ný af nálinni og tengist ekki þeirri samningsgerð nú að erlendum mönnum gefist kostur á að kaupa hér fasteignir.
    Þessi mál eru sem sagt í athugun og vinnslu. Þau eru skemmra á veg komin en ég hefði kosið vegna gagnaöflunar og vegna anna Tryggva Gunnarssonar nú á þessu sumri og hausti en ég kaus að vandlega athuguðu máli að leita samninga við hann um að taka þessa endurskoðun að sér og ég vona að hv. þingmenn fallist á að það sé vel ráðið.
    Hv. þm. spurði um áform ríkisstjórnarinnar varðandi frekari og breytta nýtingu ríkisjarða. Í hvítbók segir um þetta efni:
    ,,Gildandi lög um jarðir og ábúð eru við það miðuð að hefðbundinn búskapur sé stundaður á sem flestum jörðum. Lögin verða endurskoðuð vegna beyttra aðstæðna í þjóðfélaginu og frumvörp lögð fram á Alþingi 1991--1992.``
    Ég vil í þessu sambandi minna á að með búvörusamningi var ákveðið að skerða réttindi til sauðfjárframleiðslu um nær þriðjung. Það er gert ráð fyrir að virkur og óvirkur framleiðsluréttur dragist saman úr rétt 12.000 tonnum niður í 8.600 tonn nú á einu ári. Það er gert ráð fyrir að fækka um 55 þús ær nú á þessu hausti. Þetta hefur að sjálfsögðu í för með sér mikinn samdrátt á sauðfjárræktarsvæðum. Það koma upp mörg álitamál og liggja raunar fyrir fyrirspurnir í landbrn. um það hvort hugsanlegt sé að einstaklingar sem skortir í senn jarðnæði og framleiðslurétt geti komist að ríkisjörðum sem ábúandi hefur horfið frá. Ég hef ekki treyst mér til þess að verða við slíku þó ég á hinn bóginn hafi greitt fyrir því að ábúandi á ríkisjörð sem hefur farið af viðkvæmu svæði eins og Hólsfjallasvæðinu geti komið að annarri ríkisjörð í miðri sveit eða þar sem byggð er þéttari og ekki hætta á landspjöllum eða gróðureyðingu. Auðvitað vill landbrn. greiða fyrir því að bændur á ríkisjörðum geti komist að betri jörðum sem kynnu að fara í eyði, eru betur húsaðar og liggja að betur grónum löndum, ódýrara að búa á o.s.frv.
    Ég vil enn fremur tala um að í hvítbók er talað um að greitt verði fyrir því að áhugasamir aðilar fái landsvæði á ríkisjörðum til fósturs í því skyni að leggja sitt af mörkum til landgræðslu. Þetta er almennt ákvæði. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það eigi að útiloka það að einstaklingar geti fengið land fyrir sumarbústað sem er í ríkiseigu. Sum lönd á viðkvæmum svæðum og þar sem eru sérstakar náttúruperlur eiga að minni hyggju eðli málsins samkvæmt að vera í ríkiseigu, en ég vil þó ekki útiloka að það geti verið skynsamlegt eða hagkvæmt í tengslum við landgræðslu, skógrækt eða af öðrum ástæðum að gefa fólki á þéttbýlisstöðum færi á að koma sér vel fyrir í fallegum héruðum að nýta slíkar jarðir til sumardvalar. En reglur um slíkt verða auðvitað að vera almennar og koma í veg fyrir mismunun í því sambandi.

    Um sölu á ríkisjörðum vil ég aðeins segja að í endurskoðun eru lög um Jarðasjóð og ég vænti þess að frumvarp um þau efni verði lagt fram nú á þinginu í næsta mánuði.