Móttökuskilyrði útvarps og sjónvarps

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 11:23:00 (431)

     Guðmundur Hallvarðsson :
     Forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa farið fram varðandi þetta öryggismál, svo mikilvægar sem útsendingar sjónvarps og útvarps eru og sérstaklega það sem lýtur að öryggismálum sjómanna. Því miður hefur sáralítil þróun orðið í þá átt frá því að sjónvarpssendingar hófust hvað varðar langdrægni þeirra sendinga. Það hefur meira að segja borið við hvað varðar mjög vinsælan stað, hvar skip hafa lagst í var í vondum veðrum undir Grænuhlíð, að mjög erfiðlega hefur gengið að fá stjórnvöld til þess að beina sjónvarpsgeislum í þá átt. Það hafði verið gert á Skutulsfirði en vegna truflana sjónvarpssendinga í Ísafjarðarkaupstað sem þessi sending sem beint var í átt að Grænuhlíð olli, þá var tekið það ráð að hætta sendingum.
    En ég endurtek það að ég fagna þessum umræðum og ég vona að jafnt landsmenn sem og þeir sem sjóinn sækja eigi von á betrumbót hvað varðar þjónustu ríkisfjölmiðla.