Móttökuskilyrði útvarps og sjónvarps

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 11:12:00 (427)

     Fyrirspyrjandi (Stefán Guðmundsson) :
     Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að bera fram fsp. á þskj. 18 til hæstv. menntmrh. um framkvæmdir við að bæta móttökuskilyrði útvarps og sjónvarps en þar er spurt:
  ,,1. Hvað hefur áunnist í að bæta móttökuskilyrði útvarps og sjónvarps eftir samþykkt Alþingis frá 11. maí 1988 þar sem afdráttarlaus vilji Alþingis kom fram um úrbætur?
    2. Hver eru framkvæmdaáform um að koma upp þeim búnaði sem enn skortir til þess að allar útsendingar Ríkisútvarpsins frá stöðvum þess í Reykjavík náist hvar sem er á landinu og á helstu fiskimiðum við landið?``
    Virðulegi forseti. Ég flutti tillögu um þetta efni á Alþingi árið 1987 og í tengslum við það samþykkti Alþingi í maí 1988 svofellda ályktun:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta nú þegar gera kostnaðar- og framkvæmdaáætlun um útsendingar Ríkisútvarpsins, þ.e. að sendingar hljóðvarps og sjónvarps náist hvar sem er á landinu og á helstu fiskimiðum við landið. Áætlunin miðist við að hægt verði að framkvæma þetta verk fyrir árslok 1991.``
    Það er engum vafa undirorpið að vilji Alþingis var sá að framkvæma efni tillögunnar, þ.e. að búa þannig um að dreifikerfi hljóðvarps og sjónvarps næðist hvar sem er á landinu og á helstu fiskimiðum við landið. Vilji Alþingis á ekki að koma á óvart, fremur hitt hvað það er sem veldur því að ekki hefur verið framfylgt þessari samþykkt því að svo segir í útvarpslögum:
    ,,Ríkisútvarpið skal senda út til alls landsins og næstu miða tvær hljóðvarpsdagskrár og minnst eina sjónvarpsdagskrá árið um kring.``
    Sú staðreynd blasir við að enn hefur ekki tekist að dreifa hljóðvarps- og sjónvarpssendingum til allra landsmanna. Stendur víða svo á að fólk sem býr á ákveðnum svæðum fær ekki notið sjónvarps og nýtur mjög lélegra hlustunarskilyrða hljóðvarps. Og enn verra er þetta ástand hvað varðar mótttökuskilyrðin á miðunum umhverfis landið. Þetta ástand er ekki viðunandi, enda í andstöðu við þá mörkuðu stefnu í útvarpsmálum að Ríkisútvarpið skuli vera útvarp allra landsmanna. Ríkisútvarpið hefur skyldum að gegna við fólkið í landinu, enda standa landsmenn allir undir kostnaði við rekstur þess beint eða óbeint. Ríkisútvarpið er samkvæmt tilgangi sínum sameiginleg menningarstofnun þjóðarinnar og aðalfréttamiðill sem ætlað er að ná til alls landsins. Eitt hlutverk enn er það sem treyst er á að Ríkisútvarpið gegni en það er öryggisþátturinn, það að geta miðlað upplýsingum ef vá steðjar að.
    Virðulegi forseti. Ég vænti þess að fá jákvætt viðhorf og greinargóð svör hæstv. menntmrh. við þessari fyrirspurn.